Þegar búið er að hreinsa til í garðinum er gaman að huga að útikerjunum. Hvað væri nú fallegt að setja í kerin í ár?
Margir eru vanafastir og velja sömu plönturnar í kerin og pottana ár eftir ár en aðrir vilja breyta til og fara ótroðnar slóðir. Svenný garðyrkjufræðingur Garðheima gaf okkur tillögu að því hvernig skreyta má ker með Cyprus, mosa og fallegum blómstrandi laukum. Falleg samsetning og á við nú þegar páskar eru í nánd.
Í meðalstórt ker passar að hafa 2-3 blómstrandi lauka, einn stóran Cyprus og tvennskonar mosa t.d. púðamosa og flotmosa. Svenný tíndi plönturnar í kerru og skreytingin byrjaði að taka á sig mynd.
Fyrst er að fylla botn kersins með 2- 3 cm lagi af vikri til dæmis Hekluvikri.
Þar næst er moldinni bætt í kerið.
Fagurcyprusinn er sterk planta sem þolir vel seltu og hentar því íslenskum aðstæðum.
Cyprusinn er gróðursettur aftarlega í kerinu og þá er nægt pláss fyrir blómstrandi laukana fyrir framan.
Fallegt er að láta sjást í laukana sjálfa svo að það er alger óþarfi að láta moldina ná yfir þá.
Litlu páskaliljurnar eru sérlega fallegar og perlulaukurinn með sínum einstaka bláma setur mikinn svip.
Þá má hylja yfirborðið með mosa en mosinn er frábær í kerin því hann verndar laukana og heldur raka á plöntunum í kerjunum. Hérna er púðamosinn, hlýlegur og fallega grænn.
Best er að koma mosanum fyrir þar sem ykkur finnst fara vel á.
Til uppfyllingar má nota flotmosa sem auðvelt er að sníða til vilji maður þekja alla moldina. þetta er soldið eins og að bútasauma, bara rífa mosann til og setja í kerið þar sem vantar.
Svo þarf náttúrlega að vökva vel eins og alltaf þegar plantað er. Vatnakristallar eru sniðugir ef þið þufið að skreppa frá en þeim þarf að strá í moldina og blanda vel saman við hana áður en plönturnar eru settar niður. Þannig þarf ekki að vökva jafn oft. Varist samt að setja ekki of mikið því þeir þenjast út þegar búið er að vökva.
Það er alveg að koma sumar!