Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Draumadísin

$
0
0

Það gerist oftar en ekki að ég vakna upp frá draumi og draumurinn er skýr í minninu en persónan sem leiðir drauminn eða er á einhvern hátt ráðandi afl í draumnum er næstum alltaf óljós eða ógreinileg í útliti. Hún gæti verið konan mín eða móðir mín eða hún gæti verið gömul vinkona. Ég er aldrei viss þegar ég vakna en tel mig þó vita hver hún var. Svo næsta dag er sú kenning horfin. Þessi pæling leiðir hugann að svissneska sálgreininum Carl Gustav Jung (1875-1961) og sýn hans á drauma.

Your visions will become clear only when you can look into your own heart. Who looks outside, dreams; who looks inside, awakes.

 - C.G. Jung

Í kenningum Jung fær þessi skuggavera ákveðið andlit og nafn því Jung áleit að kvenveran sem leiðir okkur karlmennina um Draumalandið, sé í raun til í heimi draumsins og að hún sé okkar verndarengill í þeim skilningi að hún leiði okkur til réttrar niðurstöðu í hverju máli sem vakan kallar á að leysa. Þessa arkitýpu (Animu) eða frummynd* telur Jung byggða á erfðum og því að í erfðabanka okkar séu sameiginleg mengi geymd frá frumbernsku sem birtast okkur í draumum. Með öðrum orðum að mannkynið eigi sér sameiginlegt upphaf og þar með ýmsa sameiginlega grunnþætti mannlegrar tilveru sem dúkka reglulega upp í draumum okkar.

*a primitive mental image inherited from the earliest human ancestors, and supposed to be present in the collective unconscious.

Í klippunni hér fyrir neðan er farið dýpra í kenningar Jung og Animan skoðuð frá fleiri sjónarhornum í tengslunum við sjálf karlmannsins.

Draumar lesenda

Lesandi góður, það er gaman að pæla í draumum og draumur þinn er þar engin undantekning. Að skoða táknin og sjá möguleikana sem í draumum felast getur veitt manni nýja sýn á eigið sjálf og hvernig maður viðri tilfinningar sínar sér og öðrum til hagsbóta. Hér er draumur frá lesanda Kvennablaðsins sem nefnir sig „ÁST“. Hann  fjallar um tilfinningar.

millimynd draumr

Draumur „ÁST“

Mig dreymdi draum í nótt sem mér fannst sterkur, en því miður athugaði ég ekki að skrifa hann niður en man svona helstu táknin.  Það sem ég  man var að ég reið hvítum hesti, berbakt, en sat öfug á honum. Mér fannst þetta frekar undarlegt og var að spá í hvernig ég gæti stjórnað honum, hvort ég ætti að láta hann fara áfram og ég horfa aftur eða hann fara afturábak og ég áfram (sem mér fannst ég gera).  Hins vegar tapaði ég honum og mér fannst hann fara sjálfur heim.

Í draumnum man ég eftir einhvers konar vatni því þegar ég vaknaði hugsaði ég með mér að það að dreyma vatn þýddi tilfinningar. Mér leið frekar vel í draumnum.

Veit að þetta er ekki mikið til að byggja á en bíð spennt :)

Ráðning

Í gömlum fræðum Íslendinga er hestur alltaf tákn orku og þolgæðis, einnig þykir það boða gæfu að dreyma hesta, sérstaklega ef þeir eru hvítir. Þá tengist hestur draumsins ástinni og þránni sem hún vekur.

Draumur þinn lýsir með öðrum orðum orku þinni og þrá sem þú virðist ekki ná að beisla og beina í rétta átt. Kraftur þinn og langanir virðast renna í sandinn og týnast. Þér finnst þú gera allt rétt en samt gerist ekkert. Öll þín orka fer í ekki neitt og þú skilur ekki um hvað málið snýst.

Rökhugsun er eitt og tilfinningar annað. Ef þú horfir inn í sál þína (vatnið) og leyfir tilfinningunum að renna mun hestur þinn ná áttum og draumur vöku þinnar rætast.

Draumráðningar

Ef þú vilt fá draum þinn ráðinn er þér frjálst að senda inn drauminn með fullu nafni, fæðingardegi og ári ásamt netfangi og dulnafni á: draumar@kvennabladid.is

Myndskreyting: Kristján Frímann Kristjánsson


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283