Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Mannúð og tilfinningar – Jón Steinar svarar Karli Ágústi

$
0
0

Mætur maður, Karl Ágúst Úlfsson, skrifar mér bréf í Kvennablaðinu í gær og beinir til mín spurningum. Þær lúta einkum að því hver afstaða mín yrði til manns sem brotið hefði gegn börnum mínum með kynferðislegu ofbeldi. Áður en ég leitast við að svara þessu er rétt að taka fram að afstaða mín er ekki merkilegri en hvaða manns annars sem er um þetta efni. Með því að beina spurningu um þetta að persónu minni sérstaklega sýnist mér Karl vilja fjalla um þetta viðkvæma málefni á illa frambærilegum forsendum um leið og hann beinir persónulegum skeytum að mér. Kannski honum þyki það styrkja málstaðinn. Að minnsta kosti hrópa höfundarnir neðanmáls húrra! Málefnið sem Karl bryddar upp á er miklu merkilegra en svo að mín persóna hafi þar sérstaka þýðingu.

Allt að einu skal ég reyna að svara eftir bestu vitund (skrítið hjá KÁÚ að gera ráð fyrir að ég muni láta eins og ég sé ekki hérna; ég sem er alltaf hérna!). Þeir sem lesa þetta svar mitt verða auðvitað að gera sér grein fyrir að svar mitt er það sem kalla mætti „akademískt“. Það hefur inni að halda tilgátu frá mér um hver viðbrögð mín yrðu. Meira get ég ekki gert þar sem ég hef ekki reynt þetta sjálfur.

 

Auglýsing

 

Ef ég væri faðir stúlku sem orðið hefði fyrir broti á borð við þau sem Róbert Downey framdi, og sem hann hefur afplánað refsingu fyrir, vona ég að ég hefði stærð til að fyrirgefa honum. Það yrði ekki gert fyrir hann heldur sjálfan mig. Ég myndi ekki vilja gera hann að viðvarandi bölvaldi sálar minnar, eins og ég veit að hann myndi verða ef ég léti það eftir mér að burðast með hatur á honum til æviloka. Svo er ég líka viss um að fyrirgefning mín væri frekar en hatrið til þess fallið að styðja hann í viðleitni til að verða betri maður, vilji hann það. Það myndi hvetja mig til dáða í fyrirgefningunni.

Þú segir Karl að í þessu skipti meginmáli hvort brotamaður hafi látið opinberlega í ljós iðrun vegna verka sinna. Því er ég ósammála. Og ástæðan er  sú sama. Fyrirgefningin er ekki gerð fyrir hann heldur þann sem fyrirgefur. Þar að auki getur hvaða maður sem er gert sér upp iðrun án þess að hugur fylgi raunverulega máli.

Þeir sem fjalla um þessi málefni þessa dagana af einskærri heift ættu að átta sig á því að lagahugtakið „uppreist æru“ er eiginlega af tæknilegum toga. Það felur ekki í sér að fortíð viðkomandi manns hverfi. Hún breytist ekki við „uppreist æru“. Hugtakið felur það hins vegar í sér að lagareglur gera ráð fyrir að manni sem brotið hefur af sér verði gefið annað tækifæri í lífinu í stað þess að útiloka hann frá þátttöku í mannheimi til frambúðar, eins og margir virðast vilja. Þó að hann fái á ný starfsréttindi sem af honum voru tekin, þarf enginn að leita til hans um störf sem ekki vill það.

Mér dettur ekki í hug, Karl Ágúst, að spyrja þig hvað þú myndir gera ef einhver þér nákominn, sem þér þætti vænt um, gerðist sekur um svona brot eins og þú talar um, afplánaði dóm sinn og leitaði síðan eftir tækifæri til að komast á réttan kjöl í lífinu; hvort þú myndir þá vilja synja honum um tækifæri til þess? Þú þarft því ekkert að svara þessu. Svar þitt myndi heldur ekki skipta neinu máli fyrir málefnið. Maðurinn ætti að fá þetta tækifæri, jafnvel þótt þú værir svo „harður af þér“ að vilja neita honum um það og sjá hann veslast upp í einsemd og volæði án samskipta við annað fólk.

Í þeirri lágkúru sem birtist í athugasemdum sumra lesenda svona greina eins og þinnar Karl, hef ég lesið þann fróðleik að ég hafi á starfsferli mínum látið mér sérstaklega annt um hagsmuni manna sem sakaðir hafa verið um kynferðisbrot. Ég má til með að gera athugasemd við þetta. Aðeins einu sinni á ferli mínum sem lögmaður hef ég varið mann gegn ákæru á þessu sviði. Sá maður var fyrir mörgum árum sýknaður í Hæstarétti, þar sem sök hans hafði ekki sannast, þó að Illugarnir í samfélaginu teldu sig vita betur. Ég hef að auki „gerst sekur um“ að láta uppi þá skoðun að sakborningar í málum af þessu tagi eigi að njóta sama réttar og aðrir til að sök þeirra sannist áður en þeim er refsað. Í stjórnarskrá og mannréttindasáttmálum, þar sem kveðið er á um slík réttindi sakaðra manna, eru nefnilega engar undantekningar leyfðar um þessar sakir, jafnvel þótt Illugarnir í veröldinni vildu það sjálfsagt.

Á netsíðu DV 19. apríl 2016 birtist viðtal við Hafstein Gunnar Hafsteinsson sálfræðing, sem ég sendi þér minn kæri, hlekk á eftir símtal sem ég átti við þig í gærkvöldi. Ekki er annað unnt en að lúta höfði af virðingu fyrir þeim stóra manni sem lifir og starfar í því umhverfi fordóma og skammhugsunar sem svo mjög litar samfélag okkar um þessar mundir. Þeir sem hæst tala þessa dagana ættu að leggja lykkju á leið sína og lesa viðtalið.

Skrifað 9. júlí 2017

Jón Steinar Gunnlaugsson

 

Mynd: DV

Hér er hlekkur á  viðtalið við Hafstein Gunnar sem vísað er til í pistlinum


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283