Það var grein í Fréttablaðinu í morgun sem rak mig til að setjast niður og skrifa þennan pistil. Greinin var um það meðal annars að helmingur þeirra sem fara í tæknisæðingu hjá fyrirtækinu Art Medica eru einhleypar og samkynhneigðar konur. Það er náttúrlega stórkostlegt að lögin séu hliðholl konum á Íslandi óháð kynhneigð og hjúskaparstöðu. Samkynhneigðar konur öðluðust þennan rétt árið 2008 og ári síðar hlutu einhleypar konur sama rétt.
Í greininni kom líka fram að langflestar konur, einhleypar og samkynhneigðar, velja þegar um tæknisæðingu er að ræða að fá sæði frá svokölluðum opnum sæðisgjafa en þá geta börnin fengið að vita hver sæðisgjafinn er við 18 ára aldur hafi þau frumkvæði að því. En hvað um þær mæður sem ekki velja þennan kost? Ef móðir velur að eignast barn með svokölluðum lokuðum sæðisgjafa er réttur barnsins til að leita upplýsinga um faðerni sitt við 18 ára aldur eða síðar enginn.
Réttur konu til barneigna er sumsé yfirsterkari rétti barns til að vita uppruna sinn. Er það eðlilegt? Er þetta ekki brot á mannréttindum barnsins?
Aftur á móti er allt annað uppi á teningnum þegar um gagnkynhneigð pör er að ræða eða eins og Þórður Óskarsson kvensjúkdómalæknir hjá Art Medica segir í viðtali í grein Fréttablaðsins: “Gagnkynhneigð pör sem þurfa gjafasæði velja yfirleitt gjafa sem ekki má gefa upplýsingar um.”
Réttur gagnkynhneigðra para til barneigna er sumsé yfirsterkari rétti barns til að vita uppruna sinn. Er það eðlilegt? Er þetta ekki brot á mannréttindum barnsins?
Hvers vegna er þetta svo? Er það virkilega enn feimnismál hjá pörum að leita sér aðstoðar við barneignir með því að nota gjafasæði? Eru það oftar karlmenn sem gera kröfu um að tilurð getnaðar og faðerni sé haldið leyndu frá barni? Hvað veldur því að pör velja yfirleitt gjafa sem ekki má gefa upplýsingar um?
Er eðlilegt að þetta sé yfirleitt valkvætt? Hvort sem um er að ræða einhleypar og samkynhneigðar konur eða gagnkynhneigð pör?
Er það ekki baráttumál samfélagsins alls að öll börn sem getin eru með þessum hætti fái þá lagalegu stöðu að geta leitað uppruna síns ef þau kjósa það? Þarf ekki að festa í lög að allir sem eignast börn með aðstoð gjafasæðis fái sæði frá opnum sæðisgjöfum?
Það er mikilvægt að vita hvernig þetta er í reynd fyrir þá einstaklinga sem getnir eru með þessum hætti.
Hversu mörg börn sem hafa vitneskju um að þau voru getin með gjafasæði frá svokölluðum opnum sæðisgjafa vilja afla sér upplýsinga um blóðföður sinn þegar þau hafa lagalegan aldur til?
Hversu margir kjósa að hitta blóðföður sinn? Eru til einhverjar rannsóknir um slíkt á Íslandi?
Hvaða tilfinningar vakna við slíka vitneskju eða slík kynni?
Börn sem getin eru með gjafasæði frá svokölluðum lokuðum sæðisgjafa en fá engu að síður upplýsingar frá foreldrum sínum um tilkomu getnaðar, hvernig bregðast þau við á fullorðinsaldri?
Vakna spurningar, þrá eftir að hitta blóðföður þótt ekki sé nema fyrir forvitnisakir?
Geta verið erfðafræðilegir þættir sem kalla á að viðkomandi barni sé lífsnauðsynlegt að vita hver faðir þess er?
Upplifa þessi börn sig jafnvel svikin af móður og uppeldisföður jafnvel kerfinu sjálfu?
Ef einhverjir slíkir einstaklingar eru tilbúnir að segja Kvennablaðinu sögu sína undir nafni eða undir nafnleynd þá tökum við því fegins hendi. Mér finnst okkur bera skylda til að heyra og hlusta á afstöðu barna sem getin eru með þessum hætti. Í þeim tilgangi að bæta megi réttarstöðu ófæddra einstaklinga sem greinilega þörf er á.
Fróðlegt væri einnig að vita hvernig það er að eignast barn og segja því ekki og jafnvel geta ekki sagt því sannleikann um uppruna þess? Ég get ekki gert mér það í hugarlund hvernig það er að vera í þeirri aðstöðu en ég get mér þess til að það sé mörgum erfitt, jafnvel þungbært.
Er þráin eftir barni og uppfylling þeirrar óskar öllum mannréttindum yfirsterkari?
Þeir sem vilja skrifa okkur sendi bréf á kvennabladid@kvennabladid.is
Ljósmynd eftir Ross Catrow