Aðalheiður Marta Steindórsdóttir þjóðfræðingur skrifar
Ég hef ákveðið að skrifa nokkur orð vegna Druslugöngunnar, hún er frábært framtak og vekur fólk til umhugsunar og vonandi mun hún kalla fram breytingar. Ég lít ekki á mig sem Druslu en leið stundum þannig hér áður fyrr. Ég er fórnarlamb kynferðisofbeldis sem barn og hef orðið fyrir nauðgun og verið í fleiri en einu ofbeldissambandi en í dag neita ég að vera fórnarlamb. Það tók mig langan tíma að takast á við þetta og gerði ég mjög lítið úr því sem komið hafði fyrir. Þetta var ekki neitt í mínum huga og ég var alltaf dugleg að rakka sjálfa mig niður, rífa mig niður og gera lítið úr mér. Ég hugsaði með mér að yrði bara að harka þetta af mér og koma mér í gegnum þennan dag með enga sjálfsmynd eða réttara sagt sjálfsmynd í molum.
Ég lærði mjög snemma að best væri að vera eins normal og allir hinir, ég skoðaði hvernig aðrir voru og passaði mig að vera ekki ég sjálf, því þá tæku allir eftir því hvað ég væri, ljót, ömurleg og leiðinleg og verst af öllu sæju þau ljóta leyndarmálið mitt sem enginn mátti vita þá vildi mig enginn því ég væri svo skítug, ógeðsleg og heimsk. Ég var með þessa ljótu skömm alla mína æsku eða frá því ég var um 7 ára gömul. Þá byrjaði ég að ljúga mikið og búa til minn draumaheim. Það sá í raun enginn þessa breytingu því fyrir það hafði ég gaman af því að búa til sögur og því ekki mikil breyting á að búa til sögur og lygi. Mér var ekki trúað en það var betra en að einhver frétti þetta dökka leyndarmál sem í mínum huga var mér að kenna, ég hlyti að hafa boðið uppá þetta eða kallað þetta fram.
Ég flutti á nýjan stað þegar ég var að verða 11 ára og þá hélt ég að allt yrði öðruvísi. En ég gat ekki skilið lygina eftir, krakkarnir vildi vita hver ég var og hvað ég gerði og minn raunveruleiki var ekki góður og bjó ég því til raunveruleika sem var mun betri en sá sem ég bjó við. Ég varð síðar fyrir kynferðisáreiti á þessum litla stað og fór ég hata hann og vildi komast þaðan eins hratt og mögulega var.
Ég átti eina systur og var hún heyrnarskert og var í heyrnleysingjaskólanum í Reykjavík, við vorum mjög nánar og ætlaði hún að flytja heim og vera með mér í skóla þegar ég var að fara í framhaldsskóla en hún deyr í bílslysi um vorið. Mér fannst Guð og allir gjörsamlega hata mig, þannig að fór að drekka og drakk nokkuð vel og var mjög reið þetta sumar. Það sá það enginn en þetta er fyrir tíma áfallahjálpar og ég fer að fá kvíðaköst sem ég næ að fela eins og allt annað sem mér hafði til þessa tekist að fela. Feluleikurinn var mikill, því ég vildi ekki særa foreldra mína og því síður elskulega afa minn sem var mér svo góður. Ég næ um veturinn að finna mig aftur í trúnni og lífinu í smá stund. En nokkru seinna eða um 18 ára aldur verð ég fyrir nauðgun, ég gerði mér ekki grein fyrir því að þetta væri nauðgun þrátt fyrir að ég gréti og segði nei, nei, hættu ekki, ég vil þetta ekki, því nauðgarinn sagði að svona væri alltaf fyrsta skiptið og að ég vildi þetta, fyrst að hann sagði það þá hlaut það að vera rétt. Síðar komst ég af því að þetta var hrein og bein nauðgun og ekkert annað.
Ég varð svo fegin að komast í burtu og reyna að hætta að hugsa um þetta, því ég var viss um að ég hefði einhvern veginn beðið um þetta, þetta hlýtur að hafa verið ég, ég hlýt að hafa samþykkt þetta. Nauðgarinn sagði við mig að ef ég segði frá þá mundi enginn trúa mér því ég kæmi frá svo lélegri fjölskyldu en hann væri frá fyrirmyndar fjölskyldu og honum yrði frekar trúað. Enda sagði hann hvað eftir annað að svona ætti fyrsta skiptið að vera og ég leit á mig sem vitleysing að leyfa þessu að eiga sér stað. Þarna fannst mér ég vera skítug drusla sem átti ekkert gott skilið, ég væri að biðja um að láta meiða mig og koma illa fram við mig. En ég var að fara í burtu og reyndi hvað ég gat að vera bara ein, því það væri mér fyrir bestu.
Ég fór burtu um sumarið að vinna og lét mjög lítið fyrir mér fara, bara vann og reyndi að grafa þessa reynslu niður eins vel og hægt væri. Ég fer síðar til Noregs sem au-pair og er þar í svolítinn tíma og kynnist þar manni sem ég er alveg viss um að sé góður maður eða þangað til annað kemur í ljós og þá byrjar mitt fyrsta ofbeldissamband. Það sést ekkert á mér, enda brýtur hann mig niður, hann nauðgar mér í fyrsta skipti, ég reyndi að segja honum að ég vildi þetta ekki en hann fékk sínu framgengt inn í herbergi þar sem ég var au-pair eða í því húsi á meðan fólkið var heima og skömmin var svo mikil, mig langaði til þess að deyja, mér fannst ég vera búin að skíta út heimilið þeirra með því að koma með minn skít þar inn. Sambandið verður erfiðara með tímanum og sem betur fer skil ég hann eftir í Noregi þegar ég fer heim. Og vonast eftir því að hann gleymi mér en svo er aldeilis ekki. Hann kemur að heimsækja mig og ég vildi ekki fá hann en samt kemur hann og reyni að leyna þessu fyrir öllum hvernig hann er því mér fannst eins og ég væri bara svo heimsk að velja alltaf einhverja drulluhala, þetta hlyti að vera mér að kenna.
Hann kom og ofbeldið hélt áfram og ég reyndi að leyna þessu og tókst mjög vel. Allir héldu að ég væri bara svona köld í samböndum og allir elskuðu hann og héldu að eitthvað væri að mér. Mér fannst það bara betra en nokkuð annað því þá vissi enginn í raun hversu vitlaus ég var í raun og veru. Það vissi líka enginn hvað ég var mikill aumingi og drusla að velja svona stráka.
Hann fer aftur út og ég reyni að slíta sambandinu en ekkert gekk, bara hótanir og hótanir, hvað ég væri ógeðsleg og ömurleg að vera svona vond við hann, ég fer síðan út og reyni að gera gott úr þessu en það var hörmulegt. Þegar við erum búin að vera saman í vel rúmlega ár og ég á Íslandi og hann í hernum í Noregi (sem betur fer, því annars hefði hann flutt til Íslands) þá náði ég í mig kjark til þess að slíta þessu og bréfin og símhringingarnar sem ég fékk, morðhótanir og útlistun hvernig hann mundi skjóta mig. Hann væri í hernum og mjög góð skytta og gæti skotið mig á löngu færi án þess að ég tæki eftir því. Ég fer að fá kvíða og margt annað að hrjá mig, ég þori ekki að vera ein í stórri íbúð, ég verð hrædd við að ganga ein úti á kvöldin en ég vildi ekki kynnast neinum. En þessar hótanir hætta eftir marga, marga mánuði. Ég velti því fyrir mér að fara til lögreglunnar en mér fannst ég ekki vera með neitt í höndunum og hótanir voru mest í síma, ég vissi ekki hvað ég átti að gera og sagði því engum frá af kvíða enda var þetta mitt leyndarmál, ég vildi ekki að neinn vissi af þessu. Síminn hrindi stundum lengi út og stundum tók ég upp símann en stundum ekki, því þetta gat ekki alltaf verið bara hann. Mamma átti það til að segja af hverju svarar þú ekki síma og ég fann alltaf góða ástæðu sem var svo trúleg. Enda orðin mjög góð í að finna góðar ástæður.
Þarna er ég 18 ára og ég held mér frá karlmönnum í mörg ár því hélt að ég gerði góða menn af vondum einstaklingum. Að ég kallaði fram þennan eiginleika hjá þeim, það hlyti að vera að þetta væri eitthvað sem ég gerði.
Nokkrum árum seinna er ég í Noregi og kynnist strák sem vinsæll og lítur út fyrir að vera skemmtilegur strákur, við förum aðeins að slá okkur saman. Og verð ég því aftur fyrir ofbeldi og þá um 22 ára. Ég man ekki mikið annað ég kem heim eftir langa vakt og er mjög þreytt og þá öskrar hann á mig; er það þetta sem þú vilt, ég græt og segi nei og aftur nei, ég barðist um og hljóp svo út og leit ekki til baka ég man í raun eftir mér næst í sturtu og þar var ég lengi heima hjá mér og grét og grét og þvoði mér svo vel. Ég var svo skítug, ég varð að þvo þennan skít af mér. Ég man að ég velti því fyrir mér að tala við lögregluna en þá var hann búinn að ljúga því að ég væri drusla og svæfi hjá hverjum sem væri og enginn mundi trúa svona mikilli druslu. Og ég var hrædd um að enginn mundi trúa mér og reyndi því að setja sjálf plástur á sárin.
Þarna fannst mér vera búin að fá nóg ég bara gat ekki meira. Því var auðveldara að drekka sig frá þessu og reyna að deyfa þessi gömlu sár. Það gekk illa, ég hafði verið búsett í Noregi á þessum tíma og flutti heim um ári eftir þennan atburð, ég hafði grennst alveg óheyrilega mikið og orðin kinnfiskasogin og andlaus en skildi ekki af hverju ég væri svona. Fór heim eftir að vinur minn tók eftir að allur lífsandinn var að hverfa úr mér. Mér leið orðið svo illa á sálinni. En mér datt ekki til hugar að leita mér hjálpar því hjálpin var fyrir þá sem hafði orðið fyrir ofbeldi en ég hafði væntanlega beðið um þetta. Enda var sá gaur búinn að segja við mig að enginn mundi trúa mér, ég væri einhver mella sem enginn mundi trúa, ég væri bara drusla og ég var farin að trúa því að ég væri drusla sem enginn mundi hlusta á. Því mundi það verða bara niðurlæging fyrir mig að kæra og þá mundu allir vita hvað ég væri ömurleg.
Ég fór heim til Íslands og reyndi eftir fremsta megni að láta eins lítið fyrir mér fara eins og ég gat og sat ein með mína sorg. Ég átti það til að gráta mig svefns af því hvernig ég var orðin því mér fannst ég svo ógeðsleg og ég átti ekkert gott skilið. Ég hafði oft spurt Guð, af hverju tókstu systur mína en ekki mig? Af hverju ég? Ég hataði líf mitt en ég reyndi samt að finna lífshamingjuna en illa gekk.
Eftir nokkra mánuði heima hitti ég svo aftur strák og hann var öðruvísi en allt annað og svo ólíkur öllu því sem ég hafði kynnst. Ég var í smá uppreisn gagnvart sjálfri mér og umhverfinu, í mestri uppreisn ég get verið í. Og þessi maður var líka í uppreisn gagnvart samfélaginu. Sambandið okkar var yndislegt fyrst til að byrja með. En ég tók eftir einu, hann stóð aldrei upp fyrir mér í margmenni og talaði aldrei vel um mig og þá fóru að renna á mig tvær grímur og fór að vera hrædd. Reiðin kraumaði inn í honum. Og ef við rifumst þá seldi hann mig og ég varð sár, hann gaf mig eins og ég væri bók, hann gerði lítið úr mér og hann sagði vinum sínum að þeir mættu eiga mig.
Ég barðist á móti þessu lengi og grét og grét, ég var á þessum tíma kominn á mjög myrkan stað og vildi enda mitt líf. Og eitt sinn gaf hann mig til vinar síns og ég barðist um og hann ætlaði samt að taka mig en ég náði að rífa mig lausa og hljóp til kærasta míns sem ég hélt að mundi vernda mig því mínum huga var ekki hægt að vera svona grimmur. Um morguninn sef ég á mínu græna en heyri þegar hann fer út úr íbúðinni og segir við vin sinn „hún er í rúminu“ eins og hann væri aftur að gefa grænt ljós á mig. Hann kemur upp í rúm og segi hvað eftir annað nei en hann segir, maðurinn leyfði þetta og þetta er í lagi og ég segi aftur og aftur nei. Hætti svo og hugsa með mér af hverju er ég að segja nei þeir (karlmenn) fá bara sínu framgengt sama hvað tautar og raular.
Ég fer svo heim til mín eftir þetta og nokkrum vikum seinna finn ég að það hefur orðið smá breyting á mér. Ég fer og tala við kærasta minn og segir honum frá því að ég haldi að ég sé ófrísk og ég hafi haldið fram hjá honum. Því einhvern veginn var ég búin að taka sökina á mig og það var ég sem hélt fram hjá. Þessi strákur vill ólmur að ég fari í fóstureyðingu en ég vildi það ekki. Ég er sífellt að hætta við þessa aðgerð en hann fær mig til þess að fara í hana. Ég fer hágrátandi í aðgerðina og er mér ýtt inn og þar tekur hjúkrunarfræðingur við mér og segir að bráðum fái ég kærleysispillu og ég líði mér betur. Ég brotnaði svo alvarlega saman eftir aðgerðina að það átti að leggja mig inná geðdeild. Ég náði að klóra mig út úr því þar sem ég var orðin svo dugleg í öllum feluleik. Næstu dagar og vikur voru hörmuleg, ég var búin að finna út dag og tímasetningu og hvernig ég átti að enda líf mitt það var bara búið. Ég var ekki nógu góð fyrir neinn og þá sérstaklega var ég ekki nógu góð fyrir Drottin Jesú sem ég hafði trúað á allt mitt líf. Ég var verri en skíturinn á götunni.
Mamma mín finnur að það er ekki allt með felldu og það er farið suður og ég pakka niður og fer með þeim heim. Finn mér vinnu á þeim slóðum og fer að vinna, ég kunni ekki að vinna úr svona málum og enginn vissi í raun hvað ég var búin að ganga í gegnum nema ég. En þetta var ekki mikið, miðað við allar frásögurnar sem ég var búin að lesa þá var þetta ekkert sem ég var búin að ganga í gegnum, þetta var bara lítið og ég ætti nú að geta fundið út úr þessu sjálf.
Ég lendi í bílslysi nokkrum mánuðum eftir að ég flyt heim og það var hörmulegt en líka að vissu leyti gott. Ég var af og til í fjarsambandi við kærasta minn en það var orðið mjög brotið og alltaf var ég að slíta því en svo tókum við upp þráðinn aftur. Þangað til að ég er í heimsókn hjá honum og erum við að tala saman og ég segi hvað hann sé búinn að vera að gera og hafði ég ekki séð hann í marga mánuði. Við förum að tala um hvort að hann sé með einhverri og hvort að ég sé að hitta einhvern. En hann sagðist ekki vera hitta neinn og enginn erfingi á leiðinni. Svo kemur „vinkona“ hans í heimsókn og hún er komin 6-7 mánuði á leið og það var um það leyti sem við vorum enn saman og ég brotnaði niður. Hann sagði við mig að hann væri sko ekki að verða pabbi og þetta hafi í raun ekki átt sér stað en sönnunin var beint fyrir framan mig.
Ég vissi ekki hvað ég átti að gera, það voru svo margir í gegnum tíðina búnir að vara mig við honum og aðrir, sem sáu hvernig hann kom fram, búnir að biðja mig um að fara frá honum en ég fann allar bestu afsakanir í heimi fyrir hann og varði hann með kjafti og klóm. En þessar fréttir að það væri að koma barn eftir framhjáhald urðu mér ofviða, ég varð að komast í burtu.
Ég fór og hitti einn af mínum bestu vinum og hann sýndi mér hvernig það er að vera vinur í raun og lét mig finna að ég væri þess virði að vera með og eyða tíma með. Við gerðum margt skemmtileg og á ég honum svo mikið að þakka í dag. Í hans huga var ég flott vinkona sem á allt gott skilið. Ég fór síðar norður eftir góðan dag og hef ekki litið til baka. Í gegnum hann og aðra vini kynnist ég manninum mínum sem hefur stutt mig í þessari baráttu minni og studdi mig alfarið við að leita mér hjálpar. Ég fer í Stígamót með mín „litlu“ mál sem mér fannst ekki vera neitt, þetta voru bara smámál. En ég var komin með mikinn kvíða, gat ekki staðið með sjálfri mér, fannst ég vera ljót og eiga ekkert gott skilið. Ég gat ekki valið neitt nema fá samþykki mannsins míns við því eins og kjól eða eitthvað meira. Ég gat ekki sagt nei og það var svo margt sem ég þurfti orðið að vinna með.
Stígamót hafa hjálpað mér með svo margt eins og ég á rétt á því að tala um mig og taka mér pláss og leyfa mér að njóta. Maðurinn minn hefur stutt mig og hvatt mig áfram, verið ánægður þegar ég hef sagt nei og borið virðingu fyrir því. Staðið með mér. Sama hversu lítið brotið virðist vera þá var brotið á þér og það er mikilvægt að fá aðstoð til þess að vinna úr því hefur verið gert.
Í dag er ég ekki drusla en tek með fullum krafti þátt Druslugöngunni. Ég er manneskja sem er tilbúin til þess að skammast mín ekki fyrir fortíð mína heldur vera sterk og að leyfa mér að vera viðkvæm. Ég er kona sem vinnur í sínum málum og stendur fast á sínu. Ég er tilbúin til þess að tala hátt og láta í mér heyra, ég hef ekkert lengur til þess að skammast mín fyrir og nýt þess að leyfa mér að njóta.
Ég hef aldrei haft það í mér að skrifa þetta almennilega niður.
#Höfumhátt #Druslugangan.