Íslandsdeild Amnesty International, Rauði krossinn á Íslandi og Mannréttindaskrifstofa Íslands standa að málþingi um stöðu flóttamannamála í Evrópu og á Íslandi, miðvikudaginn 15. mars, í Öskju í Háskóla Íslands, stofu 132, frá kl. 12.00 til 13.00.
Kanadíski lögfræðingurinn Anna Shea er önnur tveggja framsögumanna á málþinginu en erindi hennar, sem fram fer á ensku, ber heitið Europe’s Refugee Crisis: A Solution Looking for a Problem?
Straumur flóttafólks til Evrópu frá stríðshrjáðum löndum fyrir botni Miðjarðarhafs og Norður-Afríku náði hámarki árið 2015 þegar milljón manns hættu lífi sínu til að flýja heimaland sitt, langflestir sjóleiðina, í leit að öryggi og vernd í álfunni.
Meirihluti flóttafólksins flúði stríðsátök í Sýrlandi en aðrir komu frá Afganistan, Írak, Erítreu, Súdan og fleiri löndum. Hundruð þúsunda kvenna, barna og karlmanna halda áfram að leggja upp í lífshættulega sjóferð, á vanbúnum bátum í leit að griðlandi innan Evrópu. En nær Evrópa utan um flóttamannakrísuna? Í erindi sínu mun Anna Shea fara yfir aðstæður og stöðu hælisleitenda í Tyrklandi og á sunnanverðum landamærum Evrópu. Þá mun hún mun greina hvernig stefna Evrópusambandsins – einkum ESB-Tyrklandssamningurinn – hefur haft áhrif á stöðu flóttafólks og hælisleitenda í álfunni. Í niðurstöðu sinni mun Anna Shea ræða þær lausnir sem ríkisstjórnir Evrópu, þeirra á meðal á Íslandi, ættu að gera að sínum.
Anna Shea er gestur Íslandsdeildar Amnesty International en hún hefur starfað sem rannsakandi og ráðgjafi hjá teymi sem heldur utan um málefni flótta- og farandfólks hjá aðalstöðvum samtakanna í London frá árinu 2013. Anna Shea hefur unnið rannsóknir á málefnum flóttafólks í fjölmörgum löndum, þeirra á meðal Ástralíu, Hong Kong, Indónesíu og Tyrklandi. Áður en hún hóf störf hjá aðalstöðvum samtakanna í London var hún yfirmaður lögfræðiteymis Amnesty International í Kanada.
Síðari framsögumaður málþingsins er Arndís Anna K. Gunnarsdóttir lögfræðingur hjá Rauða krossinum á Íslandi en hún heldur erindi um stöðu flóttamanna á Íslandi, hvað gengur vel og hvað má betur fara.
Arndís er lögfræðingur með sérþekkingu á málefnum hælisleitenda og flóttamanna. Hún hefur starfað hjá Rauða krossinum frá 2014, sem talsmaður hælisleitenda, en áður sinnti hún lögfræðilegri aðstoð við hælisleitendur í sjálfboðastarfi fyrir Rauða krossinn frá árinu 2009. Arndís vann einnig um tíma hjá Barnaverndarstofu og sem sérfræðingur í útlendingamálum í innanríkisráðuneytinu.