Þar sem ég sit á stól úr stáli og basti, hífi ég pilsið á kjólnum upp úr götunni. Það er heitt úti og mig vantar loft um leggina. Við borð í metersfjarlægð sitja tvær konur. Önnur á miðjum aldri, þéttvaxin með varalit og rautt silkiblóm í hárinu. Ljós yfirlitum. Hún er sú yngri.
Til móts við hana situr gömul kona. Grá fyrir hærum og með gleraugu. Hún er í rósóttum bol með stuttum ermum og hvítum hnébuxum. Sandalarnir eru opnir. Undan ermunum blasa við mér handleggirnir. Ég horfi aftan á. Húðin er yfirmáta slök og krumpur og doppur á hvítu yfirborðinu. Stöku marblettur.
Ég hef ekkert að gera; er ekkert sérstakt að hugsa. En ég á það til að skoða fólk og leyfa huganum að spekúlera í persónum og lífinu sem litar þær. Augu mín bak við sólgleraugun mæla út þessa gömlu konu, niður æðabera og hnýtta fótleggi frá hnjám og út í tær sem hafa bognað með árunum. Neglurnar eru skorpnar.
Ég geri mér grein fyrir því að elli kerling getur leikið fólkið grátt, ég virði fyrir mér andlitið undir gleraugunum og gráum þunnum lufsum af hári sem einu sinni voru kannski brúnir og þykkir lokkar.
Hrukkurnar liðast um kinnarnar, teygja sig upp undir augun og allt niður hálsinn. Í röndum og pokum í slappri húðinni. Varirnar ofurþunnar.
Þegar þær breiða úr sér í brosi, lifnar yfir krumpum og krókaleiðum. Markað andlitið breytir um svip. Þegar hún teygir sig í bolla af kaffi og sötrar í framhaldi, titrar slappur poki undir arminum. En hún er enn að brosa, hlær við konunni sem situr hinum megin við borðið, sennilega dóttir hennar. Það rennur upp fyrir mér ljós.
Andlitið er markað gleði. Hugur, hjarta og sál hefur lifað þessu lífi. Skelin kann að vera úr sér gengin og farin að láta á sjá. En bak við augun blá og undir skinninu er sálin sem hana byggði. Og byggir enn.
Ég tek ofan gleraugun og þar með ofan fyrir ellinni sem segir mér að allt sé til einhvers, svo lengi sem ég brosi. Þó að hofið verði sprungið og lúið, litað af tímans tönn, þá hýsir það söguna með öllum leikurum og leikmunum; lífið mitt.
Við hittumst víst á endanum, ég og ellin. Hvers vil ég minnast þá?
Ég skal vanda mig.