104 þúsund eru ekki 150 þúsund og hvað þá 350 þúsund. Þetta er ekki mjög flókið en þó hafa stjórnmálamenn – með nokkrum skýrum undantekningum – sameinast um að halda þessu fram í kjölfar sóðalegrar hækkunar á launum kjörinna fulltrúa. 45% hækkun á einu bretti, samþykkt á kjördag en ekki tilkynnt fyrr en eftir kosningar.
Málið bætist í sarp þess sem falið var fyrir almenningi framyfir kosningar.
- Þingið samþykkti samgönguáætlun rétt fyrir kosningar en sá ekki ástæðu til að fjármagna hana. Fjármálaráðherra talaði þó alla kosningabaráttuna eins og staða ríkissjóðs væri góð og loforðin fjármögnuð.
- Þingmenn, ráðherrar og forseti fengu launahækkun á kjördag. Þeirri niðurstöðu var leynt fyrir almenningi af fullkominni fyrirlitningu fyrir almenningi og rétt kjósenda til að nýta atkvæði sitt með meðvituðum hætti.
- Bjarni stakk skýrslu um skattaskjól undir stól fram yfir kosningar og laug svo um það. Ítrekað hefur hann svo gefið villandi mynd af innihaldi skýrslunnar.
- Bjarni stakk skýrslu um leiðréttinguna undir stól fram yfir kosningar.
Furðulegast við þetta kjararáðsmál eru svo hugmyndir þingmanna um að það sé einhvern veginn sóðalegra að grípa inn og tryggja sátt. Ef þau geri það þá séu þau að lita út fyrir einhvers konar skapalón sem þau hafa í hausnum á sér um faglegheit og sniðuga pólitík.
Svona vitleysa gerist bara í landi þar sem siðferðisvitund stjórnmálanna er beinlínis í kapphlaupi á botninn. Stjórnmálin á Íslandi eru stjórnmál hversdagssiðleysis. Þar sem skipulagsleysi er krúttlegt og það að leyna upplýsingum er leiðindarklúður.
Landi þar sem hugtökum er miskunnarlaust ruglað saman og tungumálinu er stolið til að verja valdið. Unga fólkið verður bara að lifa minimalískum lífsstíl á minimalískum launum með minimalísk réttindi í minimalískum gámahúsum. Búsáhaldabyltingin verður að valdaráni, mótmælendur eru skríll, virkur í athugasemdum árás á borgaraleg gildi, andóf óþjóðlegt og 104 þúsund verða 150 þúsund en samt eiginlega 350 þúsund. Þar sem skattaskjól verða ekki skattaskjól og kannski ætti Ísland bara að vera skattaskól.
Velkominn í land hversdagssiðleysisins. Þar sem stjórnmálastéttin sameinast um það verkefni að þurfa aldrei að taka ábyrgð, kranavatn er selt á uppsprengdu verði til útlendinga af innfluttum þrælum og þjóðarsáttin er borin á herðum fiskvinnslufólks og hrunið var flatskjárkaupum almenningsins að kenna sem og hjúkrunarkonum og kennurum en samt eiginlega bara útlendingum. Allavega er það þess virði að Hannes Hólmsteinn fái slatta af milljónum til að rannska þá tilgátu svona rétt svo hann geti nú borgað af húsinu sínu og ferðast svolítið hressilega um heiminn.
Já, og ráðamenn baða sig í lofi vegna móttöku flóttafólks á meðan Útlendingastofnun hefur það hlutverk að moka sem flestum úr landi. Þingkona fær upphefð fyrir að gefa á brjóst á meðan hún talar fyrir frumvarpi sem sviptir hælisleitendur réttindum og áfengi í matvöruverslanir er risavaxið náttúrulegt frelsismál en ríkisstjórn með minnihluta atkvæða og mestu óvinsældir við myndun frá stofnun lýðveldisins telst þó hafa lýðræðislegt umboð.
Já, og aðstöðubraskari verður yfir formaður ráðgefandi siðanefndar Alþingis.
Þetta er ekki grín… stjórnmálamennirnir bera bara svona mikla fyrirlitningu í brjósti gagnvart almenningi.
Í vegferð þingsins og framkvæmdavaldsins til að viðhalda launahækkun langt umfram það sem eðlilegt getur talist hefur ýmislegt komið í ljós. Þar á meðal viðurkenning þingsins á því að kjörnir fulltrúar ganga um kostnaðargreiðslur sem laun en ekki greiðslur vegna kostnaðar. Sigurður Ingi Jóhannsson, fyrrverandi forsætisráðherra, sagði í pontu þingsins að laun þingmanna hefðu verið lækkuð um 150 þúsund á mánuði. Hann leiðrétti sig svo og sagði starfskjör. „Formenn allra flokka og forsvarsmenn, þar á meðal Pírata, komu saman í desember og fjölluðu um það hvernig ætti að taka á þessu kjararáðsmáli. Menn veltu fyrir sér hvort möguleiki væri að fella alla þrjá úrskurðina úr gildi, þ.e. varðandi dómara, embættismenn og síðan kjörna fulltrúa, og komust að þeirri niðurstöðu að það væri ekki í boði, heldur yrði að fara þá leið sem farin var með því að formenn og forystumenn allra flokka, þar á meðal Pírata, skrifuðu bréf til forsætisnefndar og báðu um tiltekna aðgerð sem gerð var og lækkaði laun, starfskjör þingmanna, um 150 þúsund kr. til að koma til móts við þau sjónarmið sem uppi eru á vinnumarkaði,“ sagði forsætisráðherra fyrrverandi er hann greiddi atkvæði gegn því að frumvarp Pírata um að ógilda úrskurð kjararáðs fengi umræðu.
Þess í stað var umræða um áfengi í matvöruverslanir sett á dagskrá.
Vandinn er þessi: Laun þingmanna voru ekki lækkuð heldur kostnaðargreiðslur. Bakvið kostnaðargreiðslur á að vera kostnaður. Lækkunin var um 104 þúsund en ekki 150 þúsund. 150 þúsund krónu talan er síendurtekin blaut tuska í andlitið á almenningi og byggir á þeim hugmyndum þingmanna að kostnaðargreiðslur séu í raun laun og verði því að reiknast þeim til lækkunar líkt og skattur hafi verið greiddur af þeim. Skattur er ekki greiddur af þessum greiðslum og hefur aldrei verið. Hvers vegna? Jú, vegna þess að kostnaður á að vera að baki.
Þetta eru ekki laun og ef þingmenn hafa gengið í þetta eins og laun þá er það þjófnaður.
Í Bretlandi varð þessi hugsunarháttur tilefni til eins stærsta hneykslismáls breskra stjórnmála. Ég þekki þau af eigin reynslu því ég starfaði sem aðstoðarmaður þingkonu Frjálslynda demókrata þegar það mál kom upp. Eitt af því sem ég gerði var að taka saman bókhaldið hennar til þess að birta hverja einustu kvittun fjölmiðlum og almenningi. Vegna þess að meira að segja í siðleysi breskra stjórnmála dettur fæstum í hug að láta eins og almenningi komi hlutirnir bara ekki við.
Kostnaðarskandallinn breski á sér nokkurn aðdraganda og þökk sé breska blaðinu The Telegraph sem árum saman sóttist eftir, kærði og þrýsti á að fá upplýsingar um hvernig þingmenn umgengust kostnaðarreikninga eins og laun. Hvers vegna gerðu þingmenn það? Jú, vegna þess að nokkrum áratugum áður höfðu þeir ekki þorað að nálgast málin út frá ábyrgð sinni og í staðinn fyrir að hækka launin sín ákváðu þeir að búa til fastar kostnaðargreiðslur sem laun. Það kom því mörgum stjórnmálamönnum í talsverðan vanda þegar upp komst að þeir höfðu einmitt umgengist þetta sem ókeypis pening.
Yfirlýsingar þingmanna undanfarið benda einfaldlega til þess að sami hugsunarháttur sé ríkjandi meðal þeirra. Þungamiðja skandalsins er einmitt þessi umgengni þingmanna á kostnaðargreiðslum líkt og um laun sé að ræða.
Það þarf að rannsaka þetta og opna allt bókhald allra þingmanna.
Stjórnmálin á Íslandi eru einfaldlega svo klikkuð að þingmenn skilja þetta ekki og tyggja þess vegna aftur og aftur og aftur á einhverri tuggu um að þeir eigi ekki að skipta sér af eigin launum. Það er eins og þingmenn velti þessari hugmynd aldrei fyrir sér. Þetta eru einfaldlega sannindi sem allir vita. Mjólk er góð, ríkið á ekki að reka banka, hin náttúrulega staða mála er að Sjálfstæðisflokkurinn ráði og þingmenn eiga ekki að skipta sér af launum sínum og þó samt stundum en bara ekki þannig að það sé í andstöðu við þeirra sérhagsmuni.
Í Bretlandi þurfti þó að draga þetta upp úr þinginu. Hér segja þau þetta stolt enda mannauður þingsins líklega sá versti í sögunni um þessar mundir. Þetta þing er gjörsamlega gerilsneytt af nokkurri þekkingu eða skilningi á hlutverki sínu.
Vandinn er að þingmenn hafa búið sér til kerfi þar sem þeir skipa og kjósa þá sem ákveða launin þeirra en þurfa ekki að taka pólitíska ábyrgð. Þingmenn hafa fingurna í þessu. Í úrskurði Kjararáðs má meðal annars sjá að ráðið hafði samband við forsætisráðuneytið, fjármálaráðuneytið og forseta þingsins yfirvofandi úrskurðar. Það gerir ráðið vegna þess að lög kveða á um að hafa samband við aðila máls. Þingmenn hafa meðal annars það hlutverk að samþykkja fjárlög þar sem þarf einmitt að vera rými fyrir launahækkunum. Forsætisnefnd þingsins, sem í sitja bara þingmenn, fer með starfskjör þingmanna og þingið skipar kjararáð og setur því reglur.
Samt telja þingmenn og ráðherrar sig bara geta skilað auðu þegar launahækkanir eru gagnrýndar. Þetta er alveg ótrúlegt skilningsleysi á ábyrgð sinni og hlutverki.
Afsökunin fyrir því að sinna ekki skyldu sinni er alltaf sú sama; að ekki sé nægilega fínt ef þingmenn séu að skipta sér af eigin launum. Það passar ekki í nútímalegu pólitíkina sem þau telja sig öll aðhyllast. Þess í stað hefur þingið vísað ákvörðuninni til pólitískt skipaðrar nefndar sem ekki birtir fundargerðir, neitar að svara spurningum og neitar jafnvel að birta aðilum málsins upplýsingar. (bls 6.) Þessi niðurstaða kjararáðs er í hrópandi ósamræmi við vinnubrögð þess þegar það úrskurðar.
Jónas Þór Guðmundsson formaður er innmúraður og innvígður í Sjálfstæðisflokkinn. Varaformaður er Óskar Bergsson, fyrrverandi oddviti Framsóknarflokks í Reykjavík. Óskar hrósar sér fyrir að hafa virkjað Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, til starfa í flokknum. Óskar er einn þeirra sem gerðu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur að borgarstjóra Reykjavíkur en eins og þekkt er þá rústaði Hanna Birna sínum stjórnmálaferli með spillingu, lygum, ómanneskjuheitum og afneitun. Það er því óhætt að fullyrða að Óskar Bergsson hefur ekki sterkustu dómgreindina þegar kemur að afdrifaríkum ákvörðunum í stjórnmálum. Svanhildur Kaaber, fulltrúi í kjararáði, er fyrrverandi þingkona Alþýðubandalagsins og fyrrverandi framkvæmdastjóri VG. Hulda Árnadóttir, skipuð af Bjarna Benediktssyni, gætti meðal annars hagsmuna Þóreyjar Vilhjálmsdóttur, aðstoðarkonu Hönnu Birnu, í lekamálinu. Hulda er skrifuð fyrir stefnu á hendur blaðamönnunum Jóhanni Páli Jóhannssyni og Jóni Bjarka Magnússyni þar sem þess var krafist að þeir yrðu fangelsaðir vegna skrifa um lekamálið.
Kjararáð er ekki ótengt stjórnmálamönnunum sem það ákveður launin fyrir.
Samtryggingin lifandi.
Þingið borgar kosningabaráttu þingmanna
Framlagðir reikningar vegna kostnaðar þingmanna hækkaði um eina og hálfa milljón milli áranna 2015 og 2016. Þetta kemur fram í frétt Fréttablaðsins þann 19. desember síðastliðinn. Þar segir að árið 2015 hafi þingmenn lagt fram reikninga vegna starfskostnaðar upp á 7.3 milljónir en að á fyrstu tíu mánuðum 2016 hafi kostnaðurinn samtals 8,7 milljónir.
Í sömu frétt kemur fram að aksturspeningar þingmanna séu um 38.5 milljónir í fyrra. Fréttablaðið segir frá því að óskað hafi verið gagna frá Alþingi þar sem sundurliðaður er aksturskostnaður niður á þingmenn. Þá kemur fram í frétt blaðsins að: „Hver þingmaður fær greiddar um 90 þúsund krónur í starfskostnað sem greiddur er skattur af. Leggi þingmenn fram reikninga fyrir kostnaði minnkar skattstofn starfskostnaðar sem því nemur. Ekki er hægt að sjá hvernig þingmenn nýttu sér þennan möguleika og hver ástæðan er fyrir því að reikningarnir hækka um eina og hálfa milljón á kosningaári.“
Hvað skyldi samt valda? Getur verið að það það spili hér inn að árið 2016 sáu þingmenn óvænt fram á kosningar?
Annað eins hefur nú gerst.
Hvað er eiginlega að þessu Alþingi?
Fjallað er um aksturspeninga og það hve frjálslega þingmenn ganga í þá í bókinni Hvað er eiginlega að þessu Alþingi? Bókin sem kom út í upphafi árs er eftir Þór Saari. Þór var þingmaður Borgarahreyfingarinnar og seinna Hreyfingarinnar í eitt kjörtímabil. Í bók Þórs segir hann frá því hvernig þingmenn ganga í almannasjóði til að fjármagna kosningabaráttu sína. „Ferðir til og frá vinnu eða heimili þingmanna eru svo greiddar eftir ákveðnum reglum sem virðast þó allteygjanlegar enda virtust sumir þingmenn nota innanlandsflugið eins og strætó til og frá vinnu oft í viku, ekki allt þingtímabilið en ansi oft. Einnig er eftir ákveðnum reglum endurgreiddur kostnaður vegna bílaleigubíla og vegna aksturs eigin bíls, en þar sendu til dæmis sumir þingmenn inn háa reikninga fyrir akstursgjaldi vegna ferða í kosningabaráttunni fyrir kosningar til sveitarstjórna vorið 2010,“ segir í bókinni.
„Slíkt býr til alvarlega lýðræðisskekkju þar sem ný framboð og önnur framboð sem ekki eiga bakland á Alþingi standa mjög höllum fæti í slíku fyrirkomulagi, en Alþingi fer í frí tveimur til þremur vikum fyrir sveitarstjórnarkosningar (sem og nokkrum vikum fyrir hverjar Alþingiskosningar). Að nafninu til er þetta til þess að „sveitarstjórnarmenn geti átt sviðið“ eins og sagt er en í rauninni er verið að gefa þingmönnum Fjórflokksins tækifæri á að leggja félögum sínum í sveitarstjórnum lið, á fullum launum og allur kostnaður greiddur. Slíkt fyrirkomulag má auðveldlega flokka sem misnotkun á aðstöðu og jafnvel pólitíska spillingu en hér hefur Fjórflokkurinn margfrægi snúið bökum saman um viðhald tegundarinnar á kostnað lýðræðisins og almennir borgarar í landinu borga brúsann.“
Samþykktu eftirlitslög án fjárheimilda
Árið 2013 fjallaði tímaritið Skástrik um slælegt eftirlit með fjármögnun og styrkjum til stjórnmálastarfs. Í umfjöllun Skástriks er vitnað til opinberra gagna og bent á að um hálfur milljarður króna hafi runnið til stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna án þess að vitneskja sé um uppruna fjárins. Í umfjölluninni kemur líka fram að eftirlit með nýjum lögum sé afar veikt.
Alþingi samþykkti í desember 2006 lög um fjármál stjórnmálaflokka sem eins og áður segir tóku gildi 1. janúar 2007. Í lögunum er meðal annars kveðið á um að frambjóðendum sé skylt að skila uppgjöri til Ríkisendurskoðunar, sem birti síðan upplýsingarnar. Að öðru leyti virðist eftirlit Ríkisendurskoðunar með stjórnmálamönnum vera unnið í hjáverkum enda samþykkti Alþingi lögin án þess að þeim fylgdu fjárheimildir til að hægt væri að sinna eftirlitinu. „Lögin, sem samin voru af fulltrúum flokkanna, setja auknar kvaðir á Ríkisendurskoðun en fjármagn fylgir ekki með. Rekstrarform félagasamtaka sem stjórnmálamenn reka í kringum eigin baráttu er þannig úr garði gert að samtökunum er ekki skylt að skila ársreikningum. Aðeins er gerð krafa um bókhaldsfæran skoðunaraðila og flokkarnir sjá sjálfir um eigin reglur og eftirlit með kosningum til æðstu embætta. Ríkisendurskoðandi [Sveinn Arason] var spurður hvort hans upplifun væri sú að eftirlit væri nægilega gott og svarið var: „Nei, við teljum að það sé tiltölulega veikt.““
Rannsaka þarf hvernig þingið umgengst kostnaðargreiðslur. Vísbendingarnar eru út um allt. Þeir umgangast þetta sem fría peninga sem þeir geta náð í þegar þeir vilja.
Fjármálaráðuneytið blekkir
Niðurlæging stjórnmálastéttarinnar náði svo hámarki í síðustu viku þegar fjármálaráðuneytið beitti blekkingum til að telja almenningi trú um að launaþróun þingmanna sé í samræmi við almenna launaþróun. Hér er klippt af við árið 2006 og hvers vegna ætli stjórnmálin séu svona æst í það? Hvers vegna ekki 1996 til dagsins í dag? Getur verið að það sé vegna þess að á því tímabili fóru laun þingmanna frá því að vera fjórföld lágmarkslaun í að vera sexföld lágmarkslaun?
Í vegferð stjórnmálanna í að halda sóðalegri launahækkun sama hvað er vefur ráðuneytisins nú notaður til blekkinga. Gæti fyrirlitning stjórnmálastéttarinnar á almenningi verið meiri? Í skjóli minnihluta atkvæða ákváðu þrír flokkar að gera mann að forsætisráðherra með langa sögu viðskiptataps og ósanninda. Maður sem telur 70% fólks ekki standa sína plikt og að óánægðir séu raunar bara geðveikir. Ofan á þetta bætist svo út úr snúningur vegna launahækkana viku eftir viku.
Í desember sviku flokkarnir allir sem einn kosningaloforð sín með ótrúlegu fúski við samþykkt fjárlaga og klöppuðu sér á bakið fyrir. Heilbrigðiskerfið er enn fjársvelt og vegaframkvæmdir eru í niðurskurði. Samt er engin formlega andstaða gegn þessum málum.
Það er eins og þau skilji ekki mikilvægi trausts.
Allavega virðist aldrei tekið til greina þegar stjórnmálamenn misnota aðstöðu sína sérhagsmunum sínum í vil að til langs tíma tærist traust. Hver einasta lygi, kjaftæði og blekking hefur áhrif.
Það að segja satt er ekki tæknilegt úrlausnarefni heldur efnislegt. Tilkynning fjármálaráðuneytisins er einfaldlega efnislega röng þótt hún sé eflaust tæknilega rétt. Forsendurnar eru handvaldar til að komast að þeirri niðurstöðu að stjórnmálamenn eigi inni stjarnfræðilega launahækkun. Vandinn er bara að þetta er ekki réttmætt og það skiptir engu máli hvernig forsendur eru handvaldar til að réttlæta þetta.
„Fjármála- og efnahagsráðuneytið birti [annan mars] samantekt frá Hagstofu Íslands um þróun launakjara alþingismanna undanfarin áratug. Í þeim tölum er staðfest að á árunum 2013-2016 hafa regluleg laun þingmanna hækkað umtalsvert meira en hjá öðrum hópum eða um 68% á sama tíma og laun á almennum vinnumarkaði hækkuðu um 26% og laun opinberra starfsmanna um ríflega 31%. Þegar tekið hefur verið tillit til þeirra lækkunar á starfstengdum greiðslum til þingmanna, sem forsætisnefnd samþykkti í janúar, hafa launa þingmanna samt sem áður hækkað umtalsvert umfram almanna launaþróun, eða um 42,5%,“ segir í svari ASÍ við tilkynningu fjármálaráðuneytisins.
ASÍ er einmitt sá aðili sem sagði forsendur kjarasamninga brostna en þeim yrði ekki sagt upp og að það væri kennurum að kenna.
Með svona vini…
Vegna þess að ASÍ er stjórnað af fólki sem skilur ekki mikilvægi trausts og hefur ekki mjög jákvæðar skoðanir á umbjóðendum sínum. Fólkið sem getur bara étið SALEK.
Og í kjararáðsmálinu hefðu þingmenn getað endað þetta strax en í staðin hefur slest á þingið, ráðherra, verkalýðsfélögin, vinnumarkað og þau sjálf.
Vegna kjararáðs er fullkomlega rökrétt að sjá þingmenn sem hóp einstaklinga úr allri tengingu við almenning. Það er líka rökrétt að ætla forystu stéttarfélaganna það sama.

Sýndarveruleiki byggir á því að skapa rof milli raunveruleika og skynjunar. Hér má sjá fyrrverandi forsætisráðherra prófa sýndarveruleikatækni.
Hið sóðalega í málinu er að Ísland er orðið land hversdagssiðleysis og það með pólitískum stuðningi stjórnmálanna.
Þar sem stjórnmálstéttin hvort sem þau eru þingmenn, ráðherrar, lobbýistar auðvalds eða forysta stéttarfélaga leggur meiri áherslu á að tiltöluleg sátt ríki innbyrðis en að umbjóðendur þeirra trúi að hjarta þeirra slái raunverulega með þeim.
Til að auðvelda sér lífið er búið að búa til alls konar skapalón við rekstur samfélagsins: Kjararáð, SALEK, ferlar og ráð.
Þau vilja jú ekki lita út fyrir…