Gísli Ásgeirsson, þýðandi, bloggari og hjólreiðamaður, hefur undanfarnar vikur vakið athygli fyrir sérstakt dálæti sitt á Facebook-hópnum „Keypt í CostCo-myndir og verð“. Gísli hefur verið virkur þátttakandi í hópnum og póstað þar myndum af hlutum sem fást í Costco og hlutum sem hann spyr hvort fáist í Costco. Myndir þessar vekja þó grun um að manninnum sé ekki full alvara og eru innlegg hans iðulega fjarlægð samdægurs. Meðal þeirra færslna Gísla sem stjórnendur hafa hafnað er mynd af íburðarmikilli líkkistu, (sem mun víst ekki fást í Costco) og sakramentisbúnaði, þ.e. pakkningu með rauðvínsdreitli og oblátum, sem einfalt er að taka með í vinnuna, ferðalagið, á djammið eða í hverjar þær aðstæður sem bjóða upp á að menn falli í freistingar og þurfi að iðrast synda sinna í snarheitum (en fæst heldur ekki í Costco, í það minnsta ekki á Íslandi).
Í morgun póstaði Gísli svo mynd af handhægu ferðaklósetti sem mun fást í Costco. Umrætt ílát sem er selt undir heitinu Cool Stool (sem á íslensku útleggst svalar hægðir) mun víst, þrátt fyrir þetta villandi heiti, vera kælibox.
Svo virðist sem misskilningur þýðandans hafi farið fyrir brjóstið á stjórnendum Costco-hópsins því Gísla hefur nú verið úthýst úr grúppunni. Nánar má lesa um þennan brottrekstur og tildrög hans á Málbeininu, bloggsvæði Gísla Ásgeirssonar.