Gísli Garðarsson, háskólanemi og í sjötta sæti á framboðslista Vg í Reykjavík skrifar.
Töluverð umræða hefur skapast um framboðslista Vinstrihreyfingarinnar – græns framboð í Reykjavík vegna komandi borgarstjórnarkosninga. Þótti sumum ástæða til að gagnrýna þá ákvörðun félagsfundar að samþykkja lista sem skipaður var þremur konum í efstu þremur sætunum. Var því meðal annars haldið fram að tiltækið væri jafnvel verra en karlalisti Sjálfstæðisflokksins, þar sem Vg ætti að heita jafnréttissinnuð hreyfing.
Einn af „virkum í athugasemdum“ á einum vefmiðlanna komst svo að orði að hér sýndi sig „grímulaus fasismi“ femínismans. Stuðningsmenn annarra flokka sáu hins vegar sóknarfæri og einhverjir Píratar og Dögunarliðar voru búnir að komast að því að þeir væru með fleiri putta á jafnréttispúlsinum en Vinstri græn þar sem þeir væru nú með konu einhvers staðar í efstu þremur sætum listans. Flokkar sem eru samanlagt, miðað við kannanir, að berjast um að koma þremur körlum inn í borgarstjórn.
Vandamálið við þessa gagnrýni er að hún byggir á þeirri forsendu að kynin njóti jafnréttis nú þegar. Að það sé það sama að hafa þrjá karla og þrjár konur í efstu þremur sætum lista. Það væri frábært ef svo væri. En það er bara ekki þannig.
Hallar á karla í stjórnmálum?
Vinstrihreyfingin – grænt framboð er femínískt stjórnmálaafl. Í því felst það markmið að jafna stöðu kynjanna bæði við opinbera ákvarðanatöku og í samfélaginu almennt. Framboðslistar eru ekki ákvarðanavettvangur í sjálfum sér. Því er jöfn kynjaskipting á þeim ekki meginatriðið heldur að þeir leiði til jafnrar kynjaskiptingar þar sem það skiptir máli. Því beitir hreyfingin ekki almennum kynjakvóta heldur kvennakvóta, því að grípa aðeins inn í lýðræðislega niðurstöðu forvala ef hún hallar á konur. Enda teljum við óeðlilegt að leita sérstakra leiða til að tryggja aðkomu karla á sviði þar sem þeir nú sem áður eru í miklum meirihluta. Fjöldi kvenna í samfélaginu endurspeglast ekki í röðum kjörinna fulltrúa, hvorki í sveitarstjórnum né á þingi, hvað þá í ríkisstjórn. Ekki frekar en í skiptingu eigna eða launa. Ekki frekar en í kynjahlutfalli meðal oddvita í Reykjavík í kosningum vorsins.
Í Reykjavík árið 2014 eru sjö listar í framboði til borgarstjórnar og kona leiðir einn þeirra. Sá áttundi sem tilkynnti nýlega fyrirhugað framboð er að sjálfsögðu leiddur af karli líka. Hvernig í veröldinni verða það tvær hliðar sama penings að bjóða fram þrjá karla og þrjár konur í samfélagi þar sem hallar með jafnafgerandi hætti á konur? Í slíku samfélagi hlýtur að þurfa að tryggja aðkomu kvenna.
Fléttulistar tryggja ekki jafnrétti
Vissulega eru fléttulistar viðleitni í þá átt og ágætir svo langt sem þeir ná. En vandamálið með fléttulista er að þeir duga fremur skammt – sér í lagi ef karlar raða sér í oddasætin og kosið er um jafnfá þing- og sveitastjórnasæti hverju sinni og raun ber vitni. En jafnvel þó það væri ekki tilhneigingin er það augljós tölfræðileg staðreynd að í samfélagi þar sem ekki allir notast við fléttulista hrekkur það skammt þegar einn eða tveir flokkar beita þeim. Tækjum við til dæmis óraunhæft en einfalt dæmi um hundrað manna þing þar sem tveir flokkar ættu fimmtíu fulltrúa hvor og annar þeirra hefði sama kynjahlutfall og, svo dæmi sé tekið, þingflokkur Sjálfstæðisflokksins (13 karlar og 6 konur) myndi það ekki skila jafnri kynjaskiptingu á þinginu þó að hinn flokkurinn, sem beitti fléttulista, rakaði inn helmingi greiddra atkvæða. Hvað þá í samfélagi þar sem flokkar með jafnréttisviðleitni – á borði en ekki einvörðungu í orði – eru sjaldnast í þeirri stöðu að fá helming atkvæða. Snéri síðarnefndi flokkurinn í dæminu hins vegar kynjahlutfalli þess fyrrnefnda við væri hann búinn að jafna kynjahlutfallið þar sem það skiptir máli, á þinginu sjálfu.
Markmiðið er jafnrétti
Þegar öllu er á botninn hvolft eru kynjareglur og framboðslistar sem grundvallast á slíkum reglum leið að markmiði en ekki markmið í sjálfum sér. Einn daginn verða slíkar reglur vonandi óþarfar en hlutdeild kvenna í samfélaginu gefur ekki tilefni til þess að draga þá ályktun að sú stund sé runnin upp. Sem betur fer, að mínu mati, hafa Vinstri græn í Reykjavík það að markmiði að kynjahlutfall í borgarstjórn sé jafnt frekar en að einblína á jafnt hlutfall á framboðslistum. Það veitir ekki af í kosningum þar sem samantekin kynjaskipting efstu þriggja frambjóðenda á öllum framkomnum listum í framboði að okkur undanskildum er 11 karlar og 7 konur. Þegar Vinstri græn teljast með er heildarhlutfallið jafnað í 11 karla og 10 konur. Að minnsta kosti uns fleiri framboð blanda sér í baráttuna.