Við viljum vara við ljósmyndum þeim sem fylgja með pistlinum en þær eru ekki fyrir viðkvæma.
Hvers konar fólk erum við eiginlega?
Af hverju hefur enginn hafið umræðuna um það hvernig við ætlum að leggja eitthvað af mörkum til mannúðarmála vegna eins ógeðslegasta stríðs og borgarastyrjaldar sem nú stendur yfir í Sýrlandi?
Sýrland er ekki á annarri plánetu, það er á jörðinni sem við búum á.
Eða búum við ekki í þessum heimi, erum við Íslendingar í sér heimi, hliðarheimi sem lætur sig engu varða það sem gerist í hinum heimunum í kring um okkur?
Hvers vegna eru þeir sem hampa þjóðkirkju og Jesú, til dæmis biskupinn og hans starfsmenn, ekki kófsveittir við að þrýsta á stjórnvöld og aðra í þessu landi að gera það eina sem er mannsæmandi að gera, að opna landið fyrir hæfilegum fjölda af fólki frá Sýrlandi? Það heyrist ekki múkk.
Árni Páll! Varst þú ekki að játa ást þína á þjóðkirkju um daginn, varla viltu að hún standi eins og þvara yfir svona málum eða hvað varstu að meina eiginlega?
Í þessu máli og svona málum er grunnurinn að boðskap þessa blessaða Jesú og klíku hans lagður. Nefnilega kærleikurinn.
Ef það vantar sjálfboðaliða til að annast og hugsa um og hjálpa börnum og þeirra aðstandendum, eða ef börnin eru munaðarlaus þá býð ég mig fram.
Ég myndi gera það sem ég gæti og ég þekki reyndar helling af fólki sem myndi gera það líka. Ég get ekki meira af þessari værð yfir drápum og pyndingum á börnum. Hver erum við eiginlega?
Ég tek hreinlega út fyrir þetta sinnuleysi þjóðar minnar.
Ég skammast mín fyrir mig og þetta land sem engu sinnir nema eigin búksorgum sem ganga að mestu út á væl yfir arðráni ráðamanna sem við svo kjósum yfir okkur aftur og aftur, nöldri yfir veðrinu og látum svo taka okkur í óæðri endann með eiginlega flest sem okkur á að vera kært.
Ætli það sé þess vegna sem okkur er svona skítsama um aðra? Það væri reyndar klassískt og algjört skólabókadæmi.
Við virðumst gersamlega getulaus á flestum sviðum mannúðar og það að skýla okkur á bak við æsku okkar sem þjóð eru slappheit sem hljóma eins og falskt gaul frá smáþjóð sem belgir sig og byrstir á heimsvísu eins og þröstur með oflátungssýki.
Það er nefnilega erlendum áhrifum að þakka að við erum ekki að slafra hér í okkur saltað og súrt daginn út og inn.
Hingað á eyjuna hafa borist veikburða fréttir, af því að í Sýrlandi eru börn pyntuð. Þar hafa fundist fjöldagrafir með ungum börnum. Ég man ekki áætlunartöluna um hvað mörg börn eru fallin í valinn vegna ógeðslegra morða og pyndinga en ég man að sú tala er svo sláandi að hjartað í mér næstum stoppaði þegar ég las hana af blaði.
Og við sitjum hér og röflum. Ég get ekki meir.
Ég tók hér orð Illuga Jökulssonar af feisbúkk og límdi þau við hér að neðan, því það eru meðal annars þau sem fylltu mig andagift í dag.
Ég vona að það sé í lagi, ég gerði það vegna þess að hann fer skýrum orðum um hvað hér er í gangi.
,,Ef Íslendingar hefðu sýnt flóttafólki frá hinum hroðalegu átökum í Sýrlandi sömu höfðingslund og Svíar, þá ættum við að vera búin að bjóða hingað 900 flóttamönnum, körlum og konum og börnum. En það höfum við ekki gert, við erum of önnum kafin við að hrekja aftur á flótta alla þá flóttamenn sem hingað hafa rekist í von um betra líf.“
Illugi Jökulsson.
Takk fyrir þessi orð Illugi Jökulsson, takk fyrir að minna á.
Ég heimta 900 Sýrlendinga hingað núna! Börn, konur og karlmenn. Það er ekkert sverð, enginn skjöldur og enginn sómi í öðru ef einhver skilur þá hér hvað það þýðir.
Að lokum vil ég taka það fram að það þarf einhver, kennari eða lærður, hugsandi eða sá sem veit betur, nú eða við öll sem getum, að uppræta þá sjúklegu ranghugmynd, að það að taka á móti fólki frá öðrum löndum í þessum heimi, fylli á einhvern hátt sæti fátækra og eða þeirra sem minna mega sín hér.
Það er ekki þannig, það er lygi og smásálarslúður sem hefur greypt um sig í höfði mörbúans hér eins og æxli í hjarta.
Eina ástæðan fyrir því að hér hefur búið um sig fátækt og fár sem fylgir þeirri ömurlegu vá er vegna arðráns og lyga þeirra sem við kjósum yfir okkur í nafni lýðræðis og okkar vegna sem tökum því þegjandi þreytt og slöpp eða löt.
Að því leyti má segja að þjóðin sé ung því þrælslundin er þrálát. Okkar andlega fátækt hefur ekkert með að gera hvort við erum þess umkomin að taka á móti börnum sem sæta pyndingum og morðum í heimi sem við búum öll í.
Frekari lesning
25 börn á Sýrlandi létust af völdum sprengju í barnaskóla s.l. miðvikudag
Börn á Sýrlandi munu ekki hljóta tilhlýðilega menntun um ókomna framtíð
400.000 börn frá Sýrlandi eru flóttamenn í Líbanon
Allar ljósmyndir eru eign Freedom House á Flickr