Alþjóðleg samtök þingkvenna, Women in Parliaments Global Forum (WIP), standa fyrir fræðsluferð til Íslands til að kynna sér þann árangur sem náðst hefur hér á landi í jafnrétti kynjanna og stjórnmálaþátttöku kvenna.
Þingkonur frá fjölmörgum þjóðþingum hittast í Reykjavík 3.–4. apríl 2014 til að ræða stefnumótun í jafnréttismálum á Íslandi en Ísland hefur nú forystu í málaflokknum samkvæmt skýrslu skýrslu World Economic Forum’s Global Gender Gap Report 2013. Rætt verður hvort hægt sé að yfirfæra leiðir sem farnar voru á Íslandi á önnur heimssvæði þar sem Ísland er í fararbroddi hvað jafnréttismál snertir.
Á dagskrá fræðsluferðarinnar eru fundir með íslenskum ráðherrum og þingmönnum úr öllum flokkum og vettvangsferðir í fyrirtæki sem konur stjórna. Jafnframt munu þingkonurnar hitta forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson og forsætisráðherra, Sigmund Davíð Gunnlaugsson.
Samtökin Women in Parliaments Global Forum munu veita Vigdísi Finnbogadóttur,sem varð fyrsta konan í heiminum til að ná kjöri sem þjóðhöfðingi, “WIP Award for Lifetime Achievements in Female Political Empowerment“ og tekur hún við viðurkenningunni föstudaginn 4. apríl.
Á fundum WIP á Íslandi gefst íslenskum stjórnmálamönnum færi á að segja frá reynslu sinni af því að vinna að jafnréttismálum og gegn staðalímyndum kynjanna. Í vettvangsferðunum heimsækja þátttakendur fjögur fyrirtæki þar sem konur eru við stjórn en þau eru Actavis, Lýsi, RioTinto Alcan og Steinunn.