Sesselja Bjarnadóttir skrifar
„Nú hefur fallið á geislabauginn yfir Sjómannadagsráði“, sagði virtur skipstjóri og fyrverandi meðlimur Sjómannadagsráðs í Morgunblaðinu nýlega. Því til sönnunar ætla ég að segja frá framkomu Hrafnistumanna við móður mína.
Foreldrar mínir, Petrína Gísladóttir og Bjarni H. Egilsson tóku á leigu íbúð í Boðaþingi 24 árið 2011. Fljótlega kvisaðist út að ekki væri allt með felldu varðandi rekstur og bókhald Naustavarar ehf. Stjórn Íbúafélagsins var því falið á fjölmennum íbúafundi að vinna að því að Naustavör ehf. færi að húsaleigulögum nr. 36/1994. Tók þá við mikið málþóf milli stjórnar og Hrafnistumanna er gerðu allt til að tefja tímann; það var eins og þeir þyrftu að fela eitthvað meira.
Því miður neyddist stjórn íbúafélags til að höfða dómsmál fyrir hönd íbúanna og niðurstaða dómsins varð að Hrafnistumenn voru dæmdir fyrir að hafa ofrukkað leigjendur sína í Kópavogi, Hafnarfirði og Reykjavík og þurfa nú að greiða öllum leigjendum sínum fjögur ár aftur í tímann með vöxtum til dagsins í dag.
Um er að ræða dóm héraðsdóms Reykjavíkur, föstudaginn 10. febrúar 2017, í máli nr. E-1637/2016
Sesselja Bjarnadóttir og Petrína Gísladóttir
Eftir dóminn fóru Hrafnistumenn í allar leiguíbúðir sínar og hótuðu leigjendum uppsögn og brottrekstri ef þeir afsöluðu sér ekki ca. kr. 500.000.00 pr. íbúð. Auðvitað urðu aldraðir leigjendur sem eru að meðaltali 82 ára og með mismunandi heilsufar hræddir og samþykktu að gefa Hrafnistumönnum ca. 500.000. pr. íbúð. Móðir mín sem er á tíræðisaldri sagði nei. „Nei, ég skrifa aldrei undir þetta plagg“, sagði hún við Aldísi Einarsdóttur, þjónustufulltrúa Naustavarar ehf. þegar hún kom með samninginn og hótunina um brottrekstur ef hún skrifaði ekki undir.
Ekki var tekið tillit til þess að eiginmaður hennar var ný látinn og við í fjölskyldunni vorum að ganga frá dánarbúi hans.
Nokkrum vikum seinna kemur Sigurður Garðarsson, framkvæmdastjóri Naustavarar ehf. og spyr móður mína hvort hún vilji nú ekki bara skrifa undir til að losna við þetta vesen, móðir mín svaraði ósköp rólega; „ég samþykki ekki að stolið sé af eldri borgurum“. Einnig sagði hún við Sigurð Garðarsson, framkvæmdastjóra að sér hefði sárnaði mjög þessi harka á sama tíma og hún væri í uppnámi og sorg vegna andláts mannsins síns og „ef þið berið mig út skal ég sjá um að fréttamenn verði við þegar ég reisi tjald mitt á lóðinni hér fyrir utan“. Ekki fór meira á milli þeirra.
Daginn sem Naustavör var búin að lofa að greiða dómskröfuna, er þá ekki Aldís Einarsdóttir send í Boðaþing til að safna uppí greiðsluna og kemur til móður minnar og segir: „er ekki rétt Petrína mín að þú gangir nú frá þessu og skrifir undir samninginn?“ Hún hélt nú ekki að hún myndi aldrei skipta um skoðun.
Þarna ætluðu Hrafnistumenn að næla sér í hálfa milljón af móður minni upp í dómskröfuna sem þeir voru dæmdir til að greiða henni, hugsið ykkur vinnubrögðin gagnvart öldruðum leigjendum.
Ég spyr ykkur lesendur; nálgast þetta ekki að vera fjárkúgun sem varðar við lög að Hrafnistumenn beiti aldraða leigjendur sína svona hörku?
Er þetta að „búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld“?
Myndin er af vef Hrafnistu og sýnir öldrunarheimili Hrafnistu í Reykjavík
Kvennablaðið fjallaði um mál íbúanna í Boðaþingi í grein í apríl.