Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Karl Ágúst svarar Jóni Steinari

$
0
0

Karl Ágúst Úlfsson skrifar:

Sæll aftur, Jón Steinar og þakka þér fyrir svar þitt. Þú svarar mér akademískt eins og margir höfðu spáð og við því er svo sem ekkert að segja annað en að það veldur mér nokkrum vonbrigðum. En hvað um það, vonbrigði er tilfinning sem ég er orðinn svo vanur að ég kynni eflaust ekki að lifa án hennar.

Eins og þú veist var ég ekki að biðja þig um akademískt svar. Ég bað þig ekki að útskýra fyrir mér lagatæknilega merkingu fyrirbærisins „uppreist æru“, en þakka þér samt fyrir að fræða mig. Ég var að biðja þig um heiðarlegt svar eftir að þú hefðir sett þig i spor þeirra sem þjást vegna glæpa skjólstæðings þíns, Róberts Árna Hreiðarssonar Downey barnaníðings. Það hefði kostað þig svolitla sjálfsskoðun. Ég var að reyna að höfða til þín sem manneskju og foreldris. Þú hefðir þurft að líta í eigin barm, rýna svolítið inn á við og setja þig í samband við þínar eigin tilfinningar. Þetta er kallað að setja sig í spor annarra, sýna meðlíðan. Eflaust eru ekki allir færir um þetta, og sjálfsagt eru líka margir sem veigra sér við því. Og líklega er þetta ekki kennt í lögfræðinni. En hvað sem því líður get ég fullyrt við þig, Jón Steinar, að þjáningar fórnarlamba Róberts Árna Hreiðarssonar Downey barnaníðings eru ekki akademískar.

Ég spurði þig nokkurra spurninga, en eina svarið sem ég fæ við þeim er að þú vonir að þú hefðir stærð til að fyrirgefa manni sem hefði nauðgað einu af börnunum þínum á meðan það var undir lögaldri. Gott og vel. Það er fallegt að fyrirgefa. Það er meira að segja akademískt fallegt. Og þar með hlýtur þetta að vera rétt svar. Eða hvað?

Og þú mátt alls ekki halda að ég sé að vanþakka svar þitt. Þvert á móti þykir mér heilmikill fengur í þessum skrifum þínum, Jón Steinar, en það vill svo kostulega til að gagnið sem ég hef af þeim liggur aðallega í spurningunni sem þér dettur ekki í hug að spyrja mig – já, eiginlega bæði í spurningunni og því að þér skuli ekki detta það í hug:

„Mér dettur ekki í hug, Karl Ágúst, að spyrja þig hvað þú myndir gera ef einhver þér nákominn, sem þér þætti vænt um, gerðist sekur um svona brot eins og þú talar um, afplánaði dóm sinn og leitaði síðan eftir tækifæri til að komast á réttan kjöl í lífinu; hvort þú myndir þá vilja synja honum um tækifæri til þess? Þú þarft því ekkert að svara þessu. Svar þitt myndi heldur ekki skipta neinu máli fyrir málefnið. Maðurinn ætti að fá þetta tækifæri, jafnvel þótt þú værir svo „harður af þér“ að vilja neita honum um það og sjá hann veslast upp í einsemd og volæði án samskipta við annað fólk.“

Þetta segir þú. Og vissulega hefði það verið mátulegt á mig að þurfa að svara þessari spurningu eftir dónaskapinn að krefja þig um tilfinningalegt innsæi. Ég hefði vissulega gott af því að setja mig í þessi spor – og einmitt þess vegna ætla ég að reyna að svara þessari spurningu sem þú spyrð mig ekki:

Ef einhver mér nákominn, sem mér þætti vænt um, gerðist sekur um kynferðisofbeldi gagnvart börnum, þá myndi ég ekki vilja sjá hann veslast upp í einsemd og volæði án samskipta við annað fólk. Þvert á móti myndi ég reyna allt sem í mínu valdi stæði til að svo yrði ekki. Ég myndi hvetja hann til að gangast við glæpum sínum (því ég gef mér þær akademísku forsendur að hann hafi ekki gert það, þó að hann hafi afplánað dóm sinn). Ég myndi ráðleggja honum að sýna iðrun, og biðjast fyrirgefningar. Ég myndi eindregið ráða honum að leita sér aðstoðar svo hann héldi ekki áfram ofbeldisverkum sínum. Ég myndi biðja hann að reyna að bæta fyrir brot sín eftir öllum þeim leiðum sem honum væru færar. Ég myndi biðja bæði hann og lögmann hans að sýna fórnarlömbum hans auðmýkt og viðurkenningu á að þau hefðu orðið fyrir óbætanlegu tjóni af hans völdum. Í öllu þessu myndi ég styðja hann dyggilega til þess að hann mætti komast á réttan kjöl í lífinu.

Og ég veit líka hvað ég myndi ekki gera: Ég myndi ekki reyna að skila skömminni aftur til fórnarlambanna, leggja þeim lífsreglur og segja þeim hvernig þau ættu að ná bata. Þær ráðleggingar kæmu úr hörðustu átt og ég gæti ekki búist við að þeim yrði vel tekið.

Eins og þú bendir mér réttilega á skiptir þetta svar mitt engu máli fyrir „málefnið“ – ekki frekar en svör þín hefðu gert – en það skiptir samt máli að því leyti að það segir eitthvað um það hverjir við erum.

Allt tal þitt um fyrirgefningu er mjög fallegt, Jón Steinar. Og þegar öllu er á botninn hvolft, þá standa leikar svona samkvæmt því sem þú segir:

Róbert Árni Hreiðarsson Downey barnaníðingur er búinn að sitja af sér dóm sinn þó að hann hafi aldrei viðurkennt brot sín. Nú er boltinn hjá fórnarlömbunum. Ef þeim líður ennþá illa er það þeim sjálfum að kenna. Þeim batnar ekki fyrr en þau hafa fyrirgefið blessuðum manninum. Þangað til ætla ég að fá að spila golf í friði. #höfumhátt


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283