Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Hreindýraveiðar – siðlaus aðför að hreindýrskálfum!

$
0
0

Árni Stefán Árnason, lögfræðingur, skrifar

Skrifum þessum er m.a. ætlað, að fylgja eftir dapurlegri frétt á Stöð 2 í gærkveldi um þá hættu, sem steðjar að hreindýrskálfum og hefur verið heimiluð af umhverfisráðherra, Björt Ólafsdóttur. Í fréttinni var greint frá því að ráðherrann hefur heimilað dráp á hreindýrskúm með mjög ungt ungviði í umönnun og því velt upp af viðmælanda hvort heimild umhverfisráðherra til slíks dráps standist meginreglur laga um vernd dýra.

Á morgun, 1. ágúst hefst sá tími þegar umhverfisráðherra Bjartrar framtíðar, Björt Ólafsdóttir, heimilar fjölda manna, gegn gjaldi, að aflífa ákveðin fjölda hreindýrskúa með ungviði við aðstæður og með aðferðum, sem eru ekki yfir gagnrýni hafnar. Drápið, sem slíkt, á hins vegar, að mínu mati, undir Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, landbúnaðarráðherra, æðsta yfirvald dýravelferðar á Ísland, sé málið rannsakað út frá lögfræðilegum forsendum. – Af hverju, skýrist síðar í þessum pistli.

Hið sorglega og það, sem flestum er dulið, er að í þessari heimild felst að aflífa má hreindýr með skotvopni fyrir framan ungviði sitt, þegar það hefur einungis náð tveggja mánaða aldri, er ennþá á spena, móðurþurfi, en hreindýrskálfur fylgir móður sinni að öllu jöfnu í 12 mánuði. Það má með góðum rökum halda því fram að slíkt sé illvirki við varnarlaus dýr og með því verði þau bjargarlaus – andstætt skýrum ákvæðum laga um velferð dýra.

 

Auglýsing


Dýravernd sé í hávegum höfð – ályktun Bjartrar framtíðar

Ábyrgð á þessari heimild nú ber Björt Ólafssdóttir umhverfisráðherra Bjartrar framtíðar í ríkisstjórn. Ákvörðunina hefur ráðherrann heimild til að taka (honum er það ekki skylt) að fenginni umsögn svokallaðs hreindýraráðs skv. reglugerð um þau efni.

Ákvörðun ráðherrans, að fenginni umsögn hreindýraráðs, er mjög gagrýniverð  í ljósi þess að Björt framtíð og þar með ráðherrann, hefur ályktað með eftirfarandi hætti um íslenskt umhverfi og náttúru:

Dýravernd sé í hávegum höfð.

Ekki þarf að hafa mörg orð um hversu mikið illvirki það er  að svipta svo ungan  hreindýrskálfi móðir sinni þegar hann hefur einungis náð 60 daga aldri. Margir myndu skilgreina slíkt sem dýraníð!

 

 

Hvaða lög gilda um velferð og vernd hreindýra?

Heimild sína sækir ráðherrann í reglugerð, sem styðst við það, sem margir myndu í dag telja úreld lög efnislega, lög nr. 64/1994 – lög um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Réttarheimild, sem náð hefur 23 ára aldri og teldist barn síns tíma í nútíma réttarríki.

Spyrja má af hverju njóta hreindýr ekki verndar nýjustu laga um velferð dýra, sem eru lög um velferð dýra nr. 55/2013 hvar eftirfarandi meginreglu er að finna:

Markmið laga þessara er að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.

 

Hverjir hafa endanlegt ákvörðunarvald á stjórnsýslustigi í þessum efnum?

Sú óvenjulega staða virðist uppi í þessum máli að valdheimildir tveggja ráðherra skarist. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, landbúnaðarráðherra er æðsti framkvæmdavaldshafi vegna beitinga ákvæða í lögum um velferð dýra og í þeim lögum eru hreindýr hvergi undanskilin.

Björt Ólafsdóttir umhverfisráðherra hefur einungis heimildir til að veita veiðirétt. Um framkvæmd veiðanna hefur því Þorgerður Katrín endanlegt orð og það orð verður að vera í samræmi við settan rétt.

Það virðist því svo, sem stendur, að samráðherrar í ríkisstjórn, séu viljandi eða ómeðvitað veita heimild til dráps á dýrum, við aðstæður sem lög banna. Hvort sem er,  standa þeir frammi fyrir því að þurfa að leiða þetta mál til lykta því það hæfir engum stjórnmálamanni að láta kyrrt við sitja í þeirri stöðu, sem nú hefur verið upplýst um. Vilji landbúnaðarráðherra framkvæma lög um velferð dýra, sem er hans skylda, sem framkvæmdavaldshafa, verður ekki séð að hann geti að lögum fallist á þá heimild, sem Björt hefur veitt. Það stenst einfaldlega ekki skoðun og er í andstöðu við meginreglur laga um velferð dýra. Þá hlýtur yfirdýralæknir að láta málið sig varða, en hann er eftirlitsaðili með velferð dýra á Íslandi.

 

Auglýsing

 

Skyni gæddar lífverur

hreindyrskalfur_0210032ja mánaða ungur hreindýrskálfur er skyni gædd lífvera í skilningi laga um velferð dýra, sem án nokkurs vafa upplifir vanlíðan, mögulega hungur og þorsta, án vafa ótta og þjáningu við fráfall móður sinnar. – Allt í trássi við framangreinda 1. gr. laga um velferð dýra. Mikilvægustu meginreglu, sem Alþingi hefur ákveðið að setja í lög um dýravernd.

Mikilvægt er að hafa í huga að hreindýr eru hvergi undanskilin lögum um velferð dýra og reyndar er það svo að ítarlega er fjallað um villt dýr og veiðar á þeim í VII. kafla laganna um velferð dýra. Það vekur því furðu að heimild til veiðanna skuli sótt í lög, sem í færa má rök fyrir að séu orðin úreld, aldursins vegna. Þá virðast hin eldri lög hreinlega stangast á við hin nýju lög um velferð dýra í ljósi þess að í 4. ml.  2. gr. þeirra laga er ritað: Ákvæði laga þessara eru lágmarksreglur um meðferð dýra. 

 

 

Niðurstaða

Sem dýravinur og lögfræðingur tel ég að heimildin til að fella hreindýrskýr með svo ung afkvæmi, sem hér um getur, sé ólögmæt, stangist á við markmið samfélags sem kennir sig við góða siði í umgengni við náttúru og dýralíf, sé sótt í ranga réttarheimild og að við því þurfi að bregðast af báðum fyrrnefndum ráðherrum, Alþingi og jafnvel Umboðsmanni alþingis, sem getur gert athugasemdir við meinbugi í lögum.

Það sæmir engum ráðherra né lagasetningarvaldinu, að heimila að ráðist sé á svo ungt, varnarlaust og jafnvel hjálparþurfi ungviði í dýraríkinu með þeim hætti, sem umhverfisráðherra hefur heimilað eins og staðan er í dag. Við því þurfa stjórnvöld að bregðast!

Ráðherrunum er, hvenær sem þeim sýnist svo, heimilt að afturkalla þessa heimild og trúi ég ekki öðru en að þetta innlegg verði þeim a.m.k. umhugsunarefni í ljósi hlutverks landbúnaðarráðherra að viðhalda nútímalegri dýravernd á Íslandi og í ljósi hinnar yfirlýstu ályktunar Bjartrar framtíðar að dýravernd sé í hávegum höfð hjá þeim stjórnmálaflokki. Hvorugum ráðherra er sómi af að kenna sig við þetta dráp.

Formlegar leiðir á stjórnsýslustigi og/eða fyrir dómstólum til að hnekkja þessari ómannúðlega, ólöglegu og siðlausu aðför að ungum hreindýrskálfum eru að sjálfsögðu tækar og eru til skoðunar af hálfu þeirra, sem mótmæla þessu.

Renni fyrrnefndum ráðherrum blóðið til skyldunnar er ennþá tími til að stöðva tímabundið eða með öllu þessar fyrirætlanir í því skyni að banna drápið eða lengja griðartímann.

Mín skoðun er sú að banna eigi hreindýradráp með öllu þangað til og ef leitt verður í ljós að fækka þarf í stofninum af dýraverndarsjónarmiðum, sem geta verið ýmiskonar og réttlætanleg.

 


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283