Kólumbía hefur viðurkennt sambúð þriggja karla sem löglegt sambúðarform. Formleg staðfestingarathöfn hefur enn ekki farið fram en verður væntanlega sú fyrsta sinnar tegundar í landinu og hugsanlega í veröldinni.
Ekki verður þó um hjónavígslu að ræða þar sem landslög leyfa ekki hefðbundið hjónaband milli þriggja karla, heldur verður sambúðarform þeirra kallað „sérstakt karlsamband“ (á ensku „special patrimonial union”).
Einn sambýlismannanna þriggja, Prada að nafni segir í samtali við The Guardian að þeir séu ekki þrír vinir sem búi saman heldur fjölskylda. Þeir hafi ekki neina ástæðu til þess að fara í felur með ást sína og að með því að staðfesta sambúð sína vilji þeir opna augu annarra fyrir því að til séu margskonar fjölskylduform. Þeir séu þríeyki á sama hátt og pör í hefðbundnum samböndum og lögleg staðfesting á því sé aðeins formsatriði.
Sambýlismenn hans Bermudez og Rodriguez hafa búið saman í 18 ár og þeir voru fyrsta samkynhneigða parið í Kólumbíu til þess að fá sambúð sína staðfesta. Prada hefur búið með þeim í fjögur ár en þeir Bermudez og Rodriguez voru í þríeykissambandi við annan mann, Zabala að nafni í átta ár. Um tíma bjuggu þeir allir fjórir saman og hugðust fá samband sitt staðfest en Zabala lést áður en varð af því.