Björk Gísladóttir hjúkrunarfræðingur skrifar:
Eðlilegt er að börn hafi hægðir þrisvar á dag niður í einu sinni annan hvern dag. Ef hægðalosun er oftar eða sjaldnar en það þyrfti að athuga málið. Fylgist með hve mikið magn er að koma í hvert skipti sem barnið hefur hægðir, eðlilegt er að barn skili sem samsvarar ½ bolla á dag. Mikilvægt er að skoða hægðirnar af og til, þær ættu að líta út eins og mjúk brún pylsa. Gætið þess að hægðir verði ekki að einhverju feimnismáli sem þarf að fela og skammast sín fyrir.
Hægðatregða hjá börnum á leikskólaaldri er algengt vandamál og ættu foreldrar að þekkja eftirfarandi einkenni hægðatregðu: Hægðir koma sjaldnar en þrisvar í viku.
Harðar hægðir og lítið kemur, minnir á litlar kúlur. Stundum harðar og miklar hægðir, lystarleysi og ógleði, kviðverkir, þaninn kviður (naflinn jafnvel orðinn flatur) og Stundum labba börnin á tánum. Tíð bremsuför í nærbuxum eða klíningur og stundum sést ferskt blóð sést utan á hægðunum.
Mikilvægt er að kunna þessi helstu ráð til að sporna við þessu.
Mikilvægt er að gefa barninu góða og fjölbreytta fæðu. Einhæft fæði t.d. Mikil mjólkurneysla, getur stuðlað að hægðatregðu. Reynið að fara ekki mikið yfir tvær til þrjár mjólkurafurðir á dag. Sleppið sætabrauði og kexi, gefið frekar sæta ávexti sem millibita, t.d kíwi, vínber og perur. Þurrkaðir ávextir eru einnig góðir, t.d. steinlausar sveskjur, apríkósur, döðlur og fíkjur. Trefjarnar og sykurefnin hjálpa til við að halda hægðunum mjúkum.
Mikilvægt er einnig að muna efir vatninu. Gott er að gefa barninu dökkt grænmeti því það inniheldur góðar trefjar ásamt miklu kalki og öðrum góðum næringarefnum. Hörfræolía og aðrar góðar olíur eru einnig æskilegar. Hreyfing er alltaf góð. Venjið barnið á að svara alltaf hægðaþörfinni strax. Ekki bíða og fresta því að fara á klósettið. Mikilvægt er að barnið venji sig ekki á það að halda í sér. Þetta á að vera jafn eðlilegt og hvað annað sem við gerum, því ætti það að vera sjálfsagt mál að fara og kúka í leikskólanum sem og á öllum almenningsstöðum.
Ristilinn er virkastur þegar barnið vaknar og eftir heita máltíð. Best er því að barnið fari á klósettið um 10-15 mínútum eftir að það vaknar eða eftir máltíð því að þá er neðsti hluti ristilsins búinn að fá skilaboð um að slaka á og því er hægðaþörfin sterkust á þeim tíma. Þó er mikilvægt að hafa í huga að þegar mikið er um að vera hjá barninu fer ristilinn í pásu og þá er ekki hægt að ætlast til að mikið gerist. Því ætti alltaf að reyna að velja rólegan tíma dagsins.
Ef þessi ráð duga ekki er mikilvægt að leita til heimilislæknis eða barnalæknis.
Ef engin vefræn skýring finnst á hægðatregðunni er hægt að snúa þessari þróun við með aðstoð frá fagaðilum.
Stundum getur hægðatregða orðið að alvarlegu ástandi yfir lengri tíma. Dæmi um það er barn sem er orðið fjögurra ára eða eldra og er oft að missa í brókina ómeðvitað, finnur lítið fyrir linu hægðunum sem það missir og finnur heldur ekki lyktina sem kemur með.
Barnið er hins vegar orðið nógu stórt til að vita af þessum vanda, skammast sín gjarnan en hefur ekki hugmynd hvernig hægt sé að laga þetta. Þegar svona ástand hefur varað í þrjá mánuði eða jafnvel lengur kallast þetta framhjáhlaup.
Sem betur fer eru til ráð við þessu.
Heimahjúkrun barna er með góða meðferð sem kallast KíK meðferðin, eða “kúka í klósettið”. Það er atferlismeðferð sem gengur út á að snúa þessu ferli við með því að kenna barninu að bregðast við hægðaþörfinni, slaka á og sleppa í staðinn fyrir að halda í sér. Byrjað er á því að hjálpa barninu að tæma ristilinn sem er jafnvel orðinn allt of stór og vanvirkur af þeim sökum. Þegar því er lokið er barninu og foreldrunum kennt að fara eftir ákveðnu prógrammi. Einnig er veitt önnur fræðsla um gott mataræði og aðferðir við að sitja á klósettinu svo dæmi séu tekin. Ykkar læknir getur beðið um þessa þjónustu til Heilsueflingarmiðstövarinnar, sótt beiðni á hem.is.