Konur sem hafa komið að starfi Stígamóta senda frá sér eftirfarandi yfirlýsingu í tilefni af viðbrögðum Stígamóta við grein Helgu Baldvins Bjargar þar sem hún gagnrýnir starf Stígamóta og segir frá reynslu sinni úr starfi hjá samtökumum:
Yfirlýsing til fjölmiðla
Við funduðum nýlega og viljum senda frá okkur eftirfarandi yfirlýsingu:
Niðurstaða mats á starfsumhverfi Stígamóta olli okkur miklum vonbrigðum. Ekki var rætt við neina okkar eða gerð tilraun til þess að ná í okkur, þó var það vegna yfirlýsingar frá okkur sem Stígamót ákváðu að fara í áðurnefnt mat.
Við viljum ítreka að við trúum frásögn Helgu Baldvins Bjargar þar sem við eigum sambærilega reynslu af því að starfa á vettvangi Stígamóta. Að okkar mati hefur óheilbrigð vinnustaðarmenning verið viðvarandi innan Stígamóta til fjölmargra ára. Við getum staðfest það að Helga er ekki sú fyrsta sem hefur brotnað undan sambærilegum atlögum og hún hefur greint frá.
Við óskuðum eftir því áður að tekið yrði á málinu af fagmennsku og ábyrgð og við getum ekki séð að það hafi verið gert. Því förum við eindregið fram á að annað og viðameira mat verði gert þar sem rætt verður við brotaþola en ekki eingöngu þá sem eiga hagsmuna að gæta. Við reiknum að sjálfsögðu með því að Stígamót skilji nauðsyn og réttmæti þess að ræða við brotaþola, enda hefur slíkt verið eitt af stóru baráttumálum samtakanna í mörg ár.
Auk Helgu Baldvins Bjargar skrifa eftirfarandi undir yfirlýsinguna:
Thelma Ásdísardóttir
Guðrún Ebba Ólafsdóttir
Ingibjörg Kjartansdóttir
Guðný Hafliðadóttir
Við erum fleiri en aðrar kusu að koma ekki fram undir nafni að sinni af ýmsum ástæðum