Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Íslensk kventónskáld 2. pistill

$
0
0

Haustið 2013 gerði Una Margrét Jónsdóttir 6 útvarpsþætti sem fluttir voru á Rás 1 hjá Ríkisútvarpinu undir heitinu „Tónlist í straujárni“. Þeir fjölluðu um fyrstu íslensku kventónskáldin. Í Kvennablaðinu verða birtar greinar um nokkur af þessum tónskáldum, allt konur fæddar fyrir aldamótin 1900, en greinarnar eru byggðar á útvarpsþáttunum. Tónskáldin sem fjallað var um í 1. pistli Unu Margrétar eru Kirstín Guðjohnsen og Valgerður L. Briem. Hér í 2. pistli skrifar Una um Elísabetu Jónsdóttur á Grenjaðarstað.

Elísabet Jónsdóttir

Elísabet Jónsdóttir á Grenjaðarstað.

María Elísabet Jónsdóttir fæddist 1869. Faðir hennar, sr. Jón Björnsson, varð prestur á Stokkseyri árið 1876 þegar Elísabet var 7 ára. Litla stúlkan hafði tónlistarhæfileika og þetta sama ár gaf faðir hennar henni lítið harmóníum. Bjarni Pálsson á Syðra-Seli sagði henni til í orgelleik, en hann hafði lært af Sylvíu dóttur Thorgrimsen-hjónanna í „Húsinu“ svokallaða á Eyrarbakka. Thorgrimsen var verslunarstjóri og mikið tónlistarlíf á heimili hans og konu hans í „Húsinu“.
Á unglingsárum dvaldist Elísabet nokkrum sinum í Reykjavík og fékk þar einnig tónlistarkennslu. Brátt var hún sjálf farin að kenna ungu fólki á Eyrarbakka að leika á hljóðfæri. Árið 1893, þegar hún var tuttugu og fjögurra ára gömul, giftist hún Pétri Helga Hjálmarssyni prestaskólastúdent. Hann var vígður árið 1895 til Helgastaðaprestakalls í Suður-Þingeyjarprófastsdæmi og fluttust þau þangað. Þau urðu hins vegar fyrir slæmu áfalli árið eftir því meðan þau voru í skemmtiferð í Mývatnssveit brann bærinn á Helgastöðum og mestallt innbú. Ásmundur Gíslason segir í minningargrein um Elísabetu:

Næsta sumar var reist timburhús á brunarústunum, og þegar ég kom til þeirra um þær mundir, var spaugað eins og áður, og enn leikið á hljóðfæri og sungið. Þá komu harðindaár, og skuldir hvíldu þungt á herðum þeirra, en eftir að þau fluttu að Grenjaðarstað árið 1907, fór hagurinn batnandi með hverju ári.

Á Grenjaðarstað bjuggu þau í 23 ár. Elísabet er því oft kennd við bæinn og kölluð Elísabet Jónsdóttir á Grenjaðarstað. Auk húsmóðurstarfanna var hún kirkjuorganisti og tók mikinn þátt í félagslífi sveitarinnar, æfði stundum sönghópa sem sungu opinberlega. Og hún samdi lög. Nokkur þeirra sendi hún tónskáldinu sr. Bjarna Þorsteinssyni til yfirferðar. Varðveist hefur bréf frá henni til Bjarna, þar sem óöryggi hennar yfir tónsmíðunum kemur vel fram (stafsetning óbreytt):

Grenjaðarstað 24 aug. 1914.

Herra prestur síra Bjarni Þorsteinsson.
Jeg þakka yður alúðlega fyrir það sem þér gjörðuð fyrir lögin, sem ég sendi yður með manni mínum fyrir rúmum 2 árum, og sem ég líka bið yður fyrirgéfa að ég gjörði, þarsem við erum alveg ókunnug, en ég treysti yður til að líta ekki of smáum augum á þessar barnalegu tilraunir mínar í lagagjörð, sem verða til aðeins af sterkri tilhneigjingu í áttina til að „skapa sjálf“ en sem ég bæði er ófær til af ónógri þekkingu, og því að mestu aðeins eyrað, sem ræður, og svo af tímaleysi til að vanda alt betur, og verður því alt, af þessum orsökum, kák. Samt sem áður legg ég ekki árar í bát, heldur gríp í tómstundum mínum í eitt og eitt lag, og hefur altaf langað til að senda yður hrafl af því, sem dálítið hefur farið á gang hér, og sumir kvatt mig til að láta prenta, en ég er ákaflega feimin að láta þetta sjást, og finn svo vel vanmátt minn í þessu efni, og legg nú þessi fáu lög undir yðar dóm, og bið yður gjöra svo vel og fara nákvæmlega yfir þau, og segja mér svo afdráttarlaust dóm yðar um þau, galla þeirra, villur og smekkleysur, og draga ekkert úr aðfinningunum, ég þoli þær svo undur vel og álít þann „vin sem til vamma segjir.

Einhver hvatningarorð hlýtur Elísabet að hafa fengið frá Bjarna því árið 1915 birtist lag hennar, „Farfuglarnir“ í tímaritinu Óðni, líklega annað lagið eftir íslenska konu sem birtist á prenti.
Sama ár og lagið birtist stjórnaði Elísabet stórum kór á héraðsmóti Suður-Þingeyinga á Breiðumýri og þótti vel takast. Í bréfum hennar má sjá að hún hafði líka nóg að gera við söngstjórn á árunum sem í hönd fóru, oft í tengslum við samkomur Kvenfélagsins. 23. apríl 1918 skrifar hún vinkonu sinni, Þórhöllu Jónsdóttur, um fyrirhugaða skemmtun í sveitinni og segir (stafsetning óbreytt):

Jeg gjörði alvöru úr því að biðja Reykhverfinga að syngja fyrir okkur án endurgjalds, en fékk orð frá Páli nýlega, að þeir skyldu syngja fyrir 10 kr. en af því að ég bý nú fyrir alla deildina okkar, ætla ég að vera búkona og þyggja það ekki; og í mikilmensku minni fór ég til og fékk mér aðeins 2 – sko bara tvo, verkamenn í viðbót við mitt eigið heimilisfólk, og með þeirri ókeypis vinnu er ég að byrja að æfa örfá lög til að tjalda með á samkomunni, það er 8 manns með mér, 4 piltar og við 4 hér, og svo tel ég þig þá 9, má ég það?

Árið 1930 hætti maður Elísabetar prestskap, þau fluttust til Reykjavíkur og byggðu sér hús við Hringbraut 144 sem enn ber merkið „Grenjaðarstaður“ fyrir ofan dyrnar. Elísabet lést 1945, en fáeinum árum seinna komu 9 sönglög hennar út í hefti sem Árni Björnsson tónskáld bjó til prentunar og ber heitið „Þrá“.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283