Í heimi draumsins sem ég kýs að kalla „Draumalandið“ er allt „raunveruleiki“ í þeim skilningi að allt sem okkur dreymi sé í rauninni til í þeirri vídd sem draumurinn er. Að upplifanir draumsins séu líkt og senur í kvikmynd sem maður leikur í en er ekki beinn þátttakandi, heldur frekar eins og áhorfandi á eigið líf og innra sjálf. Raunveruleiki draumsins er samt þarna rétt handan við hornið og skýrasta mynd þess raunveruleika er þegar við fáum martraðir í svefni.
Þegar ill öfl nýta sér varnarleysi svefnsins og ráðast að okkur með aðeins eitt í huga, að skapa glundroða, brjóta niður allar varnir og ná tökum á sjálfi okkar, dulvitund (sálinni) og geði, þá er illt í efni.
Hver kannast ekki við að hafa hrokkið upp með andfælum, kófsveittur og „fundið“ eitthvað þungt hvíla á brjósti sér, einhverja óværu sem eins og stekkur út í myrkrið þegar meðvitundin vaknar.
Titrandi af vanlíðan af þessari þrúgandi kvöl sem var um það bil að ná tökum á manni er maður sem lamaður í svefnrofanum og maður berst við myrkrið og svefninn í langan tíma á eftir af ótta við Möruna.
Þessi ófögnuður eða kvöl sem nefnd er; „Mara“, hefur lifað í sögum og sögnum allt frá tímum víkinga, því á tíundu öld er minnst á hana í enskum sögum sem Mare (nightmare) og hingað kemur hún með norskum víkingum um líkt leiti, þar er hún kvengerð og kölluð Mara (eitthvað þungt og þrúgandi) og Maran hefur hrellt okkur æ síðan.
Draumar lesenda
Lesandi góður, það er gaman að pæla í draumum og draumur þinn er þar engin undantekning. Að skoða táknin og sjá möguleikana sem í draumum felast getur hjálpað manni að nálgast sjálfan sig og spurninguna; Hver er ég? Hvaðan kom ég og hvert er ferð minni heitið. Í draumi „Lísu“ kemur fram leiðbeinandi afl til að koma í veg fyrir fall um þröskulda sjálfsins.
Draumur „Lísu“
„Ég var stödd á spítala að ég held, þar sem fæðing var um það bil að hefjast. Konan fannst mér vera kona sem ég hef passað börn fyrir. Ég þurfti að taka á móti börnunum þrátt fyrir að annað fólk væri til staðar (læknar o.fl.) en það var eins og þau hyrfu í bakgrunninn þegar ég kom. Ég tók ekkert eftir þeim þar sem ég varð niðursokkin víð að taka á móti börnunum, þau voru 5! Þegar þau voru öll fædd sá ég að ég hafði lagt þau öll hlið við hlið og að þau voru öll dáin. Þau höfðu fæðst dáin en ég tók bara ekki eftir því fyrr en fæðingin var afstaðin. Skyndilega er ég svo stödd úti í skógi, fyrir ofan hjólastíg og ég lít niður á stíginn og sé 5 nýfædd Iömb liggja þar hlið við hlið, öll dáin. Ég held áfram meðfram stígnum og aðeins norðar liggja 5 rollur á stígnum, alveg eins og lömbin, dánar með fylgjurnar út úr sér.“
Ráðning
Konan sem þú hefur passað fyrir í vöku er ímynd og ósjálfráður ráðgjafi þinn um hugmyndir og drauma (börnin fimm) sem þú vilt hrinda í framkvæmd. Þessar hugmyndir eru óraunhæfar og henta ekki þínu karma (skapferli, viljastigi og sjálfsvitund) því falla þær um sjálfar sig (börnin voru dáin) hver af annarri þótt þú leggir þig alla fram og þrýstir þeim í framkvæmd af eigin rammleik. Lömbin og rollurnar spegla einlægni þína og sakleysislega vissu um ágæti gerða þinna. Þessi einstrengingsháttur kostar blóð, svita og tár sem þú getur sneitt hjá með íhugun og athygli á orð annarra.
Draumaráðningar
Ef þú vilt fá draum þinn ráðinn er þér frjálst að senda inn drauminn með fullu nafni, fæðingardegi og ári ásamt netfangi og dulnafni á: draumar@kvennabladid.is