Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Þórdís Elva og Tom Stranger tala ekki á kvennahátíð

$
0
0

Aðstandendur WOW – Women of the World í London hafa ákveðið taka fyrirlestur Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur og Tom Stranger af dagskrá. Þetta eru viðbrögð við undirskriftasöfnun á netinu þar sem nærveru Stranger á ráðstefnunni var mótmælt. RÚV fjallar um málið.

Tæplega 2400 manns rituðu nafn sitt við undirskriftasöfnun gegn því að Þórdís Elva og Stranger tali á kvennahátíðinni Women of the World. Fyrirlestur þeirra Þórdísar Elvu og Stranger átti að fara fram 11. mars næstkomandi í Royal Festival Hall. Yfirskrift undirskriftarsöfnunarinnar var á þá leið að ekki sé réttlætanlegt að nauðgari fái rými á sviði hátíðarinnar. Söfnuninni hefur verið lokað þegar þetta er skrifað í ljósi neikvæðrar umfjöllunar um málið í miðlum sem forsvarsmanneskja söfnunarinnar segir árum saman hafa ýtt undir karlrembu og kvenhatur.

Fyrirlesturinn hefur verið færður til 14.mars og verður ekki hluti af formlegri dagskrá WOW – Women of the World.

Auglýsing

Þórdís Elva og Tom hafa vakið mikla athygli í kjölfar bókar og fyrirlestra um reynslu þeirra af sáttar- og ábyrgðarferli eftir að Þórdís Elva hafði samband við Tom árum eftir að hann nauðgaði henni. Þau voru í sambandi þegar Tom var 18 ára en Þórdís Elva 16 ára. TED-fyrirlestur þeirra tveggja um ferlið hefur fengið gríðarlegt áhorf en um tæplega tvær og hálf milljón hafa horft á fyrirlesturinn.

Þau sem stóðu að baki undirskriftasöfnuninni töldu að með því að hleypa Tom Stranger upp á svið á hátíðinni sé verið að gefa nauðgara rými á hátíð sem hefur það að markmiði að valdefla konur. Þórdís Elva og Tom munu ræða það sáttarferli sem þau tvö áttu gagnvart hvort öðru. Þórdís Elva og Stranger kynntust á Íslandi og voru um tíma í sambandi. Stranger nauðgaði Elvu og nokkrum árum síðar hafði hún samband við hann vegna ofbeldisins. Henni að óvörum viðurkenndi hann brot sitt. Þau rituðu bókin South of Forgiveness saman þar sem þau lýsa sinni reynslu.

Fjallað er um undirskriftasöfnunina á Buzzfeed þar sem segir að skipuleggjendur WOW-hátíðarinnar séu að taka sér tíma til að hlusta á kvartanir en að engin ákvörðun hafi verið tekin. Málið sé viðkvæmt og snerti á viðkvæmu máli. Höfundur undirskriftasöfnunarinnar hefur efasemdir um ágæti þess að kynferðisbrotamanni sé hrósað fyrir að viðurkenna brot sitt.  Buzzfeed hefur eftir Jan Macleod, talskonu Women’s Support Project, að hún taki undir áhyggjur um að fyrirlesturinn geti átt þátt í að blessa nauðgun. Þá segir hún að viðburðurinn geti ýtt undir kvíða  og óöryggi hjá brotaþolum kynferðisofbeldis. Pavana Amara, stofnandi My Body Back, tekur undir með Macleod, í samtali við Buzzfeed og segir mikilvægt að brotaþolar en ekki gerendur séu ráðandi í umræðu um málaflokkinn.

Auglýsing

Þórdís Elva og Stranger sendu Buzzfeed yfirlýsingu vegna fréttarinnar þar sem kemur fram að þau leggi ávallt áherslu á að South of Forgivness sé þeirra saga og að markmiðið sé ekki að gefa í skyn að hér sé um að ræða aðferð til sátta sem virki fyrir alla né að þeirra aðferð sé betri en aðrar leiðir til að takast á við nauðgun. Þá segir að Tom Stranger hafi nauðgað, hafi viðurkennt það og sé meðvitaður um að sú jákvæða athygli sem hann fær út á þá viðurkenningu geti verið í óeðlilegu magni. Hann telji nauðsynlegt en ekki lofsvert að gerendur taki ábyrgð á gjörðum sínum. Þá segir í yfirlýsingunni að lögð sé áhersla á að ýta ekki undir hugmyndir meðal gerenda um að þeir geti haft samband við brotaþola til að leita sátta.

HandanFyrirgefningar_72Bók Þórdísar Elvu og Stranger heitir Handan fyrirgefningar kemur út 16. mars næstkomandi.  Á vef Forlagsins segir að Handan fyrirgefningar sé áhrifarík og mögnuð saga af ferðalagi þvert yfir hnöttinn, frá ofbeldi til sátta. „Hún er skrifuð í samvinnu geranda og brotaþola sem er algert einsdæmi í heiminum. Handan fyrirgefningar hefur vakið verðskuldaða athygli um heim allan sem sést e.t.v. best á því að bókin kemur samtímis út í Englandi, Svíþjóð, Þýskalandi og Ástralíu. Fleiri þýðingar eru væntanlegar, þ.á.m. á japönsku og pólsku.“

Haft er eftir Þórdísi Elvu að hún hafi skrifað bókina einmitt vegna þess að henni er það kleift. „Ég var ekki grýtt, hýdd eða fangelsuð fyrir að hafa verið nauðgað,“ segir hún. „Ég var ekki neydd í hjónaband með gerandanum. Ég var ekki myrt til að endurheimta „heiður fjölskyldunnar“. Á vissan hátt má segja að stærsta áfall lífs míns sé jafnframt til marks um hversu mikilla forréttinda ég nýt, því ég get tjáð mig um það án þess að stofna öryggi mínu í hættu. En forréttindum fylgir ábyrgð og mér finnst ég skyldug til að beita rödd minni þegar svo margir brotaþolar um allan heim geta það ekki. En það er ekki nóg að brotaþolar tjái sig. Gerendur þurfa líka að rjúfa þögnina og axla ábyrgð.“


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283