Umhverfisstofnun fellst ekki á þá ósk United Silicon að fyrirtækið fái sex mánaða frest til að bæta úr málum vegna kísilvers fyrirtækisins í Helguvík. Í tilkynningu Umhverfisstofnunar segir mikilvægt að nú þegar verði stigin markviss skref til að ná betri tökum á rekstri verksmiðjunni hvað varðar mengunarvarnir. United Silicon nýtur gríðarlegar ívilnana af hálfu ríkisins en fyrirtækið fær til að mynda 50% afslátt af greiðslu tryggingargjalda í 10 – 13 ár og greiðir aðeins 15% tekjuskatt. United Silicon hefur verið í einskonar gjörgæslu undanfarið vegna slugsaskaps og brota fyrirtækisins í umhverfismálum.
Í svarbréfi United Silicon til Umhverfisstofnunar 7. mars sl., eftir að stofnunin hafði áformað að fram skyldi fara verkfræðileg úttekt í kjölfar ítrekaðra frávika meðal annars varðandi reykhreinsun og ólykt þar sem 300 kvartanir hafa borist frá íbúum á þeim fjórum mánuðum sem verksmiðja hefur verið starfrækt, er velt upp spurningum um jafnræði við ákvarðanatöku. Boðaðar aðgerðir Umhverfisstofnunar um óháða verkfræðilega úttekt og takmörkun á starfsemi verksmiðjunnar að óbreyttu, eru í svarbréfi Sameinaðs Silíkons taldar óþarflega íþyngjandi fyrir fyrirtækið. Á það fellst Umhverfisstofnun ekki. „Vill stofnunin [Umhverfisstofnun] benda á að fram hefur komið að vegna umfangsmikilla og endurtekinna rekstrarvandamála sé umfang eftirlits með verksmiðjunni fordæmalaust. Þá hefur rekstur verksmiðjunnar sérstöðu hvað varðar eðli, umfang framleiðslu og nálægð við íbúabyggð,“ segir í bréfi Umhverfisstofnunar.
Umhverfisstofnun telur jákvætt að rekstraraðili vinni að því að greina vandamál í rekstri verksmiðjunnar og setji fram úrbótatillögur bæði með samstarfi við framleiðanda mengunarvarnabúnaðar og með öðrum utanaðkomandi sérfræðingum. Stofnunin óskar eftir að fá allar upplýsingar er út úr þeirri greiningarvinnu munu koma um leið og þær liggja fyrir og geta þær upplýsingar haft áhrif á umfang þeirrar verkfræðilegu úttektar sem stofnunin hefur boðað.
Umhverfisstofnun telur þó ekki nægilegar upplýsingar fram komnar til að falla frá þeim áformum sem tilgreind voru í bréfi til fyrirtækisins, þann 21. febrúar sl. um að fara þurfi fram verkfræðileg úttekt á hönnun og rekstri verksmiðjunnar. Stofnunin mun því á næstu vikum leita eftir tilboðum í slíka úttekt. Rekstraraðili verður upplýstur um umfang úttektarinnar og úttektaraðila áður en af henni verður.
„Fram skal fara verkfræðileg úttekt á hönnun og rekstri Sameinaðs Sílikons hf. hvað varðar þörf á úrbótum á mengunarvarnabúnaði og mengunarvörnum sem og orsök og upptök lyktarmengunar. Þar til úttektin hefur farið fram og niðurstaða liggur fyrir um þörf á umbótum samkvæmt henni er rekstur fyrirtækisins takmarkaður við rekstur einn ljósbogaofn sbr. 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Rekstraraðili verður upplýstur um umfang úttektarinnar og úttektaraðila áður en af henni verður. Kostnaður við úttektina verður innheimtur hjá rekstraraðila í samræmi við 27. gr. sömu laga. Ekki er því fallist á umbeðinn sex mánaða úrbótafrest. Óskað er eftir að upplýsingar frá úttekt Alfsen & Gundersen AS og aðrar upplýsingar um ráðstafanir vegna tilgreindra frávika berist stofnuninni jafn óðum og þær koma fram. Þær niðurstöður kunna að leiða til afmörkunar á úttekt stofnunarinnar,“ segir í niðurstöðukafla í bréfi Umhverfisstofnunar til Sameinaðs Sílikons hf. 13. mars sl.
Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra undirritaði fjárfestingarsamning við United Silicon hf. vegna kísilvers félagsins í Helguvík á Reykjanesi árið 2014. Í frétt ráðuneytisins kemur fram að fjárfestingu upp á 12 milljarða sé að ræða.
„Áætluð ársframleiðsla kísilversins er 21.000 tonn af kísli og 7.500 tonn af kísilryki. Gert er ráð fyrir að 60 starfsmenn komi til með að vinna við verksmiðjuna og starfsmenn við byggingu hennar verði allt að 200. Miðað er við að framleiðsla hefjist á árinu 2016 og að fullum afköstum verði náð 2017.
Samkvæmt samningnum voru veittar ívilnanir til verkefnisins sem felast fyrst og fremst í 15% tekjuskatti og 50% afslætti af almennu tryggingargjaldi í 10 ár frá því að gjaldskylda myndast en að hámarki í 13 ár frá því samningurinn tekur gildi. Að auki veitir sveitarfélagið Reykjanesbær verkefninu ákveðnar ívilnanir til jafn langs tíma.