Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingkona VG, hefur lagt fram fyrirspurn til ráðherra um hrefnuveiðar og hagsmuni Íslendinga af veiðunum. Rósa Björk spyr Þorgerði Katrínu meðal annars hvort hagur af veiðunum hafi verið metnir gagnvart öðrum hagsmunum, til dæmis ferðaþjónustu. Hafi slíkt ekki verið gert er ráðherra beðinn svara við því hvort hún muni beita sér fyrir slíkri athugun.
Þá er óskað skýringa á því hvort áhrif hrefnuveiða á ferðaþjónustu suðvestanlands, einkum hvalaskoðunar og annarrar útilífsferðaþjónustu sem tengd er hafi og ströndum, hafi verið skoðuð og ef svo er ekki, mun slík könnun fara fram? Óskað er afstöðu ráðherra til samþykktar Reykjavíkurborgar og Samtaka ferðaþjónustunnar frá því í desember 2014 um að Faxaflói verði griðastaður hvala.
Rósa Björk vill svar við því hver afstaða ráðherra er til þess að undanfarin ár hefur meðalþyngd veiddra hrefna verið nálægt 4,5 tonnum sem bendir til þess að einkum séu veidd ung dýr sem ekki hafa aukið kyn sitt? Hvaða áhrif er talið að þetta hafi á stofnstærð hrefnu og nýliðun og telur ráðherra að þörf sé sérstakra viðbragða við þessu? Þá vill þingkonan vita hvaða rannsóknir hafa verið gerðar á dauðatíma hrefna sem hafa verið skotnar hér við land sl. fimm ár, hvaða aðilar hafa staðið að þeim og hverjar hafa helstu niðurstöður þeirra verið?