Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Vísindakrosssaumur

$
0
0

Ein af lesendum Kvennablaðsins Birna Mar sendi okkur orðsendingu á Facebook og benti okkur á óvanalega listakonu sem framleiðir og selur verk sín á Etsy.com. Etsy er sölusíða þar sem margt handverksfólk og hönnuðir kynna og selja vörur sínar og skrifuðum við um sölusíðuna fyrir nokkru.

Listakonan sem Birna Mar benti okkur á er Alicia Watkins og hún saumar út. En útsaumurinn hennar er óhefðbundinn og líkist í engu þeim útsaumi sem maður á að venjast. Alicia saumar nefnilega út myndir af allskyns bakteríum og veirum en einnig á hún heiður af afar skemmtilegu verki sem heitir „Gob bless the house“ sem sjá má hér að neðan.

gob bless this house

Verkið „Gob bless the house“ þar sem orðið „God“ er visvítandi vitlaus stafsett til að vekja kátínu og auðvitað af ákveðnum mótþróa. Hér er önnur útgáfa af vitlaust stafsettu verki þar sem sá sem saumar játar á sig hræðileg mistök.

gob bless you

Ég skrifaði Aliciu og fékk hana til að svara örfáum spurningum fyrir Kvennablaðið.

Útsaumurinn þinn líkist í engu þeim hefðbundna útsaumi sem enn má sjá á heimilum að minnsta kosti hér á Íslandi. Þetta er ekki dæmigerður „Ömmuútsaumur“. Hvernig kom það til að þú lagðir fyrir þig að hanna og sauma út myndir af veirum og bakteríum?

Lungnabólga

Lungnabólga

Ég hef fengist við útsaum síðan árið 2009 og sannarlega útsaum af því tagi sem ólíklegt er að myndi skreyta veggina hjá ömmum, þar á meðal þekktir frasar úr daglegu tali, dónaleg orð og auðvitað vísindatengdan útsaum. Ég vissi ekki þegar ég var að byrja að til var lítil hreyfing sem kallaði sig „Subversive Cross Stitch“ (Andófskrossaumur) kennd við bók með sama nafni sem hafði komið út nokkrum áður. Þetta er svona dæmi um það þegar fólk á ólíkum stöðum fær svipaðar hugmyndir á sama tíma án þess að vita hvert af öðru.

Salmonella

Salmonella

Ég byggði mína vinnu því á reynslu og tilveru annarra sem fengust við svipaða iðju þegar ég opnaði búðina mína á Etsy í árslok 2011. Í upphafi seldi ég örfá hönnunarstykki, sumt hafði ég hannað til gjafa handa vinum en í raun var það þannig að ég bætti við vörum í samræmi við það hversu hratt ég gat hannað og saumað. Í maí 2012 rak viðskiptavinur á Etsy augun í búðina mína og sérpantaði hjá mér þrjár óvanalegar krosssaumsmyndir sem hún ætlaði að gefa vini sínum. Þetta voru myndir af saurgerlum, flensuvírus og kláðamaur. Ég verð að geta þess að vinurinn sem gjöfina fékk reyndist afar ánægður með hana. En ég var líka sjálf ákaflega hrifin af útkomunni. Við gerð þeirra reyndi á hæfni mína til að hanna krosssaumssnið og ég bætti vísindatengdum stykkjum við búðina mína.

Þarna kennir ýmissa grasa

Þarna kennir ýmissa grasa

Ég hef gaman af óvanalegum og skrýtnum útsaum og sérlega útsaumsmyndum sem gætu talist óhefðbundnar og ókvenlegar, og mér finnst gaman að blanda saman vísindum og krosssaum. Þannig að bakteríu- og veirumyndir urðu að nokkurskonar einkennisvöru búðarinnar minnar og eru alltaf fáanlegar.

Gerlar, veirur og bakteríur. Sannkölluð stofuprýði.

Gerlar, veirur og bakteríur. Sannkölluð stofuprýði.

Úrvalið í verslun minni af myndum til útsaums hefur aukist verulega á síðasta eina og hálfa ári. Stundum fæ ég sérpantanir frá vísindamönnum, stundum heilbrigðisstarfsmönnum og stundum rekst ég bara á eitthvað í gegnum Wikipediu eða á síðu CDC (Center for disease control and prevention).

Ég nota raunverulegar smásjármyndir af bakteríum og veirum þegar ég hanna nýjar myndir … öllum er frjálst að senda mér smásjármyndir eða tengla á myndir sem þeir óska eftir að sjá útsaumaðar. Ég er stöðugt að bæta við í safnið.

Sæði og egg

Sæði og egg

Ég hélt að útsaumur væri deyjandi handverk en get nú tekið gleði mína þar sem þú ert lifandi dæmi um það að krosssaumur er enn við lýði og hefur þróast í skemmtilegar áttir til að mynda í verkum þínum. En hvenær lærðirðu að sauma?

Ég lærði að sauma á níunda áratugnum, þá var ég sex ára en á þeim tíma mátti merkja stutta endurkomu krosssaumsins sem tómstundaiðju í Bandaríkjunum. Ég á enn margar af þeim útsaumsbókum sem ég eignaðist þá og talsvert af garni sem ég eignaðist sem barn. Krosssaumur er einfaldur og á allra færi og þó ég hafi leiðst út í allskyns föndur og aðra handavinnu í gegnum tíðina þá sný ég alltaf aftur í krosssauminn. Hálfklárað krosssaumsstykki, getur beðið mánuði jafnvel fleiri ár án þess að missa gildi sitt. Alltaf er hægt að taka þráðinn upp að nýju. Það er sennilega þess vegna sem ég hef haldið tryggð við krosssauminn.

Dæmi um mynsturhönnun Aliciu sem er seld í verslun hennar.

Dæmi um mynsturhönnun Aliciu sem er seld í verslun hennar.

Þú selur hönnun þína og fullútsaumuð verk á Etsy.com. Hefurðu góða reynslu af því að kynna og selja vörur þínar þar?

Etsy er frábær staður til að kynna og selja vörurnar sínar. Síðan er stór og fær mikla athygli þeirra sem vafra um netið en á sama tíma vita viðskiptavinir að þeir geta komist í samband við búðareiganda, sem er beggja hagur. Mér finnst gott að geta verið í góðu sambandi við mína viðskiptavini og hjálpað þeim ef þeir lenda í vandræðum með mynstrin eða vilja ráðfæra sig við mig vegna sérpantana. Einnig er margt forritað inní hönnun síðunnar sem gerir seljendum og kaupendum auðvelt fyrir. Ég hef alltaf haft í hyggju að standsetja mína eigin síðu en þó ég láti verða af því býst ég við að ég muni halda áfram að nota Etsy.

Flugur bera ýmislegt með sér.

Flugur bera ýmislegt með sér.

Alicia selur hönnun sína fyrir þá sem vilja spreyta sig á útsaumi en selur líka fullkláruð verk eins og fram hefur komið og við hvetjum áhugasama að kynna sér verk hennar frekar hér.

Djöfull er gott að vera glæpamaður

Djöfull er gott að vera glæpamaður

Allar ljósmyndir í þessari grein eru höfundarverk Aliciu.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283