Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Flýgur sækettlingasagan

$
0
0

Elísabet Arnardóttir skrifar

Á níunda áratugnum bjó ég í Bandaríkjunum og átti litla stúlku í leikskóla. Man að mér kom dálítið spánskt fyrir sjónir hversu áhugi á risaeðlum var útbreiddur á þessum tíma, það vissi hver meðalkrakki meira um snareðlur og grameðlur en heimilisketti og hænur. Í skólum og leikskólum var einnig lögð býsna mikil áhersla á fræðslu um hvali. Á deild dóttur minnar í leikskólanum föndruðu börnin risavaxinn hval úr pappamassa og unnu margvísleg hval-læg verkefni önnur. Lítil börn lærðu að hvalir væru í útrýmingarhættu, væru „góð dýr“ og „mjög gáfaðir“ og það gengi mannsmorði næst að veiða þá. Já, risaeðlur og hvalir voru sannarlega stóra málið á níunda áratugnum í Bandaríkjunum. Segja má að öll þessi innræting fræðsla hafi skilað ágætum árangri, því í dag veiðir enginn risaeðlur og andstaða við hvalveiðar fer varla framhjá nokkrum manni.

Dóttir mín, fyrrum leikskólabarn í Ameríku, er nú orðin háskólanemi í Skotlandi, þar sem hún rannsakar m.a. efnasamsetningu fiskimjöls. Hún benti mér um daginn á samtök sem berjast gegn, ekki hvalveiðum, heldur fiskveiðum. Herferð PETA samtakanna gegn fiskveiðum (smellið hér). Þegar síðan er skoðuð má sjá margt skondið. Lesendum er t.d. bent á að fiskar hafi liðið fyrir að hafa haft „lélegan almannatengil“, sá hafi ekki staðið sig í stykkinu með því að kalla fiska fiska og leggja samtökin til að við köllum fiska sækettlinga.

 

Auglýsing

 

Ég þýddi að gamni mínu hluta þess texta sem gefur að líta á PETA síðunni.

Margir hafa aldrei leitt hugann að því, en fiskar eru greind og áhugaverð dýr. Hver fiskur hefur sinn eigin persónuleika, rétt eins og hundar og kettir. Vissirðu að fiskar geta lært að forðast net með því að fylgjast með öðrum fiskum í hópnum og að þeir þekkja aðra einstaklinga, þ.e. torfuvini sína? Sumir fiskar safna upplýsingum með því að hlera samtöl hjá öðrum og aðrir nota verkfæri, t.d. suður afrískur fiskur sem hrygnir á lauf til að geta borið hrognin í öruggt skjól.

Þrátt fyrir að hverjum manni ætti að vera ljóst að fiskar finni fyrir sársauka, rétt eins og öll önnur dýr, hugsa sumir enn um fiska sem syndandi grænmeti…Vísindamenn segja að fiskar hafi heila- og taugakerfi sem er mjög líkt kerfi mannsins…Að halda því fram að fiskar finni ekki til er jafn heimskulegt og óvísindalegt og að segja að jörðin sé flöt.

 

petaMjög er reynt að höfða til barna á síðunni. Þau geta lesið myndskreyttar fiskasögur (flett blöðum rafrænt), hér er ein sagan (þýðing mín):

 

Silli silungur var gáfaðasti sækettlingurinn í skólanum. Aðeins tveggja mánaða var hann orðinn kassavanur og hélt síðan áfram í skóla. Hann útskrifaðist með fyrsu einkunn frá Skeljaháskólanum í taugavísindum og umhverfisfræðum. Silli var veiddur og borinn á borð fyrir ungan pilt sem borðað hafði einum blýmenguðum sækettlingi of mikið, og varð pilturinn fyrir bragðið neðstur í bekknum.

sækettlingar

 

Börnin geta líka farið í leik þar sem þau búa til krúttlegar myndir, velja sér fisk sækettling og skreyta hann (persónugera) með því að setja á hann hatt, kisueyru, slaufu o.s.frv.

Að auki gefst foreldrum kostur á að kaupa margvíslegt dót fyrir börn sín á síðunni, t.d. boli með áletruninni „Fish are friends, not food“ (mig langaði næstum að senda þeim póst og spyrja af hverju þarna væri notað hið ókrúttlega orð „fiskar“).

Já, það er margt í mörgu í maganum á Ingibjörgu. Dæsti amma á meðan hún tuggði annars hugar þverskorinn sækettling með smjöri og kartöflum.

 

Elísabet ArnardóttirElísabet Arnardóttir hélt um árabil úti vefbókinni Grænar baunir, það sem þessi pistill birtist fyrst árið 2010.
Pistillinn er birtur hér með góðfúslegu leyfi höfundar.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283