Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Framkvæmdastjóri Tyrklandsdeildar Amnesty í varðhaldi

$
0
0

Fréttatilkynning frá Íslandsdeild Amnesty International

 

Tyrkland: Framkvæmdastjóri Tyrklandsdeildar Amnesty International í varðhaldi

 

Framkvæmdastjóri Tyrklandsdeildar Amnesty International Idil Eser og sjö aðrir  mannréttindafrömuðir ásamt tveimur þjálfurum voru handtekin síðastliðinn miðvikudag, þegar þau tóku þátt í námskeiði um stafrænt öryggi og upplýsingastjórnun í Büyükada í Istanbúl.

„Við erum virkilega óróleg og okkur er algjörlega misboðið að helstu mannréttindafrömuðir Tyrklands, þeirra á meðal framkvæmdastjóri Tyrklandsdeildar Amnesty International, skuli hafa verið handteknir blygðunarlaust og án tilefnis,“ segir Salil Shetty, framkvæmdastjóri Amnesty International.

Þeir sem handteknir voru ásamt Idil Eser eru: İlknur Üstün, frá kvennabandalaginu Women‘s Coalition, Günal Kurşun, lögfræðingur, Veli Acu frá mannréttindasamtökunum Human Rights Agenda Association, Nalan Erkem, lögfræðingur, Özlem Dalkıran frá Citizens‘ Assembly, Nejat Taştan, frá samtökunum Equal Rights Watch Association og lögfræðingurinn Şeyhmuz Özbekli.

Þá voru tveir erlendir ríkisborgarar, Þjóðverji og Svíi, einnig handteknir ásamt hóteleigandanum þar sem námskeiðið fór fram.

„Það að Idil Eser og hinir mannréttindafrömuðirnir skuli hafa verið handtekin á meðan þau tóku þátt í venjubundinni þjálfun og sé haldið í einangrun er afkárleg misbeiting valds og undirstrikar það hættulega ástand sem aðgerðasinnar í Tyrklandi þurfa að búa við. Idil Eser og aðrir sem handteknir voru verður að leysa skilyrðislaust úr haldi strax.“

Búist er við að draga muni til tíðinda í þessari viku eða þeirri næstu, hvort ákærur verði lagðar fram á hendur þeim.

 

Auglýsing

 

Formaður Amnesty International handtekinn fyrir mánuði síðan

Aðeins er tæpur mánuður síðan formaður Amnesty International í Tyrklandi, Taner Kiliç, var úrskurðaður í gæsluvarðhald í framhaldi af tilhæfulausum ákærum.

Taner Kiliç er einn af þolendum yfirgripsmikillar hreinsunar yfirvalda. Hann hefur verið ákærður fyrir aðild að „hryðjuverkasamtökum Fetullah Gülen“ og situr í gæsluvarðhaldi. Amnesty International kallar eftir því að hann verði leystur úr haldi án tafar og skilyrðislaust.

 

Framkvæmdastjóri Amnesty International fordæmir handtökurnar

Salil Shetty, framkvæmdastjóri Amnesty International var í Hamborg um helgina þar sem G20 fundurinn var haldinn og hélt þar blaðamannafund. Hann fordæmdi framgöngu Tyrklands í mannréttindamálum ásamt handtöku formanns Tyrklandsdeildar Amnesty International fyrir tæpum mánuði síðan sem og handtöku framkvæmdastjóra Tyrklandsdeildar Amnesty International, ásamt níu öðrum mannréttindasinnum í Istanbúl í síðustu viku.

 

Salil Shetty talaði við helstu fréttamiðla heims um málið, þar að meðal Reuters, BBC World og Deutsche Welle. Hann hitti einnig ráðherra hinna ýmsu þjóða og ræddi við þá um alvarlega stöðu mannréttinda í Tyrklandi. „Þessar fjarstæðukenndu ásakanir á hendur Idil Eser og hinum mannréttindafrömuðunum koma upp um alvarleika þeirra árása sem frjáls félagasamtök í Tyrkland verða fyrir.“

 

„Óforskömmuð handtaka þeirra er nógu slæm en að þau séu nú yfirheyrð í tengslum við aðild að hryðjuverkasamtökum er fjarstæðukennt. Ef einhver vafi leikur á því hvert loka takmarkið er með fjöldahreinsunum yfirvalda í kjölfar valdaránstilraunarinnar í fyrra, þá ætti það að vera ljóst nú. Engin gagnrýni, ábyrgðarskylda né borgaralegt aðhald mun leyfast í Tyrklandi, ef fram heldur sem horfir. Ef leiðtogar heimsins, sem sátu G20 fundinn, bregðast frjálsum félagasamtökum og mannréttindafrömuðum Tyrklands núna er hætta á að engvir verði eftir þegar næsti G20 fundurinn fer fram.“

 

 

Grípið til aðgerða

Mjög er óttast um öryggi Idil Eser og hinna handteknu. Til að grípa til aðgerða og krefja tyrknesk stjórnvöld um að leysa Idil Eser og aðra mannréttindafrömuði tafarlaust og án skilyrða úr haldi er hægt að skrifa undir netákall Amnesty International hér.

 

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283