Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Til þeirra sem beita fjölskyldur sínar ofbeldi

$
0
0

Aðsend grein frá konu sem vill ekki láta nafns síns getið.

Ég var nýbúin á fótboltaæfingu og mér leið vel, lyktin af nýslegnu grasinu fyllti vitin og ég tók legghlífarnar af mér í rólegheitunum. Mér leið alltaf eins og ég hefði afrekað eitthvað eftir fótboltaæfingarnar, þar var ég á heimavelli, þar voru allar vinkonur mínar og ég gat bara verið ég sjálf, ég gat verið krakki og það var í raun það eina sem ég fór fram á.

Ég labbaði rólega heim og stóð mig að því að stoppa við að horfa á sólsetrið, allt var eins og það átti að vera á þessum tímapunkti. En þegar ég nálgaðist húsið mitt var eins og stór hnullungur myndaðist í maganum á mér og ég fann að ég fór að anda hraðar.

Þegar ég opnaði hurðina fann ég þessa ógeðslegu lykt sem ég vissi vel hvað þýddi en þótt ég væri bara þrettán hafði ég vitað hvað þessi lykt þýddi frá 3 ára aldri. En fyrir þá sem ekki vita og ekki hafa alist upp í alkóhólisma þá þýddi þessi lykt, þessi blanda af áfengi, sígarettum og ilmvatni miklar hörmungar í mínum huga.
Ég lifði stanslaust í ótta við að eitthvað hræðilegt myndi gerast.

Stundum var það bara minniháttar rifrildi sem þagnaði með nóttinni. En oftast voru það barsmíðar, heimsóknir á slysavarðsstofuna og verstar fundust mér heimsókninar í Kvennaathvarfið en það var svo pínlegt að þurfa að fylgja móður sinni inn í eitthvað hús sem enginn mátti vita hvar væri og alltaf vissi ég innst inni að hún færi aftur til hans.

Móðir mín er ennþá með ofbeldismanninum. Ég er í dag fullorðin. Ég hef oft vorkennt mér og leiddist sjálf út í áfengi og fíkniefni á tímabili, en sem betur fer er ég á beinu brautinni í dag, á sjálf barn og hef fengið hjálp frá 12 spora samtökum og öðru góðu fólki sem ég hef verið heppin að kynnast.

Tilgangurinn með þessari litlu grein er í raun bara að setja örlítinn plástur á eigið sár og vona að einhverjir núverandi ofbeldismenn lesi þessa grein því það segir sína sögu að ennþá og sennilega alltaf verð ég að vinna með afleiðingar æsku minnar.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283