Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóða heilbrigðisstofnunin WHO hafa nú sent frá sér sameiginlega yfirlýsingu um nauðsyn þess að afnema mismunun í heilbrigðisþjónustu, en mismunun á grundvelli ýmissa félagslegra þátta viðgengst víða um heim. Mismununin getur bæði birst í takmörkuðu aðgengi tiltekinna hópa að þjónustu og í aukinni hættu á vanrækslu og ofbeldi. Ríki heims eru hvött til að horfast í augu við þennan vanda og uppræta hann.
Yfirlýsingin ætti að verða Íslendingum sem og öðrum þjóðum hvatning til að skoða stöðu vímuefnaneytenda sérstaklega og þá ekki síst hvort ástæða er til þess að afglæpavæða neysluna. Alþjóða heilbrigðisstofnunin hefur kallað eftir afglæpavæðingu fíkniefnaneyslu, einkum með tilliti til varna gegn HIV smiti, en Sameinuðu þjóðirnar hafa enn sem komið er aðeins kallað eftir bættri heilbrigðisþjónustu við neytendur en ekki tekið afstöðu til afglæpavæðingar.
Aðalritari Sameinuðu Þjóðanna, António Guterres, var forsætisráðherra í Portúgal þegar Portúgalir afglæpuðu vörslu neysluskammta allra ólöglegra vímuefna um síðustu aldamót. Árangurinn er ótvíræður og hefur vakið heimsathygli. Portúgalir komu böndum á einn hrikalegasta heróínfaraldur Evrópu með því að beita aðferðum heilbrigðiskerfisins í stað refsikerfisins. Nú getur lögreglan aðstoðað fíknisjúka í stað þess að hrekja þá dýpra og dýpra í örvæntingu og vísan dauða.
Það er þyngra en tárum taki að starfshópur fyrrverandi heilbrigðisráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar, um stefnumörkun í vímuefnamálum skyldi samþykkja samhljóða að viðhalda refsistefnu á Íslandi. Sú skömm mun ekki fyrnast. Ónefndur „sérfræðingur“ tjáði starfshópnum að ekki væri komin nægileg reynsla af afglæpuninni í Portúgal til að hún gæti talist fyrirmynd. Enginn nefndarmaður virðist hafa haft rænu á að spyrja sérfræðinginn hvort reynsla Íslendinga af útskúfunar- og refsihyggju frá 1968 kunni að vera sönnun þess að hún sé helstefna sem nauðsynlegt er að breyta.
Nýlega andaði Landlæknisembættið því útúr sér að á síðasta ári hefðu ópíumefni úr apótekum, í bland við áfengi, orðið þrjátíu og þremur Íslendingum að aldurtila, en ópíatar komið við sögu í fjörutíu og átta dauðsföllum, svo vitað sé. Í frétt embættisins kom einnig fram að hin ólöglegu vímuefni væru nánast aldrei banvæn. Engu að síður eru notendur þeirra hundeltir eins og refir og minkar hvar sem til þeirra næst, gjarnan með aðstoð fauta og fanta Sérsveitarinnar.
Það er afar sorglegt að fulltrúi Landlæknis í starfshópnum stóð eins og múrveggur gegn umbótum í málaflokknum, en það hef ég eftir fyrrverandi heilbrigðisráðherra. Megi smán hans lengi lifa.
Hér má lesa skýrslu starfshóps innanríkisráðherra, „Fýkniskýrslu“ eins og hún er nefnd í vefslóðinni.