Allmörg dæmi eru um stjarnfræðilega vitlausar ákvarðanir pólitískra stjórnenda sem verða skattgreiðendendum dýrkeyptar. Tvö dæmi um slíkt eru í kvosinni. Annað er makalaust rugl í kringum meintan hafnargarð sem átti að vera hundrað ára gamall og kom í ljós við nýbyggingu við Tryggvagötu. Hitt er dæmalaus pólitísk della í kringum húsin við Laugaveg 4-6 sem spratt af pólitískum hráskinnaleik og valdabaráttu í borginni sem leiddi til þess að veikur maður var gerður að borgarstjóra.
Vegkantur en ekki hafnarkantur
Í ljós kom að að grjóthleðslan austan við Tollhúsið var ekki hluti af hafnarframkvæmdum heldur hlaðinn vegkantur við Tryggvagötuna frá 1928. Það breytti ekki því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þá forsætirsráðherra, hafði fengið áhuga á grjóthleðslunni og lét Sigrúnu Magnúsdóttur, samráðherra sinn í ríkisstjórn friða grjótið en forsætisráðherra vék sæti í málinu sökum vanhæfis.
Hver steinn var vandlega merktur, fjarlægður og settur í geymslu. Áform voru uppi um að endurreisa vegkantinn í kjallara nýbygginga sem eru að rísa á lóðinni en ekki er vitað um kostnað við heildarútfærslu á þessu eða hver beri endanlegan kostnað. Líklegast ríkið. Í fyrra barst Minjastofnun ríkisins krafa upp á 600 milljónir króna sem var eingöngu kostnaður við að fjarlægja grjótið. Verktakinn taldi að tjón sitt, vegna kvaða friðunarinnar, yrði 2,2 milljarðar sem Minjastofnun bæri ábyrgð á. Sigmundur Davíð hafði látið færa stofnunina undir forsætisráðuneytið en alkunna er að stjórnmálamaðurinn taldi sig vita öðrum mönnum betur hvernig best væri að haga skipualgsmálum borgarinnar.
Laugavegsklúðrið
Hitt dýra dæmið hefur nú öðlast birtingu við afhjúpun Laugavegs 4-6 en þar vomir glerhýsi yfir gömlu húsunum. Húsin voru í friðunarferli fyrir áratug þegar Ólafur F. Magnússon fékk áhuga á málinu og fékk það sett í samstarfssamning við Sjálfstæðisflokkinn að kaupa húsin fyrir 580 milljónir króna. Ólafur var borgarstjóri í 7 mánuði. Síðar viðurkenndi einn borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, í viðtali í Nýju lífi, að það hefði verið misnotkun á valdi að gera Ólaf F. borgarstjóra og sagðist miður sín og skammast sín fyrir að hafa tekið þátt í þessu.
Árið 2014 voru húsin seld. Tap borgarinnar á þessum viðskiptum var þá metið yfir 400 milljónir króna.