Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Hvert fór lýðræðið? Hvert fór virðingin?

$
0
0

Heiðveig María Einarsdóttir skrifar:

 

Bilið á milli útgerða og sjómanna stækkar og stækkar – því miður.

Í vikunni sem leið lagði hópur sjómanna fram kæru vegna atkvæðagreiðslu um kjarasamninga þeirra við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, samningarnir voru undirritaðir af forsvarsmönnum sjómanna og SFS aðfaranótt 18.febrúar síðastliðinn. Kynningu og atkvæðagreiðslu lauk að kvöldi 19.febrúar.

Hvaða reglur voru í gildi?

Sjómenn telja á sér brotið þar sem þeim þótti ekki nægur tími til kynninga né í atkvæðagreiðsluna sjálfa. Því sendu þeir fyrirspurn með kæru um að atkvæðagreiðslan yrði dæmd ólögmæt á grunvelli þeirra almennu reglna er um atkvæðagreiðslu gilda.  Það er nefnilega ekki tekið á því í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur (nr.80/1938) né í samþykktum og/eða lögum félaganna hvernig atkvæðagreiðslu á kjörstað skuli háttað. Því liggur það beinast við að félögin hreinlega gangi að því, án vandkvæða, að heimfæra þær einu reglur sem mögulegt er að nota í þessu samhengi en það er 9.gr reglugerðar ASÍ sem ber heitið ,, Reglugerð um leynilega allsherjar atkvæðagreiðslu meðal félagsmanna aðildarsamtaka ASÍ“. Í þessari grein er fjallað um atkvæðagreiðslu á kjörstað, þar segir að kjörfundur skuli standa yfir í a.m.k. 2 daga, minnst 8 klst. hvorn dag og skal þess gætt að valinn sé sá tími dagsins er félagsmenn eiga hægast með að sækja kjörfund. Upphaf atkvæðagreiðslunnar skal auglýst með a.m.k. 7 sólahringa fyrirvara en þó er aðilum með samþykki ASÍ heimilt að ákveða að upphaf atkvæðagreiðslu megi auglýsa með skemmri fyrirvara en þó ekki skemmri en 2 sólahringa. Þó svo að þessi tími sýnist lítill þá er það ljóst að þó hafa menn haft fyrir því að setja lágmarksreglur um atkvæðagreiðslur á kjörstað.Hvernig í ósköpunum getur reglugerð ASÍ ekki átt við aðildarfélög þess eins og SSÍ nema þegar það hentar ?

Notað það sem hentar

Mér sýnist að menn týni einfaldlega sitt lítið af hverju úr þessari reglugerð ASÍ, vinnuréttarlöggjöfinni og samningsvaldi sínu og heimfæra það á þá afsökun að það hafi verið ,,hluti af samningum við SFS að keyra atkvæðagreiðsluna hratt í gegn,, skv. ummælum Hólmgeirs Jónssonar formanns kjörstjórnar og framkvæmdastjóra Sjómannasambands Íslands. Einu rökin sem hann telur sig geta sett fram á þessu stigi eru að nú þegar hafi verið búið að kynna hluta af samningnum og að þetta hafi verið betra en að fresta verkfalli! Ef það er ekki rangt skilið hjá mér þá var sá samningur sem var kynntur áður felldur með miklum meirihluta, hvernig í ósköpunum telja menn þá að sú kynning eða sá samningur sé grundvöllur að seinni kynningu á samningi? – sem reyndar er það illa skrifaður og illa frágengin að mögulegt er að túlka hann á marga vegu, oftast SFS í hag, og er það svo sem ekki skrítið þar sem pressan var gríðarleg og hafði verið það sólahringana á undan. Bæði formaður og framkvæmdastóri Sjómannasambands Íslands telja engin lög hafa verið brotin né reglur vegna atkvæðagreiðslunnar – heldur er þetta fyrirkomulag alveg í lagi þar sem þeir í krafti umboðs sín fyrir sjómenn ,,sömdu,, við SFS að ,,keyra atkvæðagreiðsluna hratt í gegn,,. Hvað fær þessa menn til þess að halda það að umboð þeirra sé svo vítt að þeir geti enn og aftur haldið áfram að gambla með kjarasamninga sjómanna í eigin þágu eða a.m.k. í einhverra annarra þágu en sjómannanna sjálfra.

Vegið að lýðræðinu

Það er afar einkennilegt að forsvarsmenn sjómanna vilji beita sér fyrir því að sjómenn fái ekki nægjanlegan tíma til þess að kynna sér efni þessa samnings sem er langt frá því að vera einfaldur, sérstaklega í ljósi þess að sjómenn hafa ríka hagsmuni af því að kynna sér hann til hlítar áður en þeir greiða atkvæði um hann. Þetta fyrirkomulag og það sjálftökuvald sem samninganefndirnar taka sér í þessu máli eru síður til þess fallnar að auka traust á milli þeirra og sjómanna, bilið stækkar og stækkar því miður. Það er allt rangt við það að sjómenn er greiða forsvarsmönnum sínum laun með félagsgjöldum beri ekki traust til þeirra nema í mjög takmörkuðu mæli. Þessi framkoma og fyrirkomulag gerir lítið annað en að kæfa niður lýðræði og sýna þeim mönnum er staðið hafa í lengsta verkfalli sögunnar þá óvirðingu að bera ekki virðingu fyrir hagsmunum þeirra!

Mölbrotið traust í allar áttir

Til hamingju forsvarsmenn sjómanna ! Nú þurfið þið ekki bara að byggja upp og efla traust á milli sjómanna og útgerðarmanna þeirra heldur líka á milli ykkar og ykkar eigin félagsmanna.  Til hamingju með þessi 10 skref afturábak í kjara- og mannréttindabaráttu sjómanna sem þið færðuð gagnaðilum ykkar á silfurfati – þá með undarlegustu atburðarrás í samningalotu kjaradeilu sem fyrirfinnst. Úr því sem komið er má líta svo á að dagar ákveðinna forsvarsmanna  séu taldir sem talsmenn sjómanna, þessir aðilar pressuðu af miklum þunga á samþykki þessara undarlegu samninga með þeim hætti að koma fram með lokatilboð á fáránlegum tíma og það einungis frá hluta samninganefndar sjómanna en þó í nafni þeirra allra og síðar með pressu á hraða þessarar margumtöluðu atkvæðagreiðslu.

Hvort að menn sjái það sjálfir eða þurfi meiri tíma í valdleik verður tíminn einn að leiða í ljós.

Höfundur er viðskiptalögfræðingur og fyrrverandi sjómaður.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu þann 8.mars 2017.

#egstydsjomenn  #fm

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283