Þessi pistill er hugleiðing um uppeldi. Hún er þannig séð til einskis því það eina sem ég el upp núna er mig sjálfa og tvo ketti og má raunar deila um hvort kettirnir séu með mig í atferlis-uppeldi eða ég þá.
En ég fór svolítið að hugsa um uppeldi þegar datt upp úr fullorðnum yngri syni mínum um daginn að hann hefði trúað því í mörg ár að sardínur væru veiddar í klósettunum á Akureyri, af því ég hefði sagt honum það, og þess vegna ekki borðað sardínur í mörg ár. Ég man ekkert eftir að hafa logið þessu að syninum barnungum. Hins vegar man ég ágætlega eftir því að móðurbróðir minn laug því að mér þegar ég var lítil að sardínur væru veiddar í klósettunum á Akureyri og ég borðaði ekki sardínur í mörg ár …
Svona hefur maður klikkað á uppeldinu, hugsaði ég. Og rifjaði líka upp dæmið um föður sonanna, sem afhenti fóstrunum á leikskólanum eitt sinn heimilisruslið í plastpoka ásamt eldri syninum – hafði óvart hent fötunum barnsins í ruslatunnuna. Eða þegar staffið á leikskóla þess yngri hengdi upp óskilamuni á snúrur þvers og kruss um allan leikskólann: Við reyndumst eiga öll fötin því faðirinn afhenti ævinlega ný föt með drengnum á mánudögum (og passaði raunar vel að taka ekki ruslapokann í misgripum, hann má eiga það) en gleymdi alltaf að taka pokann með heim á föstudögum. Drengurinn var afar vel fataður og sá ekki högg á vatni þannig lagað í skúffunum svo við tókum ekkert eftir þessu … fyrr en vorið þegar óskilafötin voru hengd upp.
Ég man ekki til þess að hafi þurft að skamma drengina að ráði nema man að sá eldri tók orðalagið „punktur og basta“ sem hroðalegar skammir eða blótsyrði – „Ekki segja punkturogbasta“ hálfkjökraði litla skinnið og ég hætti alveg að nota þetta skelfilega orðalag (með rödduðu enni og sagt í raufararhafnarítónun).
Sjálf man ég sosum ekki eftir skömmum að ráði úr eigin uppeldi og svona eftir á séð virðist flest hafa mátt svo lengi sem krakkar voru úti svo þeir yrðu ekki eins og hundaskítur í framan. (Allir sem séð hafa hvítan þurran hundaskít vita hve alvarlegt yrði að fá það litaraft … en mikið sem ég hataði að vera úti á veturna í þeim skítakulda sem var alltaf þarna fyrir norðan!).
Það var sennilega ekki búið að finna upp uppeldi þegar ég ólst upp, fyrir utan þetta með hundaskítslúkkið og að tómatsósa væri óholl nema í algeru hófi, fiskát í óhófi væri ferlega hollt, hvítur sykur óhollur en púðursykur eiginlega bara meinhollur o.s.fr. Og svo var mjög ströng regla um að bannað væri að lemja litlu systur sínar, þótt þær væru oft óþolandi og maður þyrfti alltaf að vera að passa þær. Ég braut þá reglu mjög oft enda full ástæða til.
Þegar ég datt með heimalinginn í fanginu í ána og fór á bólakaf stökk faðir minn út í ána og bjargaði heimalingnum. Ég hefði sennilega drukknað ef ég hefði ekki fattað að standa upp – þetta var afskaplega grunn á, raunar einnig hlý enda hafði þar verið sundkennsla á gullaldarárum ungmennafélaganna. Familían breytti gömlu sundklefunum í hænsnahús og hafði þar 29 verpandi hænur + eina hænu sem var svo vitlaus að fljúga á prímusinn sem hafður til upphitunar að vetrarlagi og var alla sína ævi eftir það vanþroska og vangefin. Ég fékk að eiga hana sem gæludýr sem kom sér vel eftir heimalinginn, örlög hans voru sorgleg og hann endaði í kæfu. Örlög gæluhænunnar urðu líka mjög sorgleg en hún var of lítil og vanþroska til að hægt væri að éta hana.
Þegar yngsta systir mín, sem aldrei lét beygja sig þrátt fyrir að vera margsinnis vippað bak við hurð og hótað barsmíðum, henti hausnum af einu strákadúkkunni okkar (sem hét Dengsi) í ána þurfti ég að bíða í heilt ár þangað til ég var orðin nógu stór til að geta vaðið eftir hausnum af Dengsa. Og þá var hann orðinn eins og hundaskítur af því að liggja á árbotninum allan þennan tíma. Þeim fullorðnu datt ekki í hug að redda þessu.
Myndin er af okkur systrum – ég mátti búa við sífellt þukl ættingja sem lýstu því svo hástöfum yfir hve mikil hörmung væri að sjá hvað krakkinn væri horaður! Þær yngri þóttu hins vegar fögur börn, búttaðar eins og börn eiga að vera og með spékoppa og krullur … Ætti að vera auðvelt að sjá hvur er hvað.
Já, ég sé það að þótt ýmislegt hafi kannski klikkað í uppeldi sonanna er það smákökuflís hjá öllu því sem klikkaði í eigin uppeldi. Þökk sé leikskólunum sem búið var að finna upp þegar þeir voru litlir. Að vísu virkuðu ekki allar vísindalegu uppeldisaðferðir leikskólans, t.d. man ég eftir að hafa sótt þann eldri sem tilkynnti hróðugur, ásamt félaga sínum, að þeir væri einmitt nýbúnir að skjóta allar stelpurnar. Auðvitað voru öll leikfangavopn útlæg af leikskólanum en þeir notuðu sleifar til verksins …
Nú er spurningin: Mun því verða logið að mínum barnabörnum, sem enn eru í huga guðs, að sardínur séu veiddar í klósettunum á Akureyri?
(Þessi pistill birtist áður á bloggi mínu þann 30. apríl.)