Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Húsnæðisvandi ungs fólks á Íslandi

$
0
0

Eva Rós Sigurðardóttir og Inga Sif Ingimundardóttir skrifa.

Húsnæðisvandi ungs fólks er ekki nýr af nálinni en vandinn er stór og mikill.

Leiguverð er hátt og framboð á íbúðum á viðráðanlegu verði er ekki í takt við eftirspurnina.
Þegar kemur að þeim tímapunkti að fólk fær íbúð þá þarf oft að reiða fram tryggingarfé eða bankatryggingu að verðmæti þriggja mánaða leiguverðs. Eðlilegt er að leigusali vilji hafa tryggingu ef eitthvað skyldi koma upp á en hver á nokkur hundruð þúsund krónur inn á reikningi til að leggja fram sem tryggingu?

Í Viðskiptablaðinu í september 2013 birtist grein þar sem fram kom að leiguverð hækkaði um 8,5% frá september mánuði 2012. Miðað við þessa útreikninga má ætla að íbúð sem kostaði 150 þúsund að leigja haustið 2012 kosti nú rúmlega 162 þúsund.

Í Viðskiptablaðinu þann 19. janúar síðastliðinn birtist grein undir yfirskriftinni Leigumarkaðurinn kominn úr böndunum. Þar kemur fram að frá árinu 1999 hefur húsaleiga hækkað um 36% að raunvirði þrátt fyrir að framboð á leiguhúsnæði hafi tvöfaldast. Á síðustu fimmtán árum hafa stjórnvöld skipað 39 nefndir eða hópa til að fara yfir stöðuna á húsnæðismarkaði en um fjórðungur nefndanna hafa fjallað beint eða óbeint um leigumarkaðinn. Helstu niðurstöður og tillögur nefndanna hafa yfirleitt snúist um að gera húsaleigubótakerfið skilvirkara og fjölga leiguíbúðum á markaðnum. Í greininni kemur fram að miðað við stöðuna í dag hefur leiguverð aldrei verið hærra og það eru sífellt fleiri sem þurfa að leita út á leigumarkaðinn. Það er einna helst ungt fólk sem hefur lágar tekjur sem sækir á leigumarkaðinn.

Til þess að geta keypt íbúð þarf fólk að eiga góðan sjóð og hafa háar tekjur til að standast greiðslumat. Fólk á leigumarkaðnum er yfirleitt með lágar tekjur og á þar með mjög erfitt með að safna sér fyrir og kaupa sér íbúð. Það virðist því hálf ómögulegt í augum margra að komast út af leigumarkaðnum og eins og staðan er í dag einnig má benda á að margar leiguíbúðir eru á söluskrá. Það virðist oftar en ekki slegist um góðar íbúðir í langtímaleigu og fólk er oft óöruggt með húsnæði og neyðist til að flytja oftar en það myndi vilja. Þetta er afar slæmt ástand, sérstaklega fyrir fólk sem á ung börn í leik- og grunnskólum að þurfa að vera sífellt að flytja börnin, jafnvel milli hverfa og þurfa þau þá oftast að skipta um skóla.

Niðurstaðan er því þessi, það vantar fleiri öruggar íbúðir í langtímaleigu á markaðinn og leiguverð er of hátt. Það vantar einnig fleiri úrræði fyrir fólk sem er að reyna að eignast sitt eigið húsnæði.

Við, venjulegar ungar konur með ung börn, spyrjum okkur þeirrar spurningar hvort framtíðin verði þannig að maður verði að berjast í bökkum í hverjum einasta mánuði?

Höfundar eru BA nemar í Uppeldis- og menntunarfræði og Tómstunda- og félagsmálafræði.

Eva og Inga

Eva og Inga


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283