„Erum við kannski komin með skýringuna á því af hverju Björt framtíð og Viðreisn vildu ekki vinna með Framsókn,“ skrifar Elsa Lára Arnardóttir, þingkona Framsóknarflokksins, á Facebook í gær. Hún gerir afnám fjármagnshafta að umtalsefni og þá sérstaklega góðan samning aflandskrónueigenda. „Vissu þeir [flokkarnir Viðreisn og Björt framtíð] kannski að þennan afslátt til Vogunarsjóðanna, hefðu Framsóknarmenn aldrei samþykkt? Maður spyr sig.“
Athygli hefur vakið að eigendur aflandskróna sem ákváðu að taka ekki tilboði Seðlabankans í júní um að greiða 190 krónur fyrir hverja evru. Samhliða afnámi hafta á innlenda aðila hefur nú verið samið við stærsta hluta eiganda þessara aflandskróna. Samkomulagið snýst um að Seðlabankinn kaupir aflandskrónueignir fyrir erlendan gjaldeyri og er viðmiðunargengið í viðskiptunum 137,5 krónur fyrir evruna, sem er 20% yfir skráðu gengi evru síðastliðinn föstudag.
Sigurður Hansen, framkvæmdastjóri Kviku og fyrrverandi varaformaður framkvæmdahóps stjórnvalda um losun fjármagnshafta segir við Morgunblaðið í gær að þetta þýði að veðmál vogunarsjóðanna hafi gengið upp. Þeir sem ákváðu að spila ekki eftir reglunum bættu í raun stöðu sína. Af útreikningum mínum í fljótu bragði sýnist mér þessir sjóðir hafa hagnast um 21 milljarð á því að bíða, með því að taka ekki þátt í útboðinu í júní,“ sagði Sigurður við Morgunblaðið. Hann tekur þó fram að hann sé afar ánægður með fréttir af losun hafta.
Aðspurður um áhrifin sem þessar fréttir hafa á almenning segir Sigurður að þau séu til skamms tíma varla mjög áþreifanleg. „Hinn almenni borgari mun í sjálfu sér ekki finna mikið fyrir afnámi hafta til skamms tíma litið. Höftin kosta mikið og til lengri tíma rýra þau lífsgæði. Þau fæla í burtu fjárfesta og þar með uppbyggingu sem ella hefði orðið þannig að til lengri tíma litið ætti þetta að auka lífsgæði með meiri fjárfestingum og vonandi öflugra atvinnulífi því samhliða.“