Quantcast
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Plata mánaðarins júlí 2017 Hljómar – Hljómar

Það má með sanni segja að hápunktur Bítlatímans hafi verið árið 1967 en Þá komu út margar af merkustu plötum rokksögunnar. Fyrsta plata David Bowie leit dagsins ljós og tímamótaplatan Sgt. Peppers Lonley Hearts Club Band með Bítlunum kom út. Einnig plötur eins og Absolutley Free með the Mothers of Invention og fyrsta plata the Doors, platan Disareli Gears með Cream, Are You Experienced með Jimi Hendrix og Buffalo Springfield Again með Buffalo Springfield. Þá má ekki gleyma plötum eins og Songs Of Leonard Cohen með Leonard Cohen og Procol Harum með Procol Harum. Árið 1967 varð sú andlega opnun sem setti ný mið í viðhorfum til lífsins og tilverunnar. Hefðbundnum stöðlum um útlit og hegðan var kastað fyrir róða en ást og friður sett í öndvegi. Brölti eldri kynslóðarinnar til valda og yfirráða yfir öllu og öllum með vopnum, pólitík og peningum var mótmælt með tónlist hins nýja tíma.
Hér á landi voru ungir menn litnir hornauga fyrir hársíddina sem ógnaði hefðinni og rakarar fóru umvörpum á hausinn. Bítlið var að ná yfirhöndinni og þar stóðu keikir í stafni hinir íslensku Bítlar og sungu hástöfum.

„ Fyrsta kossinn ég kyssti rjóða vanga.
Þennan koss ég vil muna daga langa.

Ég sá þig kæra fyrst um kvöld í maí.
Ég var að koma’ á rúntinn niðr’ í bæ.
Ó hve þín ásýnd öll mig heillaði.
Því aldrei nokkurn tíma gleymt ég fæ.“

Image may be NSFW.
Clik here to view.
02-HLJÓMAR-BM-688x451

Mynd: Fyrsta plata Hljóma kom út 1965

Bítlarnir úr Keflavík

Hljómar var rokkhljómsveit af Suðurnesjum, stofnuð 5. október árið 1963 af þeim Gunnari Þórðarsyni gítarleikara, Einari Júlíussyni söngvara og Erlingi Björnssyni gítarleikara. Þeir fengu svo til liðs við sig trommarann Eggert Kristinsson og fótboltakappann Rúnar Júlíusson á bassa. Hljómsveitin starfaði í sex ár, til ársins 1969 með ýmsum mannabreytingum en Gunnar, Erlingur og Rúnar voru kjölfestan. Hljómar var ein vinsælasta hljómsveit landsins á þessum tíma og með henni hóf bítlamenningin innreið sína á Íslandi fyrir alvöru.

Árið 1967 ræddi Andrés Indriðason blaðamaður á Vikunni við Gunnar Þórðarson um feril hans að Bítlinu í poppþætti Vikunar; Eftir eyranu:

„Hljómar hafa brátt staðið í sviðsljósinu í fjögur ár, og er ferill hljómsveitarinnar orðinn hinn viðburðaríkasti. Það hafa sannarlega skipst á skin og skúrir — en þó hafa góðviðrisdagarnir verið sýnu fleiri. Í vetur leið tóku Hljómar sér tveggja mánaða hvíld, og álitu þá margir — einkum og sérílagi ákafir velunnarar annarra hljómsveita, — að dagar þeirra í sviðsljósinu væru taldir. En þeir komu aftur fram á sjónarsviðið með betri músik en nokkru sinni fyrr, og þeir verðskulduðu fyllilega titilinn „Hljómsveit unga fólksins 1967 “.

Ég bað Gunnar fyrst að segja mér, hvenær og með hverjum hætti áhugi hans á músikinni hefði vaknað, en á fyrstu gagnfrœðaskólaárunum, fór ekki mikið fyrir músikáhuganum. Þá var það fótboltinn, sem öllu skipti! Og Gunnar trúir mér fyrir því, að hann hafi orðið Íslandsmeistari í 4. flokki! Hann brosir, þegar þessi mál ber á góma. Segir svo:

„Ég held ég hafi verið 16 ára, þegar ég byrjaði að fitla við gamlan gítar, sem mamma átti. Þetta var hálfgerður furðugripur, sveigður og með brotið bak. En þessi gítar kveikti samt hjá mér áhugann, og ég sat oft löngum stundum og kroppaði í hann.
Þegar ég var í 4. bekk gagnfræðaskólans, var ég settur við trommurnar í skólahljómsveitinni. Þá kunni ég ekkert á gítar, og var talinn mjög lélegur trommuleikari. Í þessari hljómsveit voru ágætismenn, sem nú eru orðnir þekktir hljóðfæraleikarar, og það undarlega er, að allir hafa haldið áfram á hljómlistarbrautinni. Þama var Grétar Skaptason, gítarleikari í Logum frá Vestmannaeyjum, en Grétar er Keflvíkingur; Erlingur okkar Björnsson var þarna líka og Páll Bjarnason, sem leikur nú á píanó með hljómsveitinni Ásar. Söngvarar voru Rúnar Júlíusson og Eiríkur Jóhannsson, sem nú leikur með hljómsveitinm Óðmenn. Þessi skólahljómsveit lék aðeins á skólaböllum, og þá var gítar músik í stíl við The Shadows allsráðandi. Þá þekktust engir Bítlar.““

Sumar og ást

Þegar maður lítur til baka til árs ástar og friðar hlýnar manni um hjartarætur því tilgangurinn með öllu þessu brölti var að fanga hugi fólks í sameiginlegri þörf fyrir ást og frið. Sumarið 1967 leið í ljúfri sælu og í minningunni var þetta sólríkt sumar. Menningarklíkan sem ég var í hittist reglulega og við hlustuðum á plötur og krufum þær til mergjar. Platan sem snerist hvað lengst í samfellu á fóninum var Sgt. Peppers Lonley Hearts Club Band sem rúllaði júní allan og langt fram í júlí enda frábær plata og við höfðum margt og mikið um hana að segja. Tíminn leið og haustið kom með nýja plötu; Strange Days með The Doors, algjörlega magnaða plötu sem hitti klíkuna beint í hjartastað. Sem hendi væri veifað knúði vetur konungur dyra og kom með glænýja íslenska bítlaplötu inn í líf okkar. Platan var með Bítlunum frá Keflavík og kom rækilega á óvart, hún var ekki bara í flottum umbúðum, heldur var hún líka vel unnin og andi stóru Bítlana sveif yfir vötnum í útsetningum og söngstíl. Platan hélt sig á fóninum framundir jól.

Tveim dögum eftir að platan kom út fjallaði blaðamaður Alþýðublaðsins um plötuna og ræddi við fólk í popþætti blaðsins Sviðsljósi 10. nóvember 1967.

„Hér er um að ræða mikla gersemishljómplötu, sem á engan sinn líka í íslenskri hljómplötuútgáfu og leggst þar allt á eitt; flutningur, lagaval, söngur og hljóðritun, sem er í stereo, en hún fór fram í London og hefur að sögn sérfróðra manna tekist með afbrigðum vel.
Ef borin er saman síðasta plata Hljóma og svo þessi, þá er mismunurinn geysilegur. Áður var ærandi beatið og þrumandi trommuslög Péturs Östlunds í fyrirrúmi, en nú auðheyrilega mest lagt upp úr söngnum.
Sviðsljósið kom að máli við Gunnar Þórðarson til að fá upplýsingar um plötuna.

-Hvernig var að vinna í breska stúdióinu? spyrjum við Gunnar fyrst,

-Það var alveg einstaklega gott. Tæknimennirnir voru mjög hjálpsamir og umburðarlindir. Sama er að segja um hljóðfæraleikarana tvo, sem við fengum til aðstoðar, en þeir léku á flautu og hammondorgel af mikilli snilli, enda með margra ára reynslu að baki sem stúdiómenn. Auk þessara hljóðfæra er annað, sem kannski vekur athygli, en það er harpa svokölluð, auto-harpa, sem ég meðhöndla. Hvað sönginn snertir, þá eru þeir Engilbert og Rúnar í fremstu víglínu, en nokkur lög syngjum við allir fjórir saman. Textarnir eru eftir Ólaf Gauk, Ómar Ragnarsson og Þorstein Eggertsson.

– Hvað tók upptakan langan tíma?

– 16 tíma í það heila — nei ekki í lotu. Undirbúningur hér heima og æfing laganna tók um fjóra mánuði, enda lögðum við okkur alla fram í því að vinna þetta sem allra best. Það má segja, að hver einasti tónn í hverju lagi út af fyrir sig hafi verið „diskúteraður“.

– Ánægður með útkomuna?

Já, alveg sérstaklega, enda hefur þetta allt tekist vonum framar; upptaka, flutningur, textar og útsetningar. Þá vil ég geta þess fyrir hönd Hljóma, að við erum ákaflega ánægðir yfir samstarfinu við útgefanda plötunnar, Svavar Gests.

Þátturinn hringdi í þau Gerði Guðmundsdóttur, Pétur Steingrímsson og Gunnar Jökul og bað um stuttlegt álit þeirra á þessari fyrstu LP plötu Hljóma.

Þá gefum við stjórnanda „Laga unga fólksins“, Gerði Guðmundsdóttur, orðið.

– Ég er sérstaklega hrifin af lögunum hans Gunnars, einkum „Þú og ég“. Það var Hljómum mikill styrkur að endurheimta Engilbert Jensen, hann er tvímælalaust með beztu dægurlaga söngvurum hérlendis og ber platan þess glöggt vitni. Hins vegar fer það ekki milli mála, að texta framburðurinn hjá þeim Rúnari og Gunnari hefur batnað geysilega mikið. Í heild finnst mér platan veglegt framlag í hljómplötuútgáfu hérlendis.

Næstur í röðinni er Pétur Steingrímsson, hinn fjölhæfi tæknimaður hjá Ríkisútvarpinu, en auk þess er hann sem kunnugt er, annar stjórnandi þáttarins „Á nótum æskunnar“.

– Mér finnst lögin flest góð, þó eru þarna 2-3, sem hefðu mátt missa sín. Athyglisverðustu lögin eru „Heyrðu mig góða“. „Sveitapiltsins draumur“ og „Um hvað hugsar einmana snót“. Útsetningar allar eru sérstaklega vandaðar og má segja, að þær auki mest á gæði plötunnar, þó ýmislegt fleira komi til. Textarnir eru misjafnir að gæðum, en flutningur Hljóma er hreint prýðilegur. Upptakan er með afhrigðum góð og sómir sér tvímælalaust á alþjóðamarkaði.

Að síðustu kemur hér fram álit Tempótrommarans, Gunnars Jökuls.

– Platan í heild er frábærlega vel unnin. Lögin, sem mér finnst bera af eru „Þú og ég“ og „Heyrðu mig góða“, bæði eftir Gunnar. Hins vegar finnst mér ekki nógu mikill kraftur í hljómsveitinni, þegar um hröð lög er að ræða, Þá eru textamir mjög misjafnlega vel gerðir, en Ómar Ragnarsson sleppur svo sannarlega vel frá sínum hluta, hans textar eru áberandi bezt unnir. Það sem ber plötuna uppi er snjall söngur, góðar útsetningar og afbragðs upptaka. Platan er af Hljóma hálfu algerlega laus við allan viðvaningsbrag og liggur auðheyrilega mikil vinna á bak við útgáfu hennar.“

Ástarsumarið var sumar breytinga – http://theconversation.com/the-summer-of-love-was-more-than-hippies-and-lsd-it-was-the-start-of-modern-individualism-77212?utm_campaign=Echobox&utm_medium=Social&utm_source=Facebook#link_time=1499351677

Miðsumarnótt

Lag Þórir Baldursson.
Texti: Þorsteinn Eggerlsson.

Spegilslétt hafið og sólin sem gull,
settu á borgina draumkenndan blæ.
Leit ég í augun þín
leyndardómsfull.
Leiddumst við ástfangin niður í bæ

— Það var miðsumarnótt.
Allt var svo hljótt, hvergi
mannveru að sjá.
Heit varstu þá.

Leiddumst við tvö ein í
laufskrýddan garð.
Lágnættið kom, sungu fuglar á grein.
Hamstola af æsingi hjarta mitt varð
Hurfum við afsíðis alsæl og ein

— það var miðsumarnótt.
Allt var svo hljótt, hvergi
mannveru að sjá.
Heit varstu þá.

Allar þær stúlkur, sem áður ég sá,
urðu í huga mínum einskisvert hjóm.
Leyndardómsaugunum leist þú mig á,
lofgjörð þér hvíslaði titrandi róm

— það var miðsumarnótt
Allt var svo hljótt, hvergi
mannveru að sjá.
Heit varstu þá.

Spegilslétt hafið og sólin, sem gull
settu á borgina mynstur og flúr.
Leit ég í augun þín
leyndardómsfull.
Leiddumst við ástfangin garðinum úr.

— Það var miðsumarnótt.
Allt var svo hljótt, hvergi
mannveru að sjá.
Heit varstu þá.

Miðsumarnótt á YouTube – https://www.youtube.com/watch?v=XRtbw-IOd9E

Image may be NSFW.
Clik here to view.
05-HLJÓMAR-BM-688x451

Mynd KFK: Að framanverðu

Hljómar – Hljómar

Gerð: SG – 013
Flytjandi: Hljómar
Gefin út: 1967
Tónlistarstefna: Popp
Útgáfufyrirtæki: SG – hljómplötur
Upptökustjórn: Tony Russell

Hljómar er 33 snúninga LP hljómplata gefin út af SG – hljómplötum í nóvember árið 1967. Stereo hljóðritun var gerð í Chappell Recording Studios, London.
Yfirumsjón með upptökum:Tony Russell.
Önnur vinnsla svo sem skurður og pressun fór fram í Þýskalandi.
Forsíða: Hilmar Helgason
Ljósmyndir á plötuumslagi tók Kristján Magnússon.

Hljómar í sjónvarpssal – https://www.youtube.com/watch?v=gGYJF7-FwSM

Lagalisti

01- Heyrðu mig góða – Lag – texti: Gunnar Þórðarson – Ólafur Gaukur
02 – Sveitapiltsins draumur- Lag – texti: J&M. Philips – Ómar Ragnarsson
03 – Miðsumarnótt – Lag – texti: Þórir Baldursson – Þorsteinn Eggertsson
04 – Hringdu – Lag – texti: T. Hatch – Ómar Ragnarsson
05 – Þú og ég – Lag – texti: Gunnar Þórðarson – Ólafur Gaukur
06 – Æsandi fögur – Lag – texti: B. Verdi, B. Kaye & E. Gin – Ómar Ragnarsson
07 – Peningar – Lag – texti: Rúnar Gunnarsson – Þorsteinn Eggertsson
08 – Þú ein – Lag – texti: B. Bryant – Ómar Ragnarsson
09 – Einn á ferð – Lag – texti: Lennon/McCartney – Ómar Ragnarsson
10 – Syngdu – Lag – texti: Gunnar Þórðarson – Ólafur Gaukur
11 – Um hvað hugsar einmana snót – Lag – texti: J. Sebastian — Ómar Ragnarsson
12 – Gef mér síðasta dans – Lag – texti: J. Pomus & R. Shuman — Ómar Ragnarsson

Image may be NSFW.
Clik here to view.
07-HLJÓMAR-BM-688x451

Mynd KFK: Heyrðu mig góða

Heyrðu mig góða

Lag -texti: Gunnar Þórðarson – Ólafur Gaukur

Hey, hey, heyrðu mig góða.
þú gerir það nú,
gefðu mér blíðu þína.

Hey, hey, heyrðu mig vina,
þá verðurðu frú,
vertu mig ekki’ að pína,
ég get bara’ ekki beðið meir.

Hey, hey. heyrðu mig góða.
þú gerir það nú,
gefðu mér koss á vanga.

Hey, hey. heyrðu mig vina
ég vildi að þú
veittir mér sælu langa.

Saman gætum, við gengið tvö,
gengið fram veginn, sem liggur
til lífsins, en

Bíða, á ég þá bara að bíða,
tíminn er lengi. svo lengi að líða,
ég get það ekki meir.

Ég hélt að þú vildir mig og værir
stúlkan mín
vonaði að engum öðrum gæfir þú
gullin þín.

Bíða, á ég þá bara að bíða,
tíminn er lengi, svo lengi að líða,
ég get það ekki meir, ég get það
ekki meir, ég get það ekki meir.

Heyrðu mig góða á YouTube – https://www.youtube.com/watch?v=TOpcvfrCpuU

Peningar

Lag: Rúnar Gunnarsson.
Texti: Þorsteinn Eggertsson.

Til eru hlutir hér í heimi sem ég
hefi afar miklar
mætur á, já, jamm og já.
Þótt þeir séu algengir, mér
auðveldlega ekki gengur
samt í þá að ná — á, af og frá.
Mig skiptir engu þótt ég eigi
nokkra aura eða hafi
alveg nóg ó, jú og þó.
En ég vil meira, því ég met svo mikils munað —
ég vil lifa í næði og ró — ó, hæ
og hó.
Þú heldur kannski það sé kvenfólk
Já-á kannski bara einhver fögur
mey, nei — sei, sei, nei.
Nei ég vil pyngju fulla af peningum
já, peninga í tonnum unz ég dey,
hei, annað ei.
Já, ég vil hundrað fagrar hallir,
ásamt heilmiklu
af þjónalýð og fé, — já mér í té.
Og út um allan heim ég eiga vil
eitt ótal magn af
hlutabréfi/- ef gott það sé.

Peningar á YouTube – https://www.youtube.com/watch?v=xbNWYQBE0Cg

Image may be NSFW.
Clik here to view.
09-GHLJÓMAR-BM-688x451

Mynd KFK: Blómasumarið 1967

Umslagið

Stundum voru listamenn fengnir til að ljósmynda eða „teikna“ SG plötuumslögin líkt og umslagið um plötu Björgvins Gíslasonar (SG 105) sem kom út 1977 og er með túss teikningu eftir Flóka. Þá voru ljósmyndarar einnig kallaðir til þegar grípa skyldi andartakið eins og á plötu Hannesar Jóns (SG 052) frá 1972 sem Sigurgeir Sigurjónsson myndaði.
Þegar kom að umslagi um íslensku Bítlana frá Keflavík, þýddi ekkert hálfkák og til verksins voru fengnir tveir listamenn; Kristján Magnússon (1931-2003) ljósmyndari og tónlistarmaður og Hilmar Þ. Helgason (1947-2001) teiknari.

Kristján Magnússon rak um langt árabil ljósmyndastofu í Einholti 2. Þar sem hann tók fjölskyldu og portrettmyndir en hann var líka ötull að ljósmynda íslenskt tónlistarfólk enda hæg heimatökin fyrir mann í sama bransa. Á árunum 1948-1961 var hann píanóleikari í KK-sextettinum og hljómsveit Björns R. Einarssonar. Eftir það lék hann með ýmsum djasshópum og með eigin djasskvartett frá árinu 1981. Hann vann við blaðaljósmyndun á árunum 1958-1969, og rak eigin ljósmyndastofu frá árinu 1967 og myndaði þá meðal annars Hljóma.

Image may be NSFW.
Clik here to view.
10-GHLJÓMAR-BM-688x451

Mynd KFK:Teikningar Hilmars í Haustskipum Björns Th. Björnssonar

Teiknarinn drátthagi

Hilmar Þ. Helgason sem teiknaði myndina á framhlið umslagsins nam listina við Myndlista og handíðaskóla Íslands í auglýsingadeild og í framhaldsnámi í Skotlandi. Í minningargrein um Hilmar í Morgunblaðinu árið 2001 segir vinur hans Þórarinn Helgason (Doddi) svo frá Hilmari og sér:

„Ég hitti Bóbó fyrst heima hjá Jóa Kjarval og Þórarni á St. Patric Square 31 í Edinborg haustið ’69, sem svo varð, er á leið, annað heimili okkar beggja þennan vetur, enda urðum við nokkurskonar kostgangarar þeirra félaga þegar að kreppti og fjármunum hafði verið eytt í annað en mat. Þetta kvöld tókst góð vinátta með okkur sem fljótlega leiddi til þess að við leigðum saman herbegi þennan vetur í Edinborg.
Bóbó var í námi við listaháskólann Edinburgh College of Art og lagði stund á auglýsingateiknun og sóttist námið vel og á ég ennþá í fórum mínum kort sem hann hannaði og teiknaði og vann til verðlauna í samkeppni í skólanum. Bóbó var miklum hæfileikum búinn og var mjög snjall teiknari og þótti fengur hjá bókaútgefendum að fá hann til að teikna bókakápur og skreyta bækur og þekkti ég um tíma handbragð hans á fjölda bókakápa og einna minnisstæðastar er mér teikningar hans í bók Björns Th. Björnssonar, Haustskip.
Því miður urðu aðstæður þannig að margt varð til þess að trufla þessa sköpunargáfu hans og ekki fer alltaf allt eins og ráðgert er. Úti í Edinborg byrjuðum við trúlega að þróa með okkur þann sjúkdóm sem við báðir gengum með og sinntum lítt um aðvaranir og umkvartanir. Oft voru gerðar tilraunir á síðkvöldum til að labba Rose Street á enda með viðkomu á öllum pöbbunum, en ekki man ég lengur hvenær við náðum lengst, en eitt er víst að þá náðum við aldrei í höfn.
Ég á margar góðar minningar frá Edinborgartíð okkar Bóbós sem nú leita á hugann og þessi tími var trúlega einn sá áhyggjulausasti í lífi okkar beggja og ég er þakklátur fyrir þau kynni og þá vináttu sem þá ríkti og aldrei féll skuggi á. Í hjarta mínu finn ég til saknaðar við fráfall Bóbós en jafnframt gleði yfir því að hafa verið á réttum stað á réttum tíma.
Það sem leit út fyrir að vera saklaust úti í Edinborg þróaðist úr gleði í sorg og það hefur ef til vill verið þessi samhljómur sem við skynjuðum hvor hjá öðrum í upphafi og seinna varð til þess að við þurftum báðir að leita okkur hjálpar vegna þessa og af þeim vettvangi bárust mér góðar kveðjur frá Bóbó fyrir nokkrum misserum og þótti vænt um.“

Þá er hér vitnað í gagnrýni Aðalsteins Ingólfssonar listfræðings í Dagblaðinu 26. Nóvember 1975 um teikningar Hilmars í Haustskipum Björns Th. Björnssonar:

„Eins og mörgum er kunnugt fjallar bók Björns um flutninga og þrældóm íslenskra fanga í Danmörku á úthallandi 18. öld og hefur höfundi verið vandi á höndum að finna teiknara til að lýsa söguþráð hans, svo hörmulegur og kynlegur sem hann er. Val Björns á Hilmari Þ. Helgasyni var á allan hátt giftusamlegt, því Hilmar hefur leyst verkefni sitt af hendi með mestu prýði og innlifun. Hann hefur áður teiknað nokkrar bókakápur og er greinilegt að þar hafa hæfiieikar hans ekki verið fullnýttir, því teikningar hans 24 í „Haustskipi” eru eitthvert mesta stórvirki sem ég man eftir í íslenskri bók undanfarin ár.
Efni bókarinnar krefst ekki litskreytinga, heldur einfaldra og áhrifamikilia teikninga í svart-hvítu með ámóta krafti og tréskurðarmyndir og sömuleðis krefst hún Irúnaðar við alla fatatísku og tíðaranda, sem má þó ekki vera of smásmugulegur. Hilmar hefur greinilega sökkt sér niður í tíðarandann, klæði öll eru sannfærandi, en þó er hann ekkert að dedúa við srnáatriði. Teikning hans er yfirleitt föst og hvelfd, honum eru tamari sveiglínur heldur en beinar, en samt verða sakamenn hans aldrei fínlega vesælir, því einföld myndskipan og sérkennilega expressjónísk skygging dregur fyllilega fram vesaldóm, afkáraskap og stolt þessara ólukkulegu manna. Ef til vill er Hilmar hér að samtvinna hina þokkafullu línu rókókó-tímans líflínu íslenskra sakamanna á sama tíma.“


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283