Þetta eru feðginin Abrahim og Hanyie frá Afganistan. Þrátt fyrir að vera einungis 11 ára gömul þá hefur Hanyie upplifað hluti sem flest okkar geta ekki ímyndað sér. Til þess að eiga möguleika á framtíð hefur Hanyie tvisvar sinnum farið á slöngubát fullum af fólki yfir Miðjarðarhafið en fyrri ferðin kostaði feðginin næstum lífið, það var alltof mikið af fólki í bátnum og hann fylltist af vatni. Hanyie er á flótta ásamt föður sínum sem hefur verið á flótta í nærfellt tvo áratugi en hann er bæklaður eftir bílslys og fer ekkert án hækja og því hefur hin unga dóttir hans þurft að annast föður sinn síðustu árin á flóttanum. Hanyie hefur aldrei fengið að vera barn.
Eftir að hafa næstum látið lífið á Miðjarðarhafinu komust feðginin í heilu lagi til Grikklands og síðan Þýskalands en þar lenti Abrahim á spítala vegna sýkingar í fætinum. Þar voru fingraför þeirra tekin og því neyddust þau til þess að sækja þar um alþjóðlega vernd en ætlunin var að fara til Kanada og sækja þar um vernd enda aðstæður fyrir fólk á flótta í Þýskalandi mjög erfiðar. Á leið sinni til Kanada komu feðginin til Íslands um áramótin. Þau urðu fljótt sannfærð um að hér vildu þau vera, hér gæti hin unga feimna stúlka sem aldrei hefur fengið að vera barn, átt sér framtíð.
Útlendingastofnun er þó ekki tilbúin til þess að veita þessari litlu fjölskyldu skjól og vernd hér á landi. Útlendingastofnun sá ekki ástæðu til þess að taka umsókn þeirra um vernd til efnislegrar meðferðar heldur á að senda feðginin aftur á flótta, til Þýskalands, þar sem hætta er á að þau verði send aftur til Afganistan, vegna þess valkostar sem Dyflinarreglugerðin veitir yfirvöldum. Kærunefnd útlendingamála tekur undir með Útlendingastofnun og telur “rétt að synja því að taka umsókn Abrahim og dóttur hans um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar vegna Dyflinarreglugerðarinnar þrátt fyrir að nefndin telji kæranda og barn hans vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu.“
Ljóst er að líkamlegt og andlegt ástand feðgininna setur þau í einstaklega viðkvæma stöðu, þrátt fyrir að í skjölum yfirvalda hafi „engir líkamlegir eða andlegir kvillar“ sést á bækluðum manninum og þunglyndri stúlkunni. Haltrandi maðurinn sem styðst við hækjur býr á annarri hæð í úrræði Útlendingastofnunar í Keflavík þar sem pöddur skríða meðfram veggjunun og vegna þess að þau hafa verið á miklu flakki hér á landi umgengst stúlkan fáa aðra en föður sinn sem hún annast.
Þrátt fyrir það vilja þau vera áfram hér. Þau trúa því að hér geti þau byggt sér framtíð, 11 ára stúlkan og rúmlega 30 ára gamall maðurinn. Ef þeim verður vísað frá Íslandi fara þau enn einu sinni á flótta. Hvort sem það er mannúðin, réttlætið, mannréttindin eða réttindi barna sem eru þér hugleikin, þá veistu að við getum ekki gert þein það að senda þau úr landi og aftur á flótta. Þess vegna skorum við á yfirvöld að taka umsókn þeirra um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar og stöðva brottvísun þeirra. Að sýna að okkur er ekki sama. Það tekur hálfa mínútu að undirrita þessa undirskriftarsöfnun, en það getur skipt sköpum fyrir framtíð þeirra. Vertu með. X.
https://www.change.org/p/%C3%BAtlendingastofnun-veitum-abra…
Mynd: Stundin