Quantcast
Channel: Kvennablaðið
Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283

Lengra en augað sér

$
0
0

Tora Victoria skrifar.

Til að byrja með langar mig að óska Austurrísku flytjendunum í Evróvision til hamingju með sigurinn í söngvakeppninni – til hamingju Conchita og Co.

Enn og aftur finn ég mig knúna til að tjá mig um málefni sem ætti að vera svo mikill óþarfi en virðist samt endalaust þurfa að impra á; ég er að tala um kyn og kyngreiningu.

Ég vona svo sannarlega, þó ég leyfi mér að efast aðeins, að Conchita hafi unnið sönglagakeppni evrópska útvarpsstöðva vegna hæfileika en ekki vegna útlits. En hvers vegna er ég að tala um útlitið? Jú einfaldlega vegna þess að Conchita lýtur út eins og kona en er samt í karlkynslíkama og meira að segja með skegg. Ekkert þekki ég til þessa austurríska flytjanda, en einhver sagði mér að Conchita, sem á allan hátt hegðar sér og talar á þann hátt að líkja má við konu, hafi ákveðið að vera ekki að raka sig til að fá fólk til að skoða þær kynjahugmyndir og afleidda fordóma sem fólk hefur þegar kemur að kynjamyndum. Ef svo er þá er það flott og ég tek ofan fyrir fólki sem slíkt tekur að sér.

conchita a stol minni

Ég er Trans og þarf næstum daglega að eiga við fordóma sem fólk hefur vegna þess að ég passa ekki inn í sterótýpiskar kynjahugmyndir fólks. Ég passa einfaldlega ekki inn því að ég er hvorki kona né karl. Vissulega fæddist ég í karlmannslíkama – en ég upplifi mig sem konu; hugur minn er kvenkyns á meðan líkaminn er karlkyns.

Margir sem fæðst hafa eins og ég, ákveða einhvern tíma á ævinni að fara í einhvers kona kynleiðréttingu, eins og nú er farið að kalla það. Ýmist í fulla kynleiðréttingu, með tilheyrandi skurðaðgerðum og hormónameðferðum, bara að hluta til, eða leifa sér einfaldlega að fara í kvenkyns útlit og láta af því að reyna að gangast upp í einhverju karlkynshlutverki. Það gerum við einfaldlega sem viðleitni til að líða betur í eigin skinni. Ég hef valið síðast talda kostinn – allavega enn sem komið er. Það ætti að gefa auga leið að manneskjur sem fæðast sem trans – því það er ekki eitthvað sem menn ákveða – vilja gjarna að fólk viðurkenni það. Þá á ég við að ef að endilega þarf að kyngreina manneskjuna, þá sé hún kyngreind eftir því sem hún upplifir sig; fremur en eftir einhverju öðru.

Ég upplifi mig sem konu – og því vil ég ekki að fólk ávarpi mig sem karl. Mér finnst það furðulegt, særandi, og óþarfi að þegar ég geri nánast allt sem í mínu valdi stendur, fyrir utan það að fara í einhverja læknisfræðilega aðgerð, til að koma því til skila að ég upplifi mig ekki sem karl – að samt þurfi sumir endilega (sérstaklega þeir sem þekki mig frá fornu fari) að ávarpa mig stöðugt sem karl. Sumt fólk getur ekki einu sinni sleppt því að kyngera ávarp og segja til dæmis bara halló í stað þess að segja blessaður.

Svo langt hefur þetta gengið að fólk hefur meira að segja spurt mig hvort ég hafi farið í eða hyggist fara í kynleiðréttingu. Fyrir mér ætti það ekki að skipta neinu máli hvort ég hafi farið í einhverskonar ferli hjá lækni eða hyggist gera það. Ég er manneskja sem upplifi mig á ákveðinn hátt. Ég upplifi mig sem konu. Hversu langt ég geng í því að koma því að hjá þér er svo þessi furðuleiki sem ég bara næ ekki. Ert þú til í að kvengera mig þegar ég hef farið í skurðaðgerð? Þegar ég hef hafið hormónameðferð? Látið fjarlægja skeggrótina? Hversu langt þarf ég að ganga áður en þú hættir að segja blessaður og ferð að segja blessuð? Af hverju er ekki nóg að ég gangi í kvenmannsfötum? Oftast sjá menn bara konu þegar þeir sjá mig í fjarska. Hvar nákvæmlega er þessi mystíska lína? Auðvitað mismunandi hjá hinum og þessum því miður. Einhverjir munu aldrei viðurkenna einhvern sem fæddist karl sem konu, sama hvað. Aðrir eiga ekki í neinum vandræðum með að taka fullt tillit til þess sem viðkomandi manneskja vill vera ávörpuð; og trúið mér ef ég upplifi mig sem konu, þá vil ég EKKI að þú ávarpir mig sem karl. Sem betur fer eru margir í mínum nánasta hóp sem vita að ég upplifi mig sem konu og ávarpa mig þar af leiðandi sem konu og það meira að segja þótt ég hafi ekki farið í skurðaðgerð á kynfærum eða taki hormóna og já – sé með skeggrót!

Þannig að plís; kona með skegg, karl í kvengervi. Whatever! Tökum bara tillit til hvors annars. Við erum mörg og margbreytileg – sem betur fer. Sumir eru með samkynhneigð, aðrir ekki, sumir eru fyrir bæði og sumir ekki neitt. Einhverjir upplifa sig sem annað kyn en líkaminn segir til um – er það ekki bara allt í lagi?

Til hamingju þið sem getið séð aðeins lengra og sýnt aðgát í nærveru sálar.


Viewing all articles
Browse latest Browse all 8283