Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Matar- og megrunarfíkn

$
0
0

Jóna Kristín Sigurðardóttir skrifar.

Flest erum við haldin einhvers konar fíkn og margir ná að stjórna henni vel.

Ég er haldin matarfíkn og gengur hreint ekki vel að halda mig á beinu brautinni. Ég er þó á betri leið en oft áður og langt síðan mér hefur liðið svona vel, og það án allra megrunarkúra og eilífrar baráttu, boð og bönn um hvað má borða og hvað ekki.

Sem barn var ég ekkert öðruvísi en aðrir; heilbrigð, lífsglöð og í eðlilegri þyngd. Vandamálin mín hófust hins vegar í kringum 15 ára aldurinn og fékk ég þá ranghugmynd af sjálfri mér að ég væri alltof feit og þung, þó svo ég væri 52 kg og 1,71 m á hæð. Með mikilli hreyfingu og útivist leið mér þó betur og fannst ég líta betur út.

Ég varð ung mamma, eða 18 ára gömul, og gekk það allt vel. Síðan eignast ég aftur barn 21 árs og sama með það, það gekk allt vel og ég var mjög hamingjusöm. En í kringum 24-25 ára aldurinn þá helltist þetta yfir mig aftur og ég var afar vansæl með eigin útlit og þyngd en þá var ég 63 kíló. Og þarna fer allt mitt líf í klessu.

Ég byrja að nota megrunarlyf sem ég keypti í gegnum íslenskan pöntunarlista. Þessi megrunarlyf samanstóðu af hylkjum fullum af dufti sem átti að taka inn 2×3 á dag og drekka bara vatn með og ekkert annað. Og gera þetta annan hvern dag í 30 daga. Mér fannst ekkert vera að gerast eftir 15 daga og tók til minna ráða og í stað þess að taka þessi megrunarhylki annan hvern dag þá gerði ég það á hverjum degi í um viku. En upp úr þessu varð mér svo flökurt og bara veik þegar ég reyndi að borða venjulegan mat að það endaði með því að ég fór að stinga fingrinum ofan í kok til að losa mig við matinn og ógleðina.

Upp frá þessu hrundi tilveran gjörsamlega andlega og líkamlega og ég gat ekki borðað nema einstaka mat án þess að þurfa að losa mig við hann. Vissulega grenntist ég og fór niður í 54 kíló fyrir rest, en nú var ég orðin ein taugahrúga. Í hvert sinn sem ég fór að sofa á kvöldin þá var sú hugsun orðin ríkjandi hjá mér að ég myndi ekki vakna aftur morguninn eftir, og það var skelfileg tilhugsun því ég var ein heima með drengina mína báða þar sem pabbi þeirra var sjómaður á þeim tíma og mikið í burtu.

Þetta ástand varði í um fimm ár en þá leitaði ég mér hjálpar hjá lækni. Hann talaði við mig og skrifaði upp á róandi lyf fyrir mig til að slá á þann kvíða og ofsahræðslu sem ég var haldin. Það virkaði mjög vel og smám saman gat ég farið að halda matnum meira niðri. Í langan tíma á eftir voru vissar tegundir af mat sem ég gat ekki borðað og maginn hafnaði algjörlega.

Eftir tæpt ár á lyfjunum losnaði ég af þeim, leið mun betur og þá stóð þyngdin í 60 kg. En ekki liðu nema örfá ár þar til allar áhyggjurnar af þyngd og útliti komu aftur og þá byrjaði ég enn og aftur að taka inn megrunarlyf, sem núna var duft blandað út í vatn, brennslutöflur og hvað þetta heitir allt saman. Það sem breyttist hins vegar þá var að á milli þess sem ég tók mína megrunarkúra datt ég í það að borða of mikið, sóttist í sætindi og þyngdist hratt.

Ég hef á síðustu 12-14 árum prófað fjölmarga megrunarkúra; duft, töflur, brennslutöflur, og hvað það nú allt heitir. Ég meira að segja hætti að borða nammi í heilt ár en féll stórt á því bindindi. Mér gekk þó betur með að ná tökum á gosdrykkjunni, þar sem ég hætti að drekka gosdrykki fyrir tæpum 10 árum og þrátt fyrir að hafa prófað að drekka jólaöl um jólin 2011 þá fann ég enga þörf fyrir að byrja aftur að drekka gosdrykki, saknaði þeirra ekkert, en ég geri þó stundum glæra gosdrykki, ef ekkert annað er í boði.

Á milli þessara megrunarkúra hef ég, eins og áður segir, dottið niður í það að borða of mikið, sér í lagi af ruslfæði. Ég gat vissulega haft stjórn á löngun minni ef ég var gestur einhvers staðar eða að borða á veitingastað. En svo var allt önnur saga þegar heim var komið; þar var farið beint í að leita uppi kex, brauð eða sætindi. Verstir eru tímarnir þegar ég er ein heima; ég kaupi slatta af nammi og klára á nokkrum mínútum. Hugsa síðan með mér að ég geri þetta bara núna og hætti þessu svo, en gallinn er hins vegar sá að þetta getur orðið að daglegri rútínu.

Ég gekk í gegnum afar erfitt ár 2009, bæði á sál og líkama. Foreldrar mínir dóu með stuttu millibili á fyrri hluta ársins (mamma dó í janúar og pabbi í apríl), en ég var yngsta dóttir þeirra í stórum systkinahópi og var alla tíð mjög hænd að þeim. Nokkrum vikum eftir að pabbi dó veiktist eldri sonur minn lífshættulega, en þá var hann búsettur á Akureyri, og brunuðum við til hans norður og vorum vakin og sofin yfir honum á Fjórðungssjúkrahúsinu í þrjár vikur, en hann náði sér þó að verulegu leyti. Um haustið var ég að keyra þegar ég lenti út á vegöxl, missti stjórn á bílnum mínum, valt og flaug út af veginum og endaði á bíltoppnum ofan í tjörn.

Eftir bílslysið var ég algjörlega komin í andlegt gjaldþrot. Við tók sólarhringsát, því að það fyrsta sem ég geri þegar ég glími við vanlíðan er að leita í sætindin. Ég reyndi þó að vera dugleg að hreyfa mig, enda var slíkt besta meðalið sem í boði var. Hins vegar fundu íbúar ýmislegt að þessari hreyfingaráráttu minni að vera sífellt að labba á jafnsléttu, fjöllum eða í þreksalnum, og tók ég það mjög inn á sálartetrið og lokaði mig af.

Í fyrsta skipti á ævinni var þyngdin að nálgast ískyggilega þriggja stafa tölu og ég var gjörsamlega yfirbrunnin á sál og líkama. Ákvað ég á endanum að leita mér hjálpar að nýju, talaði við yndislega hjúkrunarkonu sem við höfðum þá og ég hafði mjög gott af þeirri samtalsmeðferð.

Haustið 2013 sá ég auglýst í svæðisblaðinu að spámiðill væri væntanlegur austur á næstu dögum. Ég hef alla tíð verið opin fyrir því að fara til miðils en aldrei prófað, því sló ég til og pantaði mér tíma. Spámiðillinn þekkti mig ekki og vissi ekkert um bakgrunn minn fyrir fundinn, en hins vegar las hún mig sem opna bók og afhjúpaði mitt átmynstur. Það rofaði til í höfðinu á mér og fannst mér þá kvikna von innra með mér á ný. Á miðilsfundinum komu fram ýmsir aðilar sem fallnir voru frá, meðal annars foreldrar mínir og bróðir minn. Þeirra skilaboð til mín voru skýr; ég yrði að hugsa betur um sál mína og líkama, finna minn farveg í lífinu og hætta að hafa áhyggjur af öðrum, og hætta að gera þeim til geðs. Það sem mér fannst skrítnast við miðilsfundinn var að heyra ókunnuga manneskju segja nákvæmlega allt sem maður var sjálfur að hugsa, en mér fannst ég frelsast og sjá ljósið á þessum miðilsfundi.

Ég byrjaði strax að breyta um takt. Í stað þess að setja mér bann um að borða hitt eða þetta og fara á megrunarkúra, þá fór ég frekar út í að hreyfa mig sex daga vikunnar, hvort sem var í þreksal eða utandyra, drekka nóg af vatni (1,5 – 2 lítra á dag), borða nóg af ávöxtum (minnst 2-3 á dag), minnka matarskammtana en borða þó. Og ég leyfi mér alveg að borða mat eða kökur þegar ég kem í veislur – en alltaf í hófi – og nú er ég ekki lengur að glíma við svengd þegar heim er komið og fer því ekki beint í það að borða úr skápunum heima.

Ég er byrjuð að léttast á nýjan leik. Mér líður mjög vel á sálinni og er sátt við sjálfa mig. Ég er þó mjög brothætt og fann ég það nú í mars 2014 þegar að tilkynnt var að vinnuveitandi minn væri að draga saman starfsemi sína á staðnum þar sem hluti starfsfólksins þarf að finna sér annan starfsvettvang og allt virðist í upplausn í þorpinu. Einnig hjálpa heldur ekki ótímabær dauðsföll sem gengið hafa yfir í kringum mig.

Á þessum umbrotatímum er mjög auðvelt að detta í sama farið aftur og fara að borða til að róa sig og minnka kvíðann, en nú hef ég staðið í báðar lappirnar við að falla ekki aftur því ég þarf að varast það mynstur fyrir lífstíð, því sú nýja braut sem ég hef valið mér í lífi mínu er ekki einhver skammtímalausn, heldur er ég núna meðvituð um fíkn mína – eitt sinn fíkill, alltaf fíkill – en besta leiðin til að halda fíkninni óvirkri er með réttri hreyfingu og hollu mataræði.

Nýlega sótti ég fyrirlestur hjá tveimur þjóðþekktum einstaklingum sem hafa átt í vanda með áfengisfíkn og mér fannst alveg merkilegt hversu margt sameiginlegt er með áfengisfíkn og matarfíkn, en hvort tveggja getur mótast út frá því að ætla að sporna við sársauka eða hræðslu. Við viljum þó halda því leyndu fyrir þeim sem í kringum eru og á endanum verður til vítahringur sem erfitt er að yfirvinna. Til þess að yfirvinna þessar fíknir þarf þó einstaklingurinn sjálfur að vera reiðubúinn og að vilja hjálpa sjálfum sér og jafnvel þiggja hjálp frá öðrum til þess. Ef til væri meðferðarstöð fyrir matarfíkla sem sambærileg er því hvernig Vogur er fyrir áfengisfíkla, þá er ekki nokkur spurning að ég vildi fara þangað.

Ég mun ávallt þurfa að vera á varðbergi gagnvart sjálfri mér svo ég missi ekki tökin á ný. Og þótt enn sé mikil uppbyggingarvinna fram undan hjá mér er ég byrjuð að léttast með eðlilegum hætti án aukamegrunarefna eða annarra töfralausna og er yfir höfuð mun rólegri og líður betur andlega í dag.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283