Fréttatilkynning frá Reykjavíkurborg
María Rut Reynisdóttir hefur verið ráðin verkefnastjóri Tónlistarborgarinnar Reykjavíkur úr hópi 35 umsækjenda.
María Rut hefur undanfarin ár verið umboðsmaður tónlistarfólks, þar á meðal Ásgeirs Trausta, og sinnt umfangsmiklum verkefnum í því starfi hér heima og erlendis. Hún var í nokkur ár framkvæmdastjóri Íslensku tónlistarverðlaunanna og tók á sínum tíma þátt í því að byggja upp frumkvöðlafyrirtækið og tónlistarveituna Gogyoko.com.
Hún hefur verið dagskrárstjóri tónlistarhátíðarinnar Iceland Airwaves, ráðstefnustjóri You Are In Control, skipulagt stórtónleika Ljósanætur í Reykjanesbæ og kennt verkefnastjórnun hjá Listaháskóla Íslands. Í gegnum árin hefur hún auk þess skipulagt og stýrt ýmsum öðrum verkefnum og viðburðum.
María Rut lærði skapandi verkefna- og viðskiptastjórnun í KaosPilot skólanum í Árósum og er auk þess með B.A. gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands. Nýlega lauk hún netnámskeiði Berklee tónlistarskólans í markaðssetningu tónlistar á netinu.
Tónlistarborgin Reykjavík er nýtt þróunarverkefni á vegum Reykjavíkurborgar og verður hlutverk Maríu Rutar meðal annars að móta og ýta úr vör aðgerðum í samræmi við tillögur starfshóps um Tónlistarborgina Reykjavík og skapa hagstæð skilyrði fyrir gróskumikla tónlistarstarfsemi um alla borg.
Verkefnið Tónlistarborgin Reykjavík heyrir undir Menningar- og ferðamálasvið Reykjavíkur en starfsstöðin verður við Hlemm, í sama húsnæði og Útón, útflutningsskrifstofa Íslenskrar tónlistar.