„Alþingi ályktar að fela sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að kanna stöðu kjötræktar og skipuleggja aðgerðaáætlun um innleiðingu tækni fyrir íslenskan landbúnað með það að markmiði að flýta fyrir því að kjötrækt verði samkeppnishæf við afurðir af hefðbundinni veiði eða ræktun dýra til manneldis,“ segir í þingsályktunartillögu frá Birni Leví Gunnarssyni, þingmanni Pírata, sem lög var fyrir þingið í gær.
Kjötrækt er aðferð til þess að búa til kjöt án þess að slátra þurfi dýri. Umtalsverð framþróun hefur orðið á þessu sviði undanfarin ár. „Hugmyndin hefur verið til síðan 1912 þegar Alexis Carrel tókst að halda frumum úr hjarta kjúklings á lífi í 34 ár utan líkama lifandi lífveru. Winston Churchill spáði því árið 1931 að innan 50 ára yrðum við laus við þann fáránleika að þurfa að rækta heilan kjúkling til þess að borða bara læri eða bringu. Árið 1995 samþykkti matvælastofnun Bandaríkjanna (FDA) tilraunir til að rækta kjöt með það að markmiði að matur yrði ekki vandamál í löngum geimferðum,“ segir í greinargerð þingsályktunartillögunnar.
Árið 2013 voru svokallaðir tilraunastofuborgarar nokkuð í fréttum. Það var þó ekki vegna þess að tækni við ræktun kjöts hefði fleygt sérstaklega fram það ár heldur vegna umræðu um mengun frá frá kjötframleiðslu var talsvert til umræðu. Kostnaðurinn við kjötræktun á tilraunastofu var og er enn gríðarlega hár. Árið 2013 var kostnaðurinn við ræktun kjöts í einn hamborgara um 325 þúsund dollarar eða rétt undir 35 milljónum á stykkið. Tilraunastofuhamborgarar voru því ekki vænleg lausn fyrir almenning það árið. Árið 2015 hafði þessi kostnaður þó lækkað niður í rétt rúma ellefu dali á hamborgarakjöt. Það samsvarar því að stykkið kosti milli ellefu og tólf hundruð krónur. Kílóverð við framleiðslu á kjötinu er um 8500 krónur. Það er því enn nokkuð langt í land en árangur vísindanna við að lækka kostnaðinn hefur orðið til þess að margir telja ræktað kjöt verða vænlegt til manneldis á næstu árum.
„Helsti kostur þess að rækta kjöt umfram dýrarækt til manneldis eru umhverfisáhrifin og, þótt það eigi síður við á Íslandi, að ekki þarf að nota sýklalyf í kjötrækt. Viðamiklar rannsóknir hafa verið gerðar á umhverfisáhrifum kjötræktar. Kjötrækt sendir 78–96% minna af gróðurhúsalofttegundum frá sér en hefðbundin dýrarækt, notar 99% minna landrými og 82– 96% minna af vatni. Einungis fuglarækt notaði minni orku, annars þarf kjötrækt 7–45% minni orku en hefðbundin dýrarækt,“ segir í umsögn þingsályktunartillögunnar. „Óháð því hvað Ísland gerir til þess að undirbúa tilkomu þessarar tækni til matvælaframleiðslu mun hérlendis þurfa að glíma við þær breytingar sem kjötrækt hefur á neysluvenjur. Þó að eftirspurn eftir kjöti úr dýrum hverfi örugglega ekki minnkar hún líklega mjög, þó ekki sé nema vegna umhverfisáhrifanna. Það hefur mögulega veruleg áhrif á landbúnað og sjávarútveg á Íslandi sem og annars staðar í heiminum. Því er mjög brýnt að Ísland sé undirbúið fyrir þessar tækniframfarir, bæði með aðgerðaáætlun og lögum.“