Þessar elskur eru engu líkar. Ótrúlega fallegar, þrýstnar og roggnar í öllum regnbogans litum. Þær eru viðkvæmar, ofurlítið seigar, dísætar og dásamlegar á bragðið.
Hvítt súkkulaði og marsipan. Hindber og romm. Dökkt súkkulaði og mynta. Sölt karamella, er eitthvað betra? Dísæt karamella og þessi salti undirtónn sem gerir munnbitann ómótstæðilegan.
Þessar prinsessur sem um ræðir eru makkarónurnar hennar Sigurveigar Káradóttur matreiðslumeistara. Enginn stendur henni framar í makkarónugerð en þar kemur til alveg einstakur hæfileiki hennar til að setja saman bragðtegundir og fyllingar í þessar smágerðu elskur.
Það er eitthvað heillandi við þessar litlu munnbitakökur og það er slík stofuprýði af þeim að eftir þeim er tekið eins og um fyrirmenni sé að ræða. Mér finnst ég alltaf þurfa að hneigja mig í návist þeirra.
En hvaðan eru þessar kökur og hver á heiðurinn af upphaflegri gerð þeirra, Sigurveig?
Sagan segir að þær eigi uppruna sinn að þakka matreiðslumanni Katrínar de Medici, sem var nú svo sem enginn mannvinur. Matreiðslumaðurinn hennar hlýtur samt að hafa verið það, því hann kom makkarónum á kortið svo að segja og bakaði þær fyrir brúðkaup Katrínar og Hinriks II. Þær voru reyndar upphaflega ekki tvær saman með fyllingu á milli eins og við þekkjum þær í dag, heldur var ein skel látin duga.
Sagan segir að snemma á 20. öldinni hafi síðan Pierre Desfontaines, barnabarn Louis Ernest Laduree, fengið þá hugmynd að skella þeim saman og setja fyllingu á milli.
Önnur saga segir að þær hafi komið með Aröbum frá Ifraiqiya (þar sem nú er Túnis) og lent á Sikiley þar sem þær voru þróaðar enn frekar.
Eins segir sagan að þær hafi orðið til í klaustri nálægt Cormery í Frakklandi og að það hafi verið nunnur sem tóku upp á því að baka þær. Þær voru þó bara með skeljarnar stakar.
Hver þessara sagna er hin eina sanna veit ég ekki. Nema þær séu allar réttar.
Það má líka vera. En hvaðan sem þær koma, þá væri ég mikið til í að hitta þann fyrsta sem datt þær í hug og eiga við hann eða hana örlítið spjall. Við gætum síðan bragðað á makkarónum og það væri eflaust frekar áhugavert.
Þó ekki Katrínu af Medici. Ég held að við ættum fátt sameiginlegt, en kannski var kokkurinn hennar snillingur.
Hvenær hófst svo þetta opinbera ástarsamband þitt við makkarónurnar?
Ég bakaði þær fyrst þegar ég var í London í matreiðslunámi.
Ástarsambandið hófst kannski ekki alveg strax þar, heldur kannski frekar í París.
Ég fór þangað á endanum og lærði að baka þær hjá bakara sem hafði starfað hjá Laduree sem er eitt þekktasta „makkarónuhús“ heims.
Ég borðaði mig í gegnum makkarónuflóru Parísarborgar og ég verð að segja að mínar eru ekki síðri en þær allra bestu þar. Eiginlega bara betri. Hver veit nema Matarkistan opni útibú í París einhvern daginn? Það væri nú gaman.
Það hefur sést til þín á Facebook þá daga sem þú ert að baka makkarónurnar þar sem þú gefur í skyn að votviðri hafi áhrif á baksturinn. Er eitthvað til í þessu?
Já, algjörlega. Þær vilja ekki láta baka sig í rigningu eða miklum raka.
Það er best að baka þær þegar það er þurrt og pínulítið kalt.
Og það þarf að tala við þær. Ná sambandi við þær. Það þýðir heldur ekkert að baka þær í stressi og mér finnst það hvernig skapi ég er í hafa mikil áhrif. Stundum er ég búin að baka margar plötur af fullkomnum makkarónum og allt í einu gerist eitthvað og ég bara get ekki meira. Þá er best að stoppa og fara að gera eitthvað annað.
Það má segja að fullkomnunaráráttan fái algjöra útrás í makkarónubakstrinum, en mér finnst það að finna upp bragð ekki síður skemmtilegt. Það fæðist oft þegar ég leggst á koddann á kvöldin og fer að para bragðtegundir saman í huganum. Þá get ég oft ekki sofnað því ég er svo spennt að komast í vinnuna og athuga hvernig útkoman er!
Þannig að það má segja að makkarónubaksturinn sé ákveðin árátta. En sem betur fer skemmtileg og bragðgóð árátta.
Þú tekur þátt í matarmarkaðinum mikla í Hörpu um helgina og þar verða makkarónurnar þínar til sölu. Megum við búast við að þar verði nýjar og æsandi makkarónur á boðstólum?
Það verða bæði nýjar og æsandi með „leynibrögðum“ sem eru alveg ótrúlega magnaðar, en örugglega ekki allra. Ég legg mikið uppúr fyllingunum og nota bara bestu fáanleg hráefni í þær. Það fara ansi margar vanillustangir bara í eina skál af vanillufyllingu. Og ansi mikið af góðu hvítu súkkulaði. Ég nota súkkulaði mikið sem grunn og bragðbæti það síðan með alls kyns góðgæti. Þannig finnst mér þær bestar. Það er vissulega hægt að fylla þær með sultu, en mér finnst það ekki koma eins vel út.
Ég bý gjarnan til hálfgerðan frómas á jólum og nota þá gjarnan búðarmakkarónur. Er ekki hægt að kaupa skeljarnar eintómar hjá þér?
Algjörlega. Ég verð líka með eintómar skeljar til að nota í jólaeftirréttinn.
Það kemur ótrúlega fallega út og er frábær tilbreyting.
Ég kom nú einu sinni heim til þín til að kaupa makkarónur fyrir jólaboð sem ég var að halda, því þær eru auðvitað alveg ótrúlega flottur eftirréttur ef maður hefur ekki tíma til að standa í öllu sjálfu. Þær eru líka sniðugur valkostur fyrir þá sem allt eiga og vilja bara gjafir ,,sem eyðast”. Hvar getur fólk nálgast þær?
Það er best að senda á mig póst á sigurveig@matarkistan.is. Ég legg mikið upp úr því að fólk fái það sem það vill – hvort sem það eru litríkar makkarónur, pastellitaðar, hvítar eða bara hvernig sem er. Ég hef mikið verið að baka fyrir veislur. Pastellitaðar og hvítar eru alltaf vinsælar fyrir brúðkaup, skírnarveislur og fermingar, en oft vill fólk hafa smá lit í afmælum og partíum.
Það er alltaf hægt að senda mér póst – hvort sem vantar 10, 100 eða 1000. Því meiri fyrirvari, því betra – sérstaklega ef það vantar í miklu magni. Ég á samt oft eitt og annað í frystinum fyrir þá sem vilja kassa til að prófa.
Og síðan er auðvitað kjörið að kíkja við í Hörpu um helgina og sjá hugmyndir að litum og bragði. Jafnvel næla sér í kassa til gjafa eða í staðinn fyrir hinn hefðbundna konfektkassa eftir jólamatinn. Jafnvel möndlugjöf? Það væri hugmynd – enda ansi mikið af möndlum sem fer í hverja makkarónu.
Með þessum orðum kveður guðmóðir makkarónunnar mig og heldur til við að pakka þessum litríku tátum í fallegu kassana. Ég bít í eina lillabláa … þetta er syndsamlega gott. það ætti eiginlega að setja lögbann á þær.