Oft er því fleygt að æska landsins fari hnignandi, það sé af sem áður var þegar ungdómurinn blómstraði og söng Táp og fjör og frískir menn. Að nútíma unglingar séu af hinu illa – löt, hortug og illa innrætt upp til hópa. Ég er þessu svo algerlega ósammála, þó svo ég viti að þjóðflokkurinn sé eins misjafn og hann er margur, bara eins og hann hefur alltaf verið.
Ég er að vísu ekki hlutlaus, þar sem ég er þeirrar gæfu aðnjótandi að vera „eigandi“ brátt átján ára unglings. Ég eignaðist frumburð minn þegar ég var aðeins tvítug og hef ekki eina sekúndu séð eftir því að eiga barn svo ung, þvert á móti hefur hann kennt mér meira en öll mín námsár til samans og gert mig að því sem ég er í dag.
Það er ekki bara hann, heldur þykja mér þeir unglingarnir sem ég þekki upp til hópa frábærir. Ef ég miða við sjálfa mig og þann hóp sem ég ólst upp með fyrir 20 árum, þá eru þau í dag mun sterkari, duglegri, opnari, sjálfsöruggari, víðsýnni og frambærilegri að flestu.
Almar Blær, unglingurinn minn, hefur frá því hann var sex ára stefnt að því að fara í leiklistarnám að framhaldsskóla loknum. Ekki einn einasta dag hefur hann hnikað frá því og ég hef hvergi annarsstaðar orðið vitni að annarri eins festu. Hann hefur verið á sviði allt sitt líf og eflist með hverju árinu. Hann er nú á öðru ári í Menntaskólanum á Egilsstöðum og gegnir þar meðal annars formennsku leikfélagsins, ásamt setu í óteljandi nefndum og ráðum.
Hann, ásamt frábærum hópi samnemanda sinna og leikstjóra, settu á svið leikritið Cry baby, eða Vælukjóa fyrir skemmstu. Þar fór minn maður með aðalhlutverkið af sinni alkunnu snilld og allir aðrir stóðu sig með prýði.
Image may be NSFW.
Clik here to view.
Það er eitt, að standa á sviði undir eðlilegum kringumstæðum, skila sínu og vera fagnað lof í lófa að sýningu lokinni. Hópurinn, sem og samfélagið allt, varð fyrir því erfiðasta áfalli sem hugsast getur um helgina, þegar jafnaldri þeirra, samnemandi og vinur féll frá í blóma lífsins. Tíminn stóð í stað og hver og einn gerði sitt besta til þess að komast í gegnum daginn.
Hópurinn átti tvær sýningar eftir. Hvað átti að gera? Bíða fram yfir jarðaför eða hreinlega slaufa þeim? Yfirbuguð af sorg eftir erfiða minningarathöfn tóku þau ákvörðun á þriðjudaginn. Risu upp, tókust í hendur og augýstu lokasýningu um kvöldið, til heiðurs látnum ástvini.
Húsið var troðfullt. Ég hef aldrei upplifað jafn magnaða stemmningu í einum sal. Sonur minn byrjaði að koma fram fyrir hópinn, minnast félaga þeirra og boða mínútu þögn. Salurinn grét. Að því loknu keyrðu þau sýninguna sem aldrei fyrr. Nýttu sorgina sem kraft sem skilaði einhverju því magnaðasta sem ég hef orðið vitni að.
Þeir sem voru viðstaddir eru allir sammála. Þarna er æsku landsins rétt lýst. Hugrekki, kraftur, dugnaður og þor. Ég hef alltaf verið stolt móðir. Í dag er ég eitthvað umfram það. Ég hef stækkað hjartahólfið um einhver gígabæt, ég er ólýsanlega stolt af þeim öllum! Lifi æskulýðurinn!