Nú þegar landinn leggst í ferðalög er ekki úr vegi að fjalla um nokkur kassavín sem hagstætt væri að taka með sér í útileguna. Hér fjöllum við um 4 lífræn vín, annars vegar ítölsk sem landinn hefur þegar tekið ástfóstri við og hins vegar ný spönsk vín sem byrjuðu nú um mánaðarmótin.
Ný lífræn kassavín á hreint ótrúlegu verði, kr. 5.990!
Eins og áður sagði þá byrjuðu ný spönsk lífræn kassavín í Vínbúðunum nú um síðustu mánaðarmót sem lofa ansi góðu, ekki síst fyrir budduna. Um er að ræða vín frá einum stærsta vínframleiðanda Spánar, Vina Albali en hann ætti að vera vel kunnugur þeim ferðalöngum sem heimsótt hafa Spán. Um er að ræða annars vegar Verdejo hvítvín og hins vegar Tempranillo rauðvín. Hvítvínið er mjög aðlaðandi og ferskt þar sem suðrænir ávextir minna mann á Spán. Rauðvínið er gert úr tempranillo þrúgunni sem er langvinsælasta þrúgan á Spáni og Íslendingar elska. Þetta er bragðmikið vín með þægilegum tannín tónum. Örlítið kryddað með keim af trönuberum og kirsuberjum. Alvöru grillvín.
Það sem kannski kemur mest á óvart eru verðin því bæði þessu vín eru á undir 6000 krónum sem hlýtur að teljast ansi gott, miðað við að þau séu lífræn. Vínin fást til að byrja með í Heiðrúnu, Kringlunni, Skútuvogi og Hafnarfirði.
Lífrænu kassavínin frá Pasqua í nýjum umbúðum
Þessu vinsælu ítölsku kassavín hafa fengist í nokkur ár og ef eitthvað er þá hafa vinsældirnar aukist undanfarin ár. Það er enda ekki nema von því vínin eru afar vel gerð og virðast falla vel að smekk Íslendinga. Nú hafa kassarnir fengið nýtt flott útlit sem undirstrikar enn frekar lífrænu hliðina á vínunum, virkilega vel heppnuð breyting. Vínið er hins vegar nákvæmlega það sama, hvítvínið gert úr Chardonnay, ljóssítrónugult með léttri fyllingu. Það er þurrt með ferskri sýru og í bragði má finna epli, peru og sítrus. Rauðvínið er blanda af Cabernet Sauvignon og Merlot og þar má finna kryddaða tóna og höfugan keim af kirsuberjum og hindberjum. Afar vel gerð lífræn vín.