Í dag, fimmtudag, birtust frásagnir kvenna af erlendum uppruna af kynferðisofbeldi, áreitni og annarri misbeitingu sem þær hafa orðið fyrir, í tengslum við vinnustaði og heimili á Íslandi. Sögurnar sem birtast eru hátt í hundrað talsins.
Í yfirlýsingu sem fylgir frásögnunum segir meðal annars: „Gáfaðar, menntaðar, sterkar og fallegar konur flytja hingað til lands ala með sér sömu drauma og vonir og íslenskar konur um bjarta framtíð og velgengni. Þegar þessar konur sjá drauma og vonir verða að engu vegna kerfisbundinna fordóma, vanrækslu og mismununar, er þeim þröngvað í hlutverk fórnarlambs sem oftar en ekki er upp á kvalara sinn komið.“
Yfirmenn hóta starfsfólki eftir ofbeldisverknað
Ein kona segist hafa komið til Íslands til háskólanáms og starfað á veitingastað með vínveitingaleyfi til að eiga fyrir kostnaði við nám sitt. Hún segist vera fyrsta konan úr sinni fjölskyldu sem fer í háskóla, og Ísland hafi orðið fyrir valinu vegna þess orðspors sem fer af landinu, að þar njóti konur mikils jafnréttis og þar ríki friður. Barvinnan hafi reynst óþolandi, þar hafi karlmenn látið ummæli falla um hana og gripið í hana „eins og hund eða eitthvað“. Hún hafi þó látið sig hafa það, teknanna vegna, þar til eina nótt, sem hún lýsir sem verstu stund lífs síns. Þá hafi hún vaknað klæðlaus og án þess að vita hvar hún væri niðurkomin. Hún hafi panikkað.
Þá birtist karlmaður sem konan þekkti ekki og sagði henni að vera ekki „hysterísk“, yfirmaður hennar sé á leiðinni. Skömmu síðar hafi yfirmanninn borið að, og fært hana úr húsinu, grátandi. Hann hafi ekið um með konuna, sagt henni að slaka á, hann muni greiða henni aukagreiðslu fyrst þetta hafi gerst – en hóti um leið að hafi hún orð á atvikinu við nokkurn mann muni hann binda endi á skólagöngu hennar með því að láta yfirvöld vita að hún hafi þegið launagreiðslur svart. Greiðslufyrirkomulagið var að sögn konunnar að frumkvæði vinnuveitandans.
Sagan er aðeins ein af ótal, sem eiga það sameiginlegt að karlmenn, flestir af íslenskum uppruna, færa sér í nyt viðkvæma stöðu aðfluttra kvenna, á vinnumarkaði, félagslega, tekjulega og að öðru leyti.
Yfirmenn þagga niður í starfsfólki
Í frásögnunum má endurtekið lesa um þá reynslu kvenna sem leita til yfirmanns vegna áreitni eða ofbeldis á vinnustað, að vera neitað um áheyrn eða viðbragð. „Ætlar þú að vera með stæla hér, þú ert bara búin að vinna hér í þrjá mánuði,“ segist ein kvennanna hafa fengið að heyra þegar hún kvartaði undan millistjórnanda sem hefði ekki bara verið með sorakjaft heldur og „hendur sem vildu gera meira en snerta og klípa“.
Skömmu síðar hafi sá sem hún kvartaði undan tekið hana á eintal, hótað henni nauðgun og sagt að hún yrði rekin ef hún kvartaði aftur. Konan hafi í kjölfarið sagt upp – og fengið tvöföld laun greidd við næstu útborgun, sem af frásögninni má skilja sem eins konar tilraun til sjálftekinnar eða einhliða sáttar í málinu.
Dvalarleyfi til Au-pair vistráðningar glufa fyrir þrældóm
Ein kona segist hafa rekið sig á að til sveita tíðkist að ráða konur frá löndum þar sem er mikið atvinnuleysi, t.d. Austur-Evrópu, án eiginlegs ráðningarsamnings, sem Au-pair. Um Au-pair vinnukrafta gilda sérstakar heimildir í núgildandi útlendingalögum, um „dvalarleyfi vegna vistráðningar“. Slík leyfi eru aðeins gefin út til starfskrafta á aldrinu 18 til 25 ára, þau eru bundin fjölskyldunni sem ræður manneskjuna til starfa, og gilda í mesta lagi til eins árs í senn.
„Vistráðin manneskja“, eða Au-pair, hefur „ekki heimild til atvinnuþátttöku utan heimilis vistfjölskyldu“ samkvæmt lögunum, „hvorki til að sinna launuðum né ólaunuðum störfum“. Tilskilinn vinnutími vistráðinna má vera allt að 30 klukkustundir á viku. En samkvæmt frásögn konunnar eru konur í þessari stöðu oft á tíðum „látnar vinna alla daga vikunnar, við að þrífa gistihús eða hjálpa til við mjaltir.“ Þar sem þær eru annars vegar háðar atvinnurekanda um fæði og húsnæði, hins vegar oft einangraðar, bæði vegna staðsetningar, tungumáls og annars, geti verið mjög erfitt fyrir þær að leita sér hjálpar.
Konan segir að Vinnumálastofnun viti af vandamálinu en virðist ekki geta komið í veg fyrir það. Hún segist hafa heyrt fjölda óásættanlegra frásagna stúlkna sem starfi til sveita. Þegar stúlkunum sé bent á að staða þeirra sé óviðunandi svari þær því einatt til að þær viti það en þori ekki að hafa orð á því.
Fordómar innan lögreglu, viðbragðsleysi Barnaverndar: yfirvöld hafi brugðist
Í frásögnunum má greina alvarlega gagnrýni á yfirvöld og viðbrögð eða viðbgragðsleysi stofnana. Kona sem segist hafa verið í ofbeldissambandi til margra ára segir að þegar hún hafi leitað til Barnaverndar og sagst þurfa hjálp fyrir sig og börn sín, því maðurinn beiti hana ofbeldi, hafi þau spurt hvers vegna hún hafi þá ekki leitað til læknis eða greint frá ofbeldinu fyrr. Síðan þá hafi hún ekki heyrt frá fulltrúum stofnunarinnar. Eitt sinn lögreglan hafi verið kölluð til hafi lögreglumaður sagt við starfskonu Barnaverndar, um heimilisfólk, að þau búi „eins og villidýr“. Konan segist enn vera hjálparþurfi en ekki sjá ástæður til að treysta þessum stofnunum.
Sem fyrr segir eru sögurnar sem nú birtast alls 97 talsins. Þær voru teknar saman á Facebook-hóp yfir 600 kvenna. Frásagnirnar í heild, ásamt sameiginlegri yfirlýsingu kvennanna, má lesa á vef Kjarnans.
Kjarninn hefur einnig haldið til haga fyrri yfirlýsingum og frásögnum af kynferðislegu ofbeldi og áreitni í garð kvenna í ólíkum fagstéttum.
Jafningjaráðgjöf Samtaka kvenna af erlendum uppruna
Samtök kvenna af erlendum uppruna á Íslandi býður jafningjaráðgjöf, ókeypis þjónustu þar sem þjálfaðir ráðgjafar samtakanna bjóða konur af erlendum uppruna velkomnar, „hlusta á vandamál þeirra og hjálpa þeim að finna bestu lausnirnar í trúnaði“. Ráðgjafarnir eru konur sem tala m.a. „íslensku, ensku, pólsku, þýsku, rússnesku, tælensku og spænsku“.
Jafningjaráðgjöfin er opin annan hvern þriðjudag kl. 20–22 á skrifstofu Samtaka kvenna af erlendum uppruna, Túngötu 14, 2. hæð. Frekari upplýsingar má finna á vefsíðu samtakanna.
Women of Multiethnic Network (W.O.M.E.N.) in Iceland’s Peer Counseling
The organization Women of Multiethnic Network (W.O.M.E.N.) in Iceland offers free peer counseling, where women who have received training in peer counselling welcome all women, listen to their problems and assist them in finding the best solution. According to the organization’s website, the peer counselors are women of foreign origin, who speak Icelandic, English, Polish, German, Russian, Spanish, and Thai among other languages.
Peer Counseling sessions are held every other Tuesday from 20:00 until 22:00 at the organization’s office on Tungata 14, 1st floor. See their website for further information.