Framsóknarmenn í Reykjanesbæ opnuðu kosningaskrifstofu sína, Hafnargötu 62, 2.maí sl. Frambjóðendur, stuðningsfólk, ásamt þingmönnum Framsóknar og forsætisráðherra Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, fylltu húsið og skemmtu sér saman frameftir kvöldi. Á meðfylgjandi mynd má sjá forsætisráðherra fyrir miðju bregða á leik með samstarfsfólki sínu.
Oddviti framboðsins og bæjarfulltrúi Framsóknar, Kristinn Þór Jakobsson hélt stutta tölu um stöðu bæjarmála og þá áherslur sem Framsókn ætlar að leggja á, í framtíðinni. Kristinn Þór hefur verið eini bæjarfulltrúi Framsóknar sl. fjögur ár en stefna framboðsins er að fjölga fulltrúum og ná inn fólki í allar nefndir bæjarins svo Framsókn geti haft áhrif á bæjarmálin.
Þrátt fyrir að Framsókn hafi aðeins haft einn fulltrúa sl. fjögur ár þá hefur Framsókn náð nokkrum stefnumálum í gegn, m.a. stofnun Ungmennaráðs Reykjanesbæjar, siðareglur bæjarfulltrúa voru samþykktar og Kristinn Þór barðist einnig fyrir að tvíburaforeldrar fengju jafnar niðurgreiðslur og aðrir foreldrar þegar börnin eru í dagvist hjá dagforeldrum. Þá gildi sami systkinaafsláttur og á leikskólum.
Silja Dögg Gunnarsdóttir, varabæjarfulltrúi Framsóknar og núverandi alþingismaður, fór yfir hið pólitíska landslag á landsvísu og í bæjarmálum og sagði m.a. að nú væri græna vorið að renna upp.
Kosningaskrifstofan verður opin alla virka daga frá kl. 14:00-22:00 og um helgar milli kl. 11:00-16:00. Á fimmtudögum kl. 18:00 verður boðið upp á súpu þar sem bæjarbúar geta litið við og spjallað við frambjóðendur