Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Lof mér að falla að þínu eyra, biður Google – á íslensku

$
0
0

Tæknirisinn Google færir sig upp á skaftið í þróun vélbúnaðar eins og sást á vörukynningu fyrirtækisins á miðvikudag. Ásamt tveimur nýjum símum, og nýjum útgáfum af Google Home, kynnti fyrirtækið þráðlaus heyrnartól, eða eyrnahnappa: Google Pixel Buds. Ein og sér sæta þau litlum tíðindum, en hugbúnaðurinn sem fylgir hnöppunum, þegar þeir tengjast síma frá Google, er nýr af nálinni: með stuðningi þeirrar þýðingavélar sem fyrirtækið hefur þróað á síðustu árum, geta hnapparnir þýtt talað mál jafnóðum á milli 40 tungumála, setningu fyrir setningu. Tæknin var kynnt sem vélrænt ígildi þess að hafa túlk við höndina – eða öllu heldur í eyrunum – viðstöðulaust og launalaust. Og eitt af tungumálunum fjörutíu sem tækið getur þýtt bæði af og á er íslenska.

Þýðingavélin er hluti af kerfinu Google Assistant, sem knýr líka heimilistækjalínuna Google Home: skjálausa en raddbúna, nettengda stauta og hnullunga sem spyrja má spurninga í mæltu máli — og svara í mæltu máli, eftir fremstu getu leitarvélarinnar. Að baki þeim nýjungum öllum býr yfirlýst áhersla Google á þróun gervigreindar.

Ítarlegar umsagnir um búnaðinn birtast ekki strax – en fyrstu viðbrögð tækniheimsins eru jákvæð. Ýmsir miðlar segja að stóru tíðindin í gær hafi ekki falist í neinum tækjanna, út af fyrir sig, heldur í þýðingargetunni. Ef búnaðurinn stendur undir væntingum fer hann nálægt því að uppfylla draum úr vísindaskáldskap sem aðdáendur Hitchhiker’s Guide to the Galaxy-bókanna þekkja sem Babel-fiskinn: lítinn fisk sem af náttúrunnar hendi var þeim undrum gæddur að væri honum stungið í eyra manns túlkaði hann af hvaða tungumáli sem er á það tungumál sem fiskhafinn skildi.

Framkvæmdastjóri vöruþróunar Google Assistant er Íslendingurinn Guðmundur Hafsteinsson. Þá spurðist til þess, árið 2015, að Oddur Kjartansson og Úlfar Erlingsson, einnig starfsmenn hjá Google, ynnu að þróun íslenskrar raddar fyrir kerfið. Í samtali við RÚV sagði Oddur þá að röddin sem þeir ynnu að yrði „líklegast svona frekar björt sjálfsörugg, hjálpsöm rödd.“ Sennilegt má telja að allir þrír hafi þeir átt hönd í bagga við að koma íslensku að í hópi fyrstu fjörutíu tungumálanna sem Google Pixel Buds – en svo heita heyrnartólin – geta þýtt af og hvíslað í eyru notenda. Ekki náðist í þremenningana við vinnslu þessarar fréttar.

Á síðustu árum hafa áhyggjur farið vaxandi af framtíðarhorfum íslenskrar tungu í enskumælandi tækniumhverfi. Vörukynningin á miðvikudag gefur til kynna, hið minnsta, að ekki sé sjálfgefið að tungumálið deyi drottni sínum þrátt fyrir yfirgang örflögunnar.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283