Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Hugleiðingar Þorgeirs Gunnarssonar

$
0
0

Þorgeir Gunnarsson skrifar

þorgeir gunnarssonFólk setur sig upp á móti hugmyndum að þjóðfélagsbreytingum af ólíkum ástæðum. Það er sama hversu hugmyndin er góð, ef hún kemur frá pólitískum andstæðingum viðkomandi getur hann af prinsippástæðum alls ekki stutt hana.

Margir setja sig upp á móti málum, þó svo að þau hafi fyrirsjáanlega jákvæð þjóðhagsleg áhrif, ef líkur eru á að þau skerði eitthvað lítillega þeirra eigin hagsmuni.

Svo eru enn aðrir sem eru á móti öllum breytingum vegna einhvers innra óöryggis. Því stærri breytingar sem hugmyndirnar fela í sér því sterkari er andstaða þeirra.

Tökum sem dæmi hugmyndir fyrrverandi ferðamálaráðherra Ragnheiðar Elínar Árnadóttur um skattlagningu á ferðamenn. Þær mættu geysilegri andstöðu og var ráðherrann gerður afturreka með allt saman. Síðan eru liðin nokkur ár og þjóðin hefur orðið af háum fjárhæðum vegna þess. Þó að sumir Sjálfstæðismenn hafi verið á móti þessari gjaldtöku, eins og þeir eru á móti flestöllum sköttum, þá voru flestir, sem settu sig upp á móti hugmyndunum, pólitískir andstæðingar Ragnheiðar Elínar og Sjálfstæðisflokksins.

Tökum nýlegt dæmi um tillögur starfshóps á vegum fjármála- og efnahagsráðuneytis sem var falið að greina umfang og áhrif skattundanskota og skattsvika á íslenskan þjóðarbúskap. Ein af fjölmörgum úthugsuðum tillögum starfshópsins var að dregið yrði markvisst úr notkun reiðufjár með því að taka úr notkun 10.000 króna seðilinn og hugsanlega 5000 kallinn. Þvílík hystería sem gaus upp. Menn sáu fyrir sér að það yrði ekki hægt að halda fermingarveislur í framtíðinni og ég veit ekki hvað. Sumir vildu fórna þessari þjóðhagslega hagkvæmu hugmynd til að koma í veg fyrir að stjórnvöld, í gegnum Seðlabanka Íslands væntanlega, gætu komist að því að viðkomandi keypti kartöflurnar sínar í Bónus og að hann legði það í vana sinn að kaupa sér bjórkippu á föstudögum.

Menn fullyrtu að fullrúar starfshópsins, sem voru skipaðir af Fjármála- og efnahagsráðuneytinu, Hagstofu Íslands, Skattrannsóknarstjóra, Innanríkisráðuneytinu og Ríkisskattstjóra, væru bara að sjóða saman hugmyndir með hagsmuni frænda Benedikts Jóhannessonar hjá Borgun í huga þó svo að tillögur starfshópsins gerðu ráð fyrir að almenningur hefði aðgang að rafeyri eða ígildi debetkorts með lágmarkskostnaði.

 

Auglýsing

 

Hugmyndir borgarstjórnar Reykjavíkur og bæjarstjórna nágrannasveitarfélaganna um Borgarlínu, mætir harðri andstöðu pólitískra andstæðinga borgarstjórnar Reykjavíkur þó svo að andstæðingarnir séu samherjar meirihluta bæjarstjórna annarra sveitarfélaga höðuborgarsvæðisins, sem eru þátttakendur í verkefninu. Sama andstaða er við hugmyndir um þéttingu byggðar, göngu- og hjólastíga, þrátt fyrir augljósa kosti þessara hugmynda.

Hugmyndir um að færa flugvöllinn úr Vatnsmýrinni til að rýma fyrir hagkvæmustu kostum í þróun íbúðabyggðar Reykjavíkur vekur upp afar hörð viðbrögð margra. Þeir sem ganga harðast fram í andstöðunni við þessar hugmyndir eru eigendur lítilla flugvéla, sem finnst mun þægilegra að keyra útí Vatnsmýri til að viðra relluna sína en alla leið útí Hvassahraun. Í þessum háværa hópi eru hagsmunir heidarinnar hiklaust látnir víkja fyrir eigin hagsmunum. Svo eru aðrir sem eru á móti vegna þess að hugmyndirnar um færslu flugvallarins komu ekki frá réttum stjórnmálaflokkum, og taka þar með hagsmuni flokksins fram yfir hagsmuni heildarinnar. Svo eru enn aðrir sem setja sig á móti öllum nýjum hugmyndum, og því meiri breytingar hugmyndirnar hafa í för með sér því harðari er andstaðan. Vissulega er einnig til hópur fólks, sem býr langt frá Reykjavík og þarf að fljúga einu sinni til tvisvar á ári til Reykjavíkur og þykir þægilegt að lenda í miðborginni, en þegar Borgarlínan hefur tengt Hvassahraun við hina ýmsu staði höfuðborgarsvæðisins ætti það að vera til bóta, einnig fyrir þetta fólk.

Svo er náttúrulega alltaf til fólk sem er á móti nýjum hugmyndum vegna þess að þeim finnst þær vondar eða gallaðar á einhvern hátt. Þá er mikilvægt að þeir láti í sér heyra og rökstyðji mál sitt og sýni fram á annmarka hugmyndanna. En höfum í huga að hagsmunir heildarinnar eru alltaf mikilvægari en hagsmunir nokkurra fárra einstaklinga eða einstakra stjórnmálaflokka.

Kær kveðja,
Þorgeir Gunnarsson
áhugamaður um bætt samfélag

Mynd: Wikimedia Commons


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283