Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Ógeðsleg kona ögrar valdinu

$
0
0

Gígja Skúladóttir skrifar: 

Þetta er saga Fjalla-Höllu, einu útilegukonu Íslands að undanskilinni Guðrúnu dóttur þeirra Eyvindar sem ólst upp í óbyggðunum með þeim til 12 ára aldurs. Halla og Eyvindur voru merkilegt afreksfólk og náðu að lifa frjáls undan mannlegu oki í áratugi, á einu mesta harðindaskeiði sögunnar, seinni part átjándu aldar, oft á tíðum inn á öræfum Íslands. Þó að Eyvindur væri sakamaður er saga hans böðuð í hetjuljóma og það glóir á allt sem honum viðkemur.

Ólíkt Eyvindi eru persónu- og útlitslýsingar á Höllu vægast sagt skelfilegar. Samkvæmt hemildum er Halla sögð lág og fattvaxin, dökk yfirlitum, skoleygð, brúnþung, opinmynnt og loks „..langleit og mjög svipill og ógeðsleg“. Hún þótti harðlynd og átti það til að bíta þá sem handsömuðu hana eins og hið argasta villidýr. Henni er lýst sem lítt grandvari enda tók hún fagnandi á móti hinum alræmda kvennabósa Eyvindi, sem var til þess að þau eyddu næstu 30 árunum í útlegð og á hrakhólum.

„Hin ógeðslega“ og sjarmörinn.

Miðað við lýsingar í heimildum þarf engan að undra að Halla hafi fallið kylliflöt fyrir Eyvindi, enda var hann sagður hávaxinn og gljóbjartur með liði. Mjúkmáll, geðgóður og með afburðum handlaginn og úrræðagóður í öllum aðstæðum; liðugur, fimleikamaður góður og öllum mönnum fremri. Eyvindur hefur í gegnum aldanna rás verið baðaður í hetjudýrð og ævintýraljóma. Honum er líka lýst sem miklum kvennamanni enda stóðust konur ekki persónutöfranna sem bókstaflega láku af honum. Eftir að hann kynnist Höllu sinni, varð samt viðsnúningur; hann hætti að vera player eða glaumgosi og varð tryggur eiginmaður og faðir.

lýsing-Eyvindur:Halla

Halla var ung ekkja, búin að missa bæði eiginmann og son þegar Evyindur gerist vinnumaður hjá henni í Miðvík í Aðalvik á Hornströndum, þar sem hún býr við hokur. Í þá daga áttu ekkjur fáa aðra valkosti en að fara á sveitina, missa sjálfræðið sitt og verða þrælar með engin réttindi og litla von um bættari kjör. Hinn valkosturinn var að einhver aumkaði sig yfir þær og gékk að eiga þær (í orðsins fyllstu merkingu) en það var sveitastjórnamanna að ákveða hver það skyldi verða, ef nokkur kærði sig um viðkomandi konu. Höllu beið því annað hvort þrælkun og/eða kynlífsþrælkun, með sveitarstjórnarúrskurði.

Halla var því vart að fórna miklu með slagtogi við Eyvind. Ekki fórnaði hún frelsinu því frelsið var ekki hennar. Flestir landsmenn bjuggu við bág kjör, sult og harðindi, en atlæti þeirra var svo illt á köflum að óskiljanlegt er að þau lifðu af langa og harða vetur. Frelsið áttu þau umfram alla aðra. „Fagurt er á fjöllunum núna“ á Halla að hafa sagt rétt áður en hún fer aftur til Eyvindar og fjallanna sinna.

Halla og Eyvindur eru nokkrum sinnum handsömuð; saman og í sitt hvoru lagi, en ná alltaf að sleppa. Þau fara þvert um landið og búa á ótal stöðum. Eftir Skaftáreldana flýja þau vestur í Jökulfirði í Hrafnfjörð þar sem þau eyða síðustu æviárunum. Þau náðu bæði níræðisaldri sem getur ekki annað en talist ótrúlegt afrek.

Uppreisnarkonan er alltaf ómöguleg

Þær konur sem hafa farið gegn valdinu og ekki gert nákvæmlega það sem ætlast er til af þeim í samfélaginu fá oft á sig það orðspor að vera ljótar, grimmar, kaldlyndar og hið ónáttúrlegasta af öllu; hafa ekki ríkt móðureðli. Karlmenn í sömu stöðu fá oft á sig hetjuljóma. Það var nánast ekkert sem var Eyvindi um megn eins og að flýja óvini sína á handahlaupum. En Halla átti að hafa drepið börn sín með köldu blóði og borið þau út, á meðan Eyvindur leit undan, því það var honum um megn. Ekkert er hæft í þessum sögum.

Ekki er vitað með vissu hvað mörg börn þeim fæddust en líklegt er að þau hafi misst barn/börn því ungbarnadauði var mjög algengur á þessum tíma. Samtímaheimildir eru til um tvær dætur og minnst er á soninn Gísla eingöngu í bréfaskriftum en ekki eru til opinber gögn um tilvist hans.

Elsta dóttirin, Guðrún, var hjá þeim til 12 ára aldurs en sú yngri, Ólöf, fór í fóstur þegar þau neyðast að fara upp á hálendið eina ferðina enn. Ólöf fór til Guðmundar Eiríkssonar og Guðrúnar Þórðardóttur í Reykjafirðinum. Seinna tóku þau einnig að sér Guðrúnu, elstu dóttur þeirra og þegar Guðmundur lést kom Guðrún ekkjan hans þeim systrum til barna sinni í Vatnsfirði.
Útileguhjónin voru því ekki vondir foreldrar eða Halla laus við móðureðlið. Þau sáu til þess að börn þeirra fengu gott heimili og fengu að alast upp saman. Einnig var auðveldara að vitja þeirra á sama bæ en sitthvorum.

Hetjan Halla

Halla Jónsdóttir er ekki síðri hetja en eiginmaður hennar Eyvindur Jónsson, hún flýr nöturleg örlög sín í ekkjulífi í óbyggðirnar en fær á sig mun verra orðspor en sakamaðurinn eiginmaður hennar. (Þó hægt sé að draga í efa sekt hans, þá hlaut hann dóminn).

Það er þessi þráláta skekkja sem þarf að lagfæra og hreinlega endurskrifa suma kafla sögunnar með tillitil til þátta kvenna, helmings Jarðabúa. Þeirra barátta var samvinna tveggja aðila og hvorugt hefði getað lifað án hins, því ekkert hefði Eyvindur verið án Höllu og Halla ekkert án Eyvindar. Saga Fjalla-Höllu er saga af konunni sem valdi frelsið umfram samþykki samfélagsins.

 

Forsíðumynd: Hið undarlega minnismerki um Eyvind og Höllu á Hveravöllum sem sýnir tvö steinlaga hjörtu innan rimla. Minnismerkið heitir „Fangar frelsisins“ og er eftir Magnús Tómasson. Erfitt er að skilja þessa rimla því Halla og Eyvindur bjuggu við frelsi og voru aldrei fangar óblíðra náttúrufla í öræfum. Þau sigruðu öræfin.
Minnismerkið var reist laust fyrir aldamót að tilstuðlan „Fjalla-Eyvindar félagsins“. Formaður þess var þá Guðni Ágústsson, fv. landbúnaðaráðherra.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283