Benjamín Julian skrifar
Í fyrra tók Fréttablaðið Kristínu Völundardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar, í „föstudagsviðtal“. Þessi viðtöl eru pallborð efri millistéttarinnar til að tjá áhyggjur sínar, almennum lesendum fríblaðsins til góða, og Kristín olli ekki vonbrigðum. Hjarta landvarðarins var á borðið lagt. „Rætin umfjöllun hefur djúp áhrif á okkur,“ sagði hún fyrir hönd starfsfólks Útlendingastofnunar. Þau væru manneskjur, ekki vélar. En mótlæti gerði hópinn bara sterkari. „Við erum samrýnd og þetta þéttir okkur.“
Hún reifaði í löngu máli hið þakkarlausa starf sem kerfisbundin brottvísun flóttamanna er — og jú, það er örugglega mjög vont að vera svona illa liðin. Ég man ekki hvort einhver hælisleitandi hafi verið tekinn í sambærilegt „föstudagsviðtal“ en eflaust gætu flóttamennirnir og fólkið sem brottvísar þeim veitt hvert öðru huggun og skilning gegn þeirri tortryggni og útskúfun sem mætir þeim í samfélaginu.
Þar sem þessi viðtöl voru eðli málsins samkvæmt öll birt rétt áður en fólk byrjaði helgina var reynt að halda þeim á hressu nótunum, svo Kristínu var leyft að fleygja fram gagnrýnilaust staðhæfingum einsog „stefna útlendingalaga er ekkert hörð“ og forvitnilegum frösum einsog það er ekki vilji okkar eða einbeitt stefna að vera vond.” Í staðinn fyrir að spyrja nánar hvaða merking lægi í þessum orðum, þá var hún spurð hvort það væri ekki „erfitt að neita fólki um að skapa sér betra líf?“ Ojú, svaraði hún, „það er alltaf erfitt“.
Kannski það sé sjálfhverfa af þessu tagi sem beindi athygli hennar frá því að nær allir skjólstæðingar hennar þola ekki Útlendingastofnun. Í vetur reyndi stofnunin að meta stöðu flóttamanna í sinni umsjá, en bara 15% svöruðu könnuninni. Fólk þorði einfaldlega ekki að segja frá högum sínum „af ótta við að svör þeirra færu lengra eða yrðu notuð gegn þeim“.
Íslendingum líkar stofnunin ekki heldur — hún nýtur minnst trausts allra réttarfarsstofnana ríkisins.
Fyrir þá sem hafa prófað að eiga í langvarandi samskiptum við stofnun Kristínar er þetta ekki skrítið. Orð, rök, skynsemi og samúð hafa ekkert með málin að gera í Skógarhlíð 6. Í besta falli er tekið mark á pappírum úr opinberum stofnunum. Þetta gerir fólk vitfirrt af armæðu og örvæntingu, því nær allt lífið þeirra — sérstaklega fólks sem kemur utanfrá Evrópu — er ekki skráð opinberlega. Þær umsóknir og pappírsmartraðir sem við þekkjum öll eru paradís hjá umsóknum um hæli og dvalarleyfi hjá UTL.
Skjólstæðingum stofnunarinnar er haldið frá heilbrigðisþjónustu og lögreglan hefur brotist inn til þeirra að gá hvort þau séu að fela peninga eða skilríki. Þegar kaldranalegt viðmót og lélegt menningarlæsi starfsmanna bætist við, svo ekki sé minnst á ákvarðanir sem markast af vanhæfni eða skeytingarleysi, þá er ekki að furða að þessi stofnun njóti varla trausts nokkurs manns. Og þegar viðhorfið innangarðs er einsog í umsetnu virki, þar sem hópurinn stendur saman gegn bæði Íslendingum og útlendingum, er ekki skrítið að þessi stofnun sé í íslensku samfélagi líkt og eitraður fleinn.
Þetta væri svosem bara útí bláinn og innantómar vangaveltur ef ekki væri fyrir yfirstandandi mál Eugene og Regínu, foreldra barna sem fæddust hér á landi. Að forminu til er þetta svipað málum Tony Omos (lekamálið) og Paul Ramses (flugvallarmálið). Einsog fyrir áratug síðan er verið að splitta upp svörtum fjölskyldum og fleygja saklausu fólki í buskann (ekki af einbeittri vonsku, samkvæmt föstudagsviðtalinu, og samkvæmt stefnu sem er „ekki hörð“). Einsog í hin skiptin er byrjað að reifa, stundum í fjölmiðlum, hvort karlinn hljóti ekki að hafa verið glæpamaður, enda virðast sumir eiga erfitt með að ímynda sér svartan mann sem er ekki krimmi.
Kannski er þetta, einso g Kristín segir, ekki allt illska. Kannski skrifast mikið af þessu á slöpp vinnubrögð. Sögur af vanhæfni Útlendingastofnunar hafa borist mér frá fyrrum starfsmönnum, íslenskum lögfræðingum og úr sænsku útlendingastofnuninni — og auðvitað hef ég getað séð getuleysið í beinni útsendingu með því að horfa á hverja skrifræðiskatastrófuna á fætur annarri breiða úr sér fyrir framan nefið á mér undanfarin ár. (Nú síðast var manni brottvísað til Ítalíu, því yfirvöld þar „báru ábyrgð á málinu hans“. Á flugvellinum úti sagði ítalska lögreglan að það væri rangt, og sendi hann til Íslands aftur.) Útlendingastofnun hefur kallað yfir sig allt það vantraust sem henni er sýnt sjálf, með eigin starfsháttum, með því að vera viljugur og stundum ákafur framkvæmdaaðili ömurlegrar löggjafar. Þegar hingað er komið sögu er mér eiginlega sama hvort þetta sé vanhæfni — svona vanhæft fólk er illt ef það lætur ekki af störfum.
Þessi langi útúrdúr frá föstudagsviðtalinu er til að setja upphafleg komment forstjórans í samhengi — forstjórans sem er með 1,34 milljónir á mánuði í laun; forstjórans sem er með íslenskt vegabréf og þarf ekki að óttast brottvísun eða fyrirvaralausa handtöku um miðja nótt eða húsleit eftir földum peningaseðlum. Manneskja í þessari stöðu hefur ekki efni á að kalla sig fórnarlamb.
Þegar fólk spyr sig: Hvernig geta embættismenn verið svona grimmir? þá er svarið kannski bara að þeir vita ekki hvað þeir eru að gera, og eru of uppteknir af pappírum og sjálfum sér til að komast að því. Kærunefnd útlendingamála fékk nýverið leyfi til að dæma um mál útlendinga án þess að tala við þá fyrst, og dómstólar hafa lengi réttað yfir flóttamönnum sem hefur þegar verið brottvísað. Þetta er systematísk hunsun sem lög og embættismenn viðhalda af miklum móð. Það er einfaldara að vera ógeðslegur við fólk ef þú þarft ekki að tala við það — og lögreglan, sem þarf að tala við fólkið, vísar til úrskurða embættismannanna. Þetta snilldarlega fyrirkomulag læsir hringekju ábyrgðarfirringarinnar í sessi. Allir eru stikkfrí. Skeytingarleysið er kerfisbundið.
En þetta leiðir sumsé allt að því sem ég hef verið að hugsa síðustu daga, og ætlaði í rauninni að segja: Mér var kennt fyrir löngu að kalla ekki aðrar manneskjur vondar. Ég er ekki viss að það hafi verið rétt. Mér finnst bara hreint ekki það langt milli skeytingarleysis og illsku.
Áður birt á Pistlinum, vef Benjamíns Julians.
Image may be NSFW.
Clik here to view. Benjamín Julian heldur úti netsvæðinu Pistillinn.is þar sem hann skrifar um samfélagsmál, með áherslu á uppruna valdastofnana og beitingu valdheimilda.