Ég er sjaldan spurð álits þegar fótbolti er annars vegar. Sem er kannski skynsamlegt. Flestir sem ég þekki eru skynsamt fólk og vita þar með að það sem ég hef um fótbolta að segja bætir litlu við vitneskju þeirra. Yfirleitt er mér alveg sama og ég tjái mig lítið um fótbolta, bæði í spurðum og óspurðum fréttum. Undanfarið hef ég samt verið að vona að einhver spyrði mig um fótbolta, til dæmis um gengi íslenska landsliðsins, leikskipulag og frammistöðu. Enn hefur enginn spurt en ég ætla samt að svara.
Vissulega er ég enginn sérfræðingur, en ég luma nú samt á hagnýtum ráðum og ábendingum sem gætu komið að gagni á vellinum. Oft vita börn betur en fullorðnir og áhugamenn geta vitað meira en sérfræðingar – um alls konar hluti, þar á meðal fótbolta. Reyndar er ég hvorki barn né áhugamaður um fótbolta, en ég hef samt bæði spilað fótbolta og horft á fótbolta. Hið fyrrnefnda fyrir löngu síðan en það síðarnefnda lengi og reglulega.
Ég var í innanhússfótbolta sem krakki og unglingur en þegar íþróttafélagið mitt tók upp á þeim ósköpum að bjóða upp á sérstakan kvennabolta á sumrin þá hætti ég. Að vísu mætti ég galvösk á fyrstu æfinguna en féll allur ketill í eld þegar ætlast var til þess að ég æfði skallabolta. Mér fannst vont að skalla boltann og þar að auki stórefaðist ég um að slíkar kúnstir væru vel til þess fallnar að viðhalda vitsmunum mínum. Ég lét því gott heita og mætti aldrei til að horfa á stelpurnar keppa. Ekki af því að ég hefði áhyggjur af minnkandi greind þeirra í skallaeinvígjum heldur af því að ég hafði engan áhuga, hvorki á stelpunum né leiknum.
Hins vegar mætti ég oft á leiki hjá strákunum. Af því að ég hafði áhuga á þeim. (Þ.e. strákunum, ekki leikjunum). Ég hef semsagt ekki mikinn áhuga á fótbolta, en ég hef áhuga á sumu fólki sem leikur fótbolta. Einu sinni hafði ég áhuga á sætum Austrastrákum, en eftir að ég giftist einum þeirra hefur áhugi minn á fólki sem leikur fótbolta einskorðast við afkvæmin. Nánast eingöngu. Ég á mér til dæmis ekkert sérstakt lið, ekkert uppáhaldslið og enga merkta trefla eða könnur. Austri heitir núna Fjarðabyggð og það kveikir ekkert í mér. Ég þekki ekkert fólk í útlendum liðum og þar með held ég ekki með útlenskum liðum, en af því að ég hef áhuga á einni þjóð þá held ég reglulega með íslenska landsliðinu. Sem er fremur tákn um föðurlandsást en fótboltaáhuga.
Alltaf þegar ég uppgötva að það sé stórmót að bresta á þá held ég með landsliðinu, og ég fylgist það vel með að ég veit oftast hvað bæði fyrirliðarnir og markmennirnir heita, sem og jafnvel þjálfararnir. Ég þekki suma leikmenn í sjón og veit hver það er sem auglýsir hafragrautinn, ævisparnaðinn og svaladrykkinn. Og hver elskar mömmu sína minna en eitthvað sem ég man ekki alveg hvað er.
Oftast horfi ég líka á leikina, stundum margar mínútur í einu og allt upp í heilu og hálfu leikina. Mest horfi ég samt á viðtölin, ég bæði les viðtöl og hlusta á viðtöl. Og það er ekki bara af því að stundum fylgist ég illa með heldur af því að ég á svo erfitt með að skilja leikskipulagið.
Eins og ég man það – frá því ég var í skallalausa innanhússboltanum – þá vildu allir vera frammi, og allir voru frammi og vildu skjóta á markið og skora mörk. Vörn var bara viðbragð við sókn sem snerist í höndunum á manni. Það var enginn í vörn. Ekki í fullri vinnu. Við vorum í sókn, nema rétt á meðan sóknin þurfti að bregða sér í vörn. En við vorum ekki í vörn, þannig lagað. Ég man ekki eftir því.
Við þurftum að skora til að vinna. Það var alveg skýrt. Aldrei man ég eftir að ég hafi hugsað um að halda hreinu. Halda þá hverju hreinu? Núllstöðunni? Það er eins og að viðurkenna ekki að leikurinn sé byrjaður. Það er eins og að kálfarnir færu ekki út úr fjósi þegar opnað er á vorin. Þeir veldu bara að híma heimakærir í hlýjunni og láta þess ófreistað að taka nokkur rassaköst og sigra heiminn. Vissulega eru tilburðir kálfanna stundum aðhlátursefni en fyrst hefðum við áhyggjur ef þeir færu alls ekki út. Það væri lítið gaman að því. Þeir fiska sem róa.
Ég man ekki eftir að hafa heyrt talað um leikskipulag þegar ég var í boltanum en óorðaða skipulagið var að sækja og skora mörk. Og það sigrar enginn á eigin vallarhelmingi. Ekki nema þeir séu þeim mun flinkari í langskotum.
Svona mikil og langvarandi vörn býður bara hættunni heim að mínu mati. Frá mínum sjónarhóli er vörn eins og opið heimboð. Það er kannski ekki alveg opið upp á gátt en íbúarnir eru heima og ljósin eru kveikt. Og þá knýja menn auðvitað dyra, fólk kemur í gættina og freistar þess að ná alveg inn fyrir þröskuld, sársvangt og á skítugum skónum. En ef maður er ekki heima þá kemur enginn í heimsókn, dööö.
Fótbolti á að vera marksækinn, ekki markfælinn.
Út af öllu þessu þá fylgist ég með viðtölum, bæði við strákana okkar og stelpurnar okkar. Ég vil skilja þessa óttaþrungnu vörn, þessa sjálfskipuðu varnarveru. Mig langar að skilja þessi heimaskítsmát. Og stundum spyrja íþróttafréttamenn um vörnina. Og stundum svara varnarmenn Íslands einhverju um þessa sjálfskipuðu og eilífu vörn en það er lítið á því að græða, fátt sem glæðir skilning á verunni í vörninni.
„Við skildum allt eftir á vellinum“ er staðlaða svarið. Og hvað þýðir það nú eiginlega? Að skilja allt eftir? Það hljómar eins og rétt viðbragð ef yfirgefa þarf sökkvandi skip eða ef óvænt þarf að hlaupa frá hálfkláruðu verki. Og hvað? Eru það litlu börnin sem leidd voru inn á völlinn í byrjun leiks (alla leið að miðju vel að merkja) sem skilin voru eftir? Nei, varla. Nú hvað er það þá sem er skilið eftir? Búningarnir, hárböndin, eyrnalokkarnir, nefhringirnir? Og hvernig á það að hafa hjálpað?
Svo á meðan ég velti vöngum yfir öllu því sem á að hafa verið skilið eftir á vellinum þá sveigjast viðtölin yfir í spurningar um hvað hægt sé að taka með sér úr leiknum. „Hvað getiði tekið með ykkur úr leiknum“, er staðlaða spurningin. Það sem skilið var eftir?
Þetta er allt mjög dularfullt, kannski er þetta einhver sérstök mállýska eða myndmál? Mér er allavega fyrirmunað að komast nokkru nær til skilnings á leikskipulagi íslenskra landsliða með þessum viðtölum. Samt er ég ekkert búin að vera í skallaboltum.
Ég veit það ekki, en minn draumur er allavega að landsliðið sé eitthvað annað en heimavarnarlið. Ég sé fyrir mér auglýsingu um marksækið og sóknarglatt landslið þar sem myndavélin sýnir íslenskan markvörð í eigin marki (boltalausu marki) og mannlausan eigin vallarhelming, fagnaðarlæti og víkingaklapp heyrast frá æstum stuðningsmönnum og á meðan líður texti yfir skjáinn: Við höfum snúið vörn í sókn. Sókn er besta vörnin. Eitthvað þannig. Eða: „Við látum ekki okkar eftir liggja!“ (þá auðvitað í hefðbundnu merkingunni).