Minnihluti Allsherjar- og menntamálanefndar hefur óskað eftir fundi nefndarinnar vegna nýfallins dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli Steingríms Sævars Ólafssonar. Minnihlutinn telur dóminn vekja upp spurningar um núverandi lagaumgjörð tjáningarfrelsis á Íslandi. Að mati minnihlutans þarfnast málefnið frekari skoðunar og óskaði hann því eftir að nefndin haldi sérstakan fund og boði til sín álitsgjafa og sérfræðinga til þess að ræða málið sem allra fyrst.
Efni fundarins mun varða hvernig bæta mætti íslenska lagaumgjörð til þess að tryggja betur vernd tjáningarfrelsis á Íslandi sem og komast að því hvernig best verði tryggt að Ísland uppfylli kröfur Mannréttindasáttmála Evrópu um vernd tjáningarfrelsis, sem og sambærilegra ákvæða í öðrum mannréttindasáttmálum sem ríkið hefur gengist við.
Minnihlutinn hefur því óskað eftir að fá eftirfarandi aðila á sinn fund:
Fulltrúa frá Hæstarétti Íslands
Fulltrúa frá dómsmálaráðuneytinu
Fulltrúa frá menntamálaráðuneytinu
Fulltrúa frá mannréttindaskrifstofu Íslands eða mannréttindaskrifstofu Háskóla Íslands.
Sérfræðinga í dómum Mannréttindadómsstóls Evrópu.
Fulltrúa fjölmiðla;
– Frá blaðamannafélagi Íslands
– Frá PEN á Íslandi
– Blaðamann sem hefur farið í málaferli við Íslenska ríkið vegna brots á tjáningarfrelsi
Óskað hefur verið eftir því að fundurinn verði haldinn eins fljótt og verða má.
Mannréttindadómstóll Evrópu segir í niðurstöðu sinni að ríkið hafði brotið gegn Steingrími, þáverandi ritstjóra Pressunnar, þegar hann var dæmdur í Hæstarétti til að greiða Ægi Geirdal miskabætur fyrir umfjöllun sem birtist í nóvember árið 2010. Ægir var þá í framboði til stjórnlagaráðs og birti Pressan viðtal við tvær systur sem sökuðu Ægi um að hafa brotið á þeim kynferðislega þegar þær voru litlar stúlkur í Garðahreppi. Frétt Pressunnar má sem um ræði má sjá hér.
Ægir hafnaði ásökununum og greindi DV frá því að hann hefði hótað Steingrími og systrunum málshöfðun vegna umfjöllunarinnar. Steingrímur var sýknaður í héraðsdómi en Hæstiréttur sneri dóminum við og dæmdi Steingrím til að greiða Ægi 200 þúsund krónur í miskabætur og 800 þúsund krónur í málskostnað.
Aðalmynd er tekin af vef Sævarr slf. fjölmiðlaráðgjafar Steingríms.